Spegillinn á Rás 1 ruglar saman geimstöðinni og Júpíter

Í Speglinum á Rás 1 í kvöld var rætt við geimfarann Bonnie Dunbar sem stödd er hér á landi og flutti erindi í Háskóla Íslands í dag (fyrirlesturinn er á morgun, fimmtudag). Umfjöllunin var prýðileg en þar kom líka eftirfarandi fram:

Alþjóðlega geimrannsóknastöðin sem vel sést í skammdeginu þegar heiðskýrt er þar sem hún lónar í um fjögur hundruð og sextíu kílómetra hæð yfir jörðu. Frá Reykjavík sést hún á austurhimni reyndar til suðausturs, skært ljós stafar frá henni, oft nokkuð gulleitt.

 Það er algengur misskilningur að geimstöðin sjáist frá Íslandi. Svo er ekki. Braut hennar liggur ekki nógu norðarlega til þess að svo sé. Og ef hún sæist, þá myndi hún sjást í stutta stund þar sem hún ferðast hægt og rólega yfir himininn uns hún hverfur í myrkrið, alveg eins og hvert annað gervitungl, nema auðvitað mun skærari.

Lýsingin hér að ofan á við reikistjörnuna Júpíter. Hann er bjarta og áberandi stjarnan á austurhimni á kvöldin. Þú getur sannreynt þetta með stjörnusjónauka!

Hve margir ætli hafi heyrt þetta? Þeir sem ekki vita betur halda nú að Júpíter sé Alþjóðlega geimstöðin. Svona geta fjölmiðlar smám saman sáð misskilningi til fólks. En vonandi verður þetta bara leiðrétt.

jupiter-austurhiminn.jpg

Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum.

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Flestir sem ég spyr um björtu stjörnuna sem sést á kvöldin halda að hún sé Venus en það er alls ekki svo galið því þessar tvær reikistjörnur, Venus og Júpíter, eru miklu bjartari en aðrar stjörnur.

Annars er rétt að halda því til haga að fyrirlesturinn er víst á morgun kl. 16 í Öskju. Það eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

Sverrir

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 16.11.2011 kl. 19:31

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég hjó einmitt eftir þessu. Furðaði mig aðallega á því geimstöðin væri á einhverjum tilteknum stað á himninum sem hver annar fastur hlutur.

Emil Hannes Valgeirsson, 16.11.2011 kl. 22:03

3 identicon

Ég er búinn að halda fram í mörg ár að alþjóðlega heimstöðin sjáist frá Íslandi og sé skærasta stjarnan á himnum, nú síðast í gærkvöldi með fullt hús af gestum! Nú þarf ég að fara að vinna í því að vinda ofanaf þessum misskilningi... takk fyrir þetta Stjörnufræðivefur =)

Arnar (IP-tala skráð) 19.11.2011 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband