Annað stórfenglegt myndskeið af suðurljósunum séðum úr geimstöðinni

Fast á hæla seinustu bloggfærslu, þar sem við birtum glæsilegt time-lapse myndskeið af jörðinni með augum geimfara, birti NASA nýtt myndskeið, ekki síður stórkostlegra, af suðurljósunum séðum úr geimstöðinni:

Suðurljósin eru í um það bil 100 km hæð yfir jörðinni en geimstöðin er mun ofar eða í um 350 km hæð. Geimfararnir horfa því niður á ljósin. Efst í lofthjúpnum sést næturskinið (þunna gulleita rákin) sem er til komið vegna þess að útfjólublátt ljós frá sólinni örvar atóm og sameindir í lofthjúpnum svo þau byrja að glóa. Ef vel er að gáð sést stjörnumerkið Óríon, veiðimaðurinn mikli rísa á hvolfi þegar um 15 sekúndur eru liðnar af myndskeiðinu.

Litina í norðurljósunum má rekja til örvaðs súrefnis. Þegar agnir sólvindsins rekast á lofthjúpinn örva árekstrarnir súrefnisatómin svo þau gefa frá sér ljós með ákveðnum bylgjulengdum. Græni liturinn kemur frá bylgjulengd sem er 558 nanómetrar en rauði liturinn frá lengri bylgjulengd (630 nanómetrar). Báðar eru þessar bylgjulengdir innan sýnilega sviðs rafsegulrófsins og getum við þess vegna séð litina.

Myndirnar voru teknar 11. september síðastliðinn þegar geimstöðin var á sveimi yfir Ástralíu og síðan Nýja Sjálandi. Fyrir áhugasama er því miður ekki hægt að sjá geimstöðina frá Íslandi þar sem braut hennar liggur sjaldnast svo norðarlega.

Tengdar færslur

Mynd vikunnar er heldur ekki af lakara tagi!

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það þarf endilega að finna nothæft íslenskt orð fyrir time-lapse.  

Time-lapse   þýðir eiginlega   bið, hik, töf eða hlé.   Mætti kalla fyrirbærið time-lapse video til dæmis hikmynd?   Ekki ólíkt orðinu kvikmynd, rímar við það og er lýsandi.

Hvernig lýst Sævari Helga og öðrum á það?

Ágúst H Bjarnason, 19.9.2011 kl. 16:13

2 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Flott myndskeið!

Ps. er ekki hægt að kalla þetta hraðmynd eða hraðmyndaskeið?

Sumarliði Einar Daðason, 20.9.2011 kl. 13:31

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Alveg sammála því, það vantar sárlega orð yfir time-lapse. Þetta eru svo sem ágæta tillögur sem þið komið með hér en ég væri til í að heyra fleiri.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 21.9.2011 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband