Hve oft fara loftsteinar eins og 2011 MD framhjá okkur?

Hann hefur heldur betur vakið athygli steinninn 2011 MD sem svífur framhjá jörðinni í 12.400 km hæð klukkan 17 í dag. Haraldur Sigurðsson hefur bloggað um steininn og höfum við litlu við þá fínu pistla hans að bæta. Loftsteinninn er 2 metrar á breidd en 20 metra langur og því ekkert ósvipaður strætó að stærð. Stefndi hann beint til okkar myndi hann brenna upp í lofthjúpnum, splundrast og litlir loftsteinar dreifast yfir stórt svæði. Það yrði magnað sjónarspil fyrir þá sem yrðu vitni að því.

Smástirnið 2011 MD fannst fyrr í þessum mánuði með LINEAR verkefninu. LINEAR stendur fyrir Lincoln Near-Earth Research og gengur út að leita að jarðnándarsmástirnum, þ.e.a.s. smástirnum sem hætta sér nálægt jörðinni og gætu átt það á hættu að rekast á hana. Sem betur fer hefur ekkert smástirni fundist sem gæti rekist á okkur.

En hversu oft gerist það að smástirni komast svona nálægt okkur? Þetta er ekki eins sjaldgæft og margir halda, heldur því sem næst árviss viðburður (hins vegar er sjaldgæft að þau séu svona stór). Hingað til hafa fundist þrjú önnur smástirni sem hafa komist nær okkur en 2011 MD:

  • 2008 TS26 - 9. október 2008. 1 metri í þvermál. Komst næst yfirborði jarðar í 7000 km hæð. Fannst eftir að það sveif framhjá.
  • 2004 FU162 - 31. mars 2004. 6 metrar í þvermál. Komst næst yfirborði jarðar í um 6400 km hæð.
  • 2011 CQ1 - 4. febrúar 2011. 1,3 metrar í þvermál. Komst næst yfirborði jarðar í um 5400 km hæð.

Miklu fleiri hafa farið framhjá jörðinni í álíka mikilli eða örlítið meiri hæð en 2011 MD síðustu ár eins og hér má sjá. 2011 MD er aðeins stærra en hin. 

Allir þessir steinar, 2011 MD þar með talinn, eru litlir og sæjust ekki með berum augum heldur aðeins stórum stjörnusjónaukum. 2011 MD fer framhjá suðurhveli jarðar eins og sjá má á þessum flottu hreyfimyndum. Hann sæist því aldrei frá Íslandi. 

Smástirnið 2008 TC3

sudan_loftsteinn.jpgMerkasta uppgötvunin hingað til var gerð 6. október 2008. Þá fannst smástirni á stærð við bíl sem stefndi beint á jörðina. Útreikningar sýndu að það myndi brenna upp í lofthjúpi jarðar klukkan 02:46 að íslenskum tíma yfir Súdan í norðausturhluta Afríku.

Stjörnufræðingar voru bókstaflega himinlifandi þegar þetta smástirni fannst. Þetta var nefnilega í fyrsta sinn sem mönnum tókst að spá fyrir um komu smástirnis inn í lofthjúp jarðar með fullkominni vissu. Örstutt frétt um þetta birtist á mbl.is þetta kvöld.

Spáin stóðst. Aðfaranótt 7. október 2008 birtist ægibjartur vígahnöttur á himninum yfir Súdan. Loftsteinninn splundraðist í mörg hundruð mola í um 37 km hæð og dreifðust loftsteinar yfir stórt svæði í eyðimörkinni í norðvestur Afríku. Því miður náðust engar myndir af jörðu af loftsteinum falla í gegnum lofthjúpinn enda myndavélar sennilega munaður sem fátækt fólk í þessum heimshluta getur leyft sér. 

Leit að brotunum var gerð í desember sama ár og lesa má um hér og skilaði fljótt árangri. Meira en 600 brot hafa fundist hingað til. Efnagreining leiddi í ljós að um sjaldgæfa tegund loftsteins var að ræða, svonefnda úreilíta. Slíkir steinar innihalda meðal annars steindina ólivín sem margir kannast við í íslenska basaltinu en líka kolefni, aðalefnið í lífi. Í brotunum hafa líka fundist amínósýrur, byggingarefni prótína, sem kom nokkuð á óvart. Það gæti því vel verið að lífið á jörðinni megi að einhverju leyti rekja til loftsteina

- Sævar
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Loftsteinninn 7. október 2008 féll um það leyti sem bankakerfið hjá okkur hrundi

http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/839705/

Ágúst H Bjarnason, 27.6.2011 kl. 13:02

2 identicon

 Og þessi markiði upphaf banalegu ríkistÓstjórnarinnar og kvislinganna í forrystu ASÍ.  Nú verður fallöxin brýnd.

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2011/06/27/kostnadarverdbolga_gengur_yfir/

Almúginn (IP-tala skráð) 27.6.2011 kl. 23:11

3 Smámynd: Birnuson

Almúgum almúgann!

Birnuson, 29.6.2011 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband