Sú fjarlægasta?

Er þetta fjarlægasta vetrarbraut sem sést hefur í alheiminum hingað til? Líklega ekki.

Fyrir tveimur árum tilkynntu stjörnufræðingar um að fundist hefði önnur vetrarbraut sem við sjáum aðeins 500 milljón árum eftir Miklahvell, um það bil 200 milljón árum fyrr en vetrarbrautin sem fjallað er um í fréttinni. Hér er hægt að lesa allt um það en hér undir er stuttur útdráttur.

Stjörnufræðingar reikna út aldur þessara fyrirbæra með aðferð sem hefur verið sannreynd margoft. Skoðað er með litrófsgreiningu hve mikið teygst hefur á ljósi frá fyrirbæri af völdum útþenslu alheimsins. Þetta kallast rauðvik og er táknað með bókstafnum „z“. Almennt gildir að því meira sem rauðvik vetrarbrautar er, því fjarlægari er hún frá okkur.

Áður en Hubble geimsjónaukanum var skotið á loft gátu stjörnufræðingar aðeins greint vetrarbrautir með rauðvik í kringum z = 1 en það samsvarar um helmingi af aldri alheimsins. Fyrsta djúpmynd Hubbles var tekin árið 1995 en á henni sáust vetrarbrautir með rauðvik z = 4 sem samsvarar um 90% aftur að upphafi tímans. 

Árið 2009 mældu stjörnufræðingar (íslenskur stjörnufræðingur þeirra á meðal) gammablossa sem reyndist hafa rauðvik 8,2. Stuttu síðar mældist enn önnur vetrarbraut með rauðvik 8,6 og sló þar með met gammablossans. Hún birtist okkur eins og hún leit út um 600 milljón árum eftir Miklahvell. 

Vetrarbrautin sem fannst árið 2011 hefur enn meira rauðvik en öll þessi fyrirbæri, líka það sem sagt er frá í fréttinni, eða z = 10 svo fjarlægð hennar er enn meiri. Gallinn við þessa uppgötvun er sá að stjörnufræðingarnir mældu rauðvik hennar ekki beint, heldur með ljósmælingum í gegnum litsíur í myndavél Hubbles. Þess vegna hefur þessi uppgötvun ekki verið formlega „staðfest“. Þetta fyrirbæri er svo fjarlægt og svo dauft, að Hubble greinir það varla sjálfur. Við vitum að það er þarna úti og líklega töluvert fjarlægara en vetrarbrautin sem sagt er frá í fréttinni.

Fréttir af „fjarlægustu vetrarbrautinni“ berast okkur álíka reglulega og fréttir af vatni á Mars. Eftir því sem sjónaukar verða stærri og myndavélar næmari, því lengra aftur sjáum við. James Webb geimsjónaukinn, arftaki Hubble, á að greina ljós frá enn fjarlægari fyrirbærum, með rauðvik allt að z = 15. Svo gamalt ljós lagði af stað um 275 milljónum ára eftir Miklahvell. Hugsanlega sér hann en lengra aftur. Talið er að fyrstu stjörnurnar hafi myndast einhvern tímann á bilinu z = 15 til z = 30.

(Myndin sem fylgir fréttinni ætti ekki að vera eignuð AFP fréttastofunni. Þetta er mynd sem tekin var með VST sjónauka ESO af stjörnuþyrpingunni Westerlund 1 sem er í Vetrarbrautinni okkar. Hér er hægt að lesa allt um hana (mjög áhugaverð þyrping).)

- Sævar Helgi 


mbl.is Fjarlægasta vetrarbrautin fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ef veröldin er 13.7 milljarða ára og ekkert fer hraða en ljósið og ljósið frá þessari vetrabraut hefur verið í 30 milljarða ára á leið til járðar, hvernig stendur þá á að fundist hefur vertabraut sem varð til 16.4 milljörðum ára áður en heimirinn varð til???

joi (IP-tala skráð) 24.10.2013 kl. 12:47

2 identicon

Það sem getur ferðast hraðar en ljós er sjálft rúmið. Alheimurinn er að þenjst út með sífellt auknum hraða. Ef við miðum okkur við stjörnu sem er nógu langt í burtu þá myndi hún fjarlægjast okkur hraðar en ljós og er því horfin að eilífu (fyrir utan gamalt ljós sem er kannski ennþá á leiðinni hingað).

Gummi (IP-tala skráð) 24.10.2013 kl. 15:30

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Er þetta eitthvað sem að ÍSLENSKIR stjörnufræðingar mættu skoða nánar

(til að komast á milli staða í geimnum) frekar en að rýna inn í eilífðina í geimnum?

http://www.youtube.com/watch?v=SafwXdP7ylc&feature=related

Jón Þórhallsson, 24.10.2013 kl. 17:19

4 identicon

Enginn manneskja þekkir almættið ... samt býr almættið í öllu.

Þeir sem halda að þeir finni sannleikann í gegnum kíki

... alveg nákvæmlega sama hvað hann er stór ...

eru eins og trúgjörn börn sem trúa á jólasveininn Gluggagægi.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.10.2013 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband