Sjáðu bestu loftsteinadrífu ársins á föstudagskvöld

Ef veður leyfir föstudagskvöldið 13. desember skaltu horfa til himins. Þetta kvöld (og reyndar laugardagskvöldið líka) nær loftsteinadrífan Geminítar hámarki.

Í ár má búast við því að sjá um eða yfir 100 stjörnuhröp á klukkustund. Þú gætir sem sagt séð alla vega eitt stjörnuhrap á mínútur, jafnvel fleiri.

Öll virðast stjörnuhröpin stefna úr stjörnumerkinu Tvíburunum (Gemini) og dregur drífan nafn sitt af því. 

Dularfullir Geminítar

image_full.jpg Flestar loftsteinadrífur má rekja til ísagna sem hafa losnað af halastjörnum á leið þeirra í kringum sólina.

En Geminítar eru harla óvenjulegir.

Þá má nefnilega rekja til smástirnis — ekki halastjörnu.

Smástirnið nefnist 3200 Phaethon og er aðeins 5 km að stærð. Ef til vill hefur efni losnað af því þegar það gerðist nærgöngult við sólina. Sannast sagna er það þó ekki vitað.

Hugsanlega er 3200 Phaethon lítið brot úr smástirninu Pallas sem er hundrað sinnum stærra og eitt stærsta smástirnið í smástirnabeltinu.

Af öllum þeim efnisstraumum sem jörðin plægir sig í gegnum ár hvert, er Geminíta slóðin einna þéttust. Þessi drífa svíkur þess vegna sjaldnast.

Stjörnuhröpin sem þú sérð verða til þegar agnir á stærð við sandkorn eða litla steina falla í gegnum lofthjúp jarðar. Agnirnar ferðast á 35 km hraða á sekúndu að meðaltali svo þegar ein þeirra rekst á lofthjúpinn gufar hún hratt upp vegna núnings og skilur eftir sig hvíta slóð.

wally-pacholka1.jpg

Sérstaklega bjartur Geminíti springur fyrir ofan Mojave eyðimörkina í Bandaríkjunum þann 14. desember 2009. Mynd: Wally Pacholka / Astropics.com / TWAN

Hvert á að horfa?

Aðstæður til að fylgjast með Geminítum þetta árið eru ekki fullkomnar því tunglið er á lofti og kemur í veg fyrir að daufustu stjörnuhröpin sjáist. Engu að síður ætti enginn að láta það aftra sér frá því að horfa til himins.

Ekki er þörf á neinum sérstökum búnaði til að fylgjast með drífunni, aðeins augu (þótt vissulega gæti verið skemmtilegt að beina stjörnusjónauka að Júpíter og fleiri fyrirbærum sem eru á lofti um nóttina).

Komdu þér vel fyrir á dimmum stað, fjarri borgar- og bæjarljósunum, föstudagskvöldið 13. desember og horfðu í austurátt.

Notaðu stjörnukortið hér undir til að finna Kastor og Pollux, björtustu stjörnurnar í tvíburamerkinu en geislapunktur drífunnar er rétt fyrir ofan Kastor.

geminitar2013

Tvíburamerkið er á lofti fram á morgun en virknin verður sennilega mest þá, rétt áður en birtir af degi (besti tíminn til að fylgjast með er því laugardagsmorguninn 14. desember)

Leggstu á jörðina, láttu fara vel um þig og horfðu til himins!

Prófaðu að telja stjörnuhröpin og láttu okkur svo vita (t.d. á Facebook) hvað þú sást mörg!

(Þessi pistill birtist upphaflega í desember 2012)

- - -

Vísindi í jólapakkann!

Hvað á að gefa vísindaáhugafólkinu í fjölskyldunni? Við höfum tekið saman nokkrar hugmyndir að jólagjöfum fyrir börn og fullorðna sem við mælum heilshugar með og birt á Stjörnufræðivefnum!

- Sævar Helgi Bragason


mbl.is Sprenging og loftsteinaregn í Arizona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband