Halastjarna fer (sennilega) hársbreidd framhjá Mars í október 2014

Í byrjun þessa árs (3. janúar) fann stjörnufræðingurinn Robert McNaught við Siding Spring stjörnustöðina í Ástralíu, halastjörnuna  C/2013 A1 (Siding Spring) (nafnið vísar til þess að þetta var fyrsta halastjarnan sem fannst árið 2013). Það merkilega við þessa halastjörnu er, að þann 19. október á næsta ári verður hún ótrúlega nálægt Mars — í innan við 37.000 km hæð yfir yfirborðinu!

Óvissan í útreikningum á braut halastjörnunnar er enn það mikil að ekki er hægt að útiloka árekstur við Mars, þótt það sé mjög ósennilegt að það gerist. Fleiri athuganir munu gera stjörnufræðingum kleift að reikna brautina út nákvæmlega. 

comet-siding-spring-mars-orbit-sim.gif

Ferill halastjörnunnar C/2013 A1 (Siding Spring) í október 2014 þegar hún verður einstaklega nálægt Mars. Mynd: JPL Small-body Database Browser / Emily Lakdawalla

Fyrir skömmu þaut smástirnið 2012 DA14 framhjá jörðinni í ekki ósvipaðri fjarlægð og komst raunar nær okkur en gervitungl á staðbraut. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur hefur tekið saman pistil um þann atburð sem lesa má hér.

Af þeim gervitunglum sem sveima um Mars nú um stundir nær evrópska geimfarið Mars Express mestri hæð, um 10.000 km, en öll hin brautarförin eru í 300 til 400 km hæð yfir Mars. Á Mars eru engin gervitungl á staðbraut svo engar líkur eru á að gervitunglin rekist á halastjörnuna.

Hins vegar er önnur hætta á ferðum.

Þegar halastjörnur ferðast inn í sólkerfið byrja þær að gufa upp vegna hitans frá sólinni. Þá losna frá þeim gastegundir, ís- og rykagnir sem mynda hjúp eða hadd í kringum kjarna halastjörnunnar. Kjarninn er lítill, kannski 1 til 10 km í þvermál (hugsanlega nokkrir tugir km, miklu stærri en smástirnið 2012 DA14), en hjúpurinn getur orðið feikistór, jafnvel meira en hundrað þúsund kílómetrar í þvermál!

mars_siding_spring_19-10-14.jpgÞegar halastjarnan þýtur framhjá Mars í október á næsta ári verður reikistjarnan því væntanlega innan í hjúpnum um tíma. Þá skapast hætta fyrir gervitunglin á braut um Mars.

Á þessum tíma verður halastjarnan á 56 km hraða á sekúndu. Stærð agnanna í hjúpnum skiptir máli; flestar eru örsmáar en aðrar geta verið nokkrir sentímetrar að stærð. Ef þessar litlu, hraðfleygu agnir rekast á gervitunglin geta þau laskast og jafnvel eyðilagst.

Jepparnir á Mars eru sennilega hólpnir. Flestar agnirnar munu brenna upp í lofthjúpi Mars í það sem gæti orðið stórkostlegustu stjörnuhrapasýningu sem sögur fara af. Ef þú stæðir á yfirborðinu sæirðu líklega mörg þúsund stjörnuhröp á klukkustund! Sannkallað loftsteinaregn!

Vonandi verður myndavélum jeppanna beint til himins þegar halastjarnan nálgast og fer framhjá. Það gætu náðst stórkostlegar myndir!

Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með gangi mála. Á meðan bíðum við eftir fyrri halastjörnunni af tveimur sem sjást með berum augum á þessu ári: Halastjörnunni PanStarrs.

p.s. Ég dýrka Mars og hreinlega elska þessi dásamlegu geimför sem þar eru en mikið væri það nú skemmtilegt ef þessi halastjarna rækist á reikistjörnuna. Þá yrðum við vitni að atburði sem gerist kannski á 100 milljón ára fresti.

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Er ekki sjens á að kómeta þessi skelli bara á jörðinni og valdi útdauða tegundarinar homo sapiens. Og það í beinni útsendingu!

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.2.2013 kl. 18:54

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Nei ætli það nokkuð. Ef þessi halastjarna stærri en sú sem tortímdi greyið risaeðlunum yrðu hamfarirnar enn skelfilegri. Það myndu fleiri tegundir en homo sapiens fara illa úr því.

Það væri aftur á móti skemmtilegt ef hún tæki sig nú til og rækist á Mars! Sjónarspil allra tíma væntanlega sem það yrði.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 28.2.2013 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband