Verður björt halastjarna á himni í lok næsta árs?

518_original.jpgÞann 21. september síðastliðinn fundu tveir stjörnuáhugamenn, Artem Novichonok frá Rússlandi og Vitaly Nevsky frá Hvít-Rússlandi (sjá mynd hægra megin), halastjörnu sem gæti orðið einstaklega glæsileg á norðurhimni í lok árs 2013.

Halastjarnan nefnist C/2012 S1 (ISON). ISON er nafnið á stjörnustöð þeirra félaga en þar notuðu þeir 0,4 metra sjónauka til að finna halastjörnuna. Sá sjónauki er jafn stór stærsta stjörnusjónauka á Íslandi.

Strax í kjölfarið fannst halastjarnan á myndum sem teknar voru 28. desember 2011 og 28. janúar á þessu ári með öðrum sjónaukum.

Gögnin gerðu stjörnufræðingum kleift að reikna út braut halastjörnunnar mjög nákvæmlega.

Útreikningarnir sýna að í kringum 29. nóvember 2013 verður hún í aðeins 1,1 milljón km hæð yfir sólinni. Þegar halastjörnur komast svona nálægt sólu verða þær einstaklega bjartar. Svo gæti farið að halastjarnan verði með þeim björtustu sem sést hafa.

Um þessar mundir er C/2012 S1 (ISON) rúmlega sex sinnum lengra frá sólinni en jörðin (næstum einn milljarð km frá sólinni) og stefnir inn í sólkerfið.

Í ágúst á næsta ári verður hún um 2,5 sinnum lengra frá sólinni en jörðin. Í um það bil þeirri fjarlægð „kviknar á“ halastjörnum vegna hitans frá sólinni. Um leið eykst birta þeirra.

398_original.jpgÞann 1. október 2013 fer hún framhjá Mars í um 10 milljón km fjarlægð. Kannski nær Curiosity þá mynd af henni á Marshimninum. Það væri sjón að sjá!

Þann 26. desember verður hún svo næst jörðinni, þá í um 60 milljón km fjarlægð frá okkur.

Um þetta ríkir þó töluverð óvissa: Hún gæti orðið mjög áberandi og óhemju fögur á himninum en líka fjarað út.

Halastjarnan á hugsanlega rætur að rekja til Oortsskýsins þar sem hún hefur dvalið í yfir fjóra milljarða ára sem geddfreðinn ísköggull. Kjarninn gæti því verið mjög brothættur og ekki staðið af sér ferðina inn í sólkerfið. Það er einmitt vel þekkt að halastjörnur sem lofa góðu, sundrist áður en eitthvað verður úr þeim.

Komist hún ósködduð í gegnum ferðalagið gæti C/2012 S1 (ISON) orðið ein fegursta halastjarna sem prýtt hefur himininn um árabil, svipuð Ikeya-Seki árið 1965, McNaught árið 2007 og Lovejoy árið 2011. Hún gæti líka sést að degi til.

Þær tvær síðarnefndu sáust best frá suðurhveli jarðar en svo heppilega vill til að C/2012 S1 (ISON) mun sjást best frá norðurhveli. Jólin 2013 verður hún í stjörnumerkinu Herkúlesi og stefnir í norður. Halinn gæti þá teygt sig langt norður á himininn.

Við erum því vel staðsett til að sjá hana, ef af verður.

eso1153a.jpg

Halastjarnan Lovejoy yfir Very Large Telescope í Paranal stjörnustöðinni í desember 2011. Mynd: ESO/Gabriel Brammer

Fyrirlestur um Curiosity og námskeið

Annað kvöld klukkan 20:00 í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi fer fram fyrirlestur á vegum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness um Marsjeppann Curiosity. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Við minnum svo á námskeiðin okkar um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Á laugardaginn verður krakkanámskeið en almennt námskeið í næstu viku.

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband