Lífvænlegur staður í ytra sólkerfinu

img003344-br500_1094039.jpgÍ síðustu viku birtist stórmerkileg grein í tímaritinu Nature sem fékk því miður heldur litla athygli fjölmiðla.

Í ytra sólkerfinu, þar sem ríkir fimbulkuldi, er tungl ekkert ósvipað Íslandi að stærð (aðeins stærra), sem er lífvænlegt!

Stjörnufræðingar hafa fundið sterk sönnunargögn fyrir tilvist salts hafs undir ísskorpu Enkeladusar, eins af tunglum Satúrnusar. Með greiningu á gögnum frá Cassini geimfari NASA hafa stjarnvísindamenn fundið svipuð sölt og eru í höfum jarðar — natríum og kalíum — í ísögnum sem berast úr yfirborði þessa litla tungls. Efnið á rætur að rekja til stórra vatnsstróka sem stíga upp úr sprungum á suðurhveli tunglsins en þeir mynda einn af hringum Satúrnusar. Út frá þessum söltum draga stjörnufræðingar þá ályktun að undir ísskorpunni sé haf, saltur sjór.

Cassini aflaði gagnanna árin 2008 og 2009 þegar geimfarið flaug mjög nálægt Enkeladusi í gegnum strókana. Ísagnir rákust þá á geimryksmæli sem er um borð á 7 til 17 metra hraða á sekúndu. Við áreksturinn gufuðu agnirnar upp en skildu eftir sig söltin sem rykmælirinn efnagreindi.

Fyrst í vatninu eru sölt má draga þá ályktun að vatnið komist í snertingu við berg, djúpt í iðrum tunglsins. Þar leysir vatnið upp söltin og önnur steinefni í berginu. Saltvatnið þrýstist svo upp á við í gegnum sprungur á ísnum fyrir ofan og myndar stóra polla nálægt yfirborðinu. Opnist sprungur á ísskorpunni seytlar vatn upp á við og gýs með tilþrifum út í geiminn. Úr verða tignarlegir kaldir goshverir eins og sjá má á myndinni hér undir.

enkeladus-goshverir.jpg

Þessi köldu goshverir uppgötvuðust ekki fyrr en árið 2005 Cassini heimsótti Enkeladus. Tunglið sjálft fannst reyndar tvö hundruð og sextán árum fyrr, byltingarárið 1789. Þar var að verki ensk-þýski stjörnuáhugamaðurinn og tónskáldið William Herschel, sá hinn sami og fann reikistjörnuna Úranus.

Fljótandi vatn og næringarefni í vatninu þýða að Enkeladus er lífvænlegur staður. Hvort þar séu bakteríur eða annað líf er ómögulegt að segja til um enn sem komið er en mikið vona ég að menn sjái sér fært fyrr en síðar að senda þangað annað geimfar sem lendir við goshverina og rannsaki innihald þeirra.

Óralangt frá sólinni, á stað þar sem er -170°C frost gæti verið líf! Hver hefði trúað því?

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband