Forvitnilegur lendingarstaður Chang'e 3

Það var sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með velheppnaðari lendingu kínverska geimfarsins Chang’e 3 á tunglinu síðastliðinn laugardag. Það var eitthvað magnað við að horfa á beina sjónvarpsútsendingu frá tunglinu og horfa svo á tunglið í gegnum sjónauka örfáum mínútum síðar. „Þarna var geimfar að lenda, rétt áðan, og bíll að aka!“

20131215_5110402.jpg

Chang'e 3 á tunglinu séð með augum tungljeppans Yutu. Mynd: CNSA/CCTV

20131215_yutu_on-moon.jpg 

Yutu á tunglinu séð frá Chang'e 3 lendingarfarinu. Mynd: CNSA/CCTV

Geimfarið lenti rétt austan við fyrirhugaðan lendingarstað, rétt fyrir utan Regnbogaflóa (Sinus Iridum) á norðurhluta Regnhafsins (Mare Imbrium).

Og eiginlega er þessi lendingarstaður jarðfræðilega enn áhugaverðari en hinn. Chang’e 3 situr nefnilega á tegund af hrauni sem aldrei hefur verið rannsakað áður á tunglinu.

Chang’e 3 lenti ásamt Yutu jeppanum við austurbrún gríðarmikils hraunfláka sem er dekkra en eldra og ljósara hraun í Regnhafinu. Litrófsgreiningar hafa einmitt sýnt að hraunið sem Chang’e 3 er á er óvenju títanríkt, á meðan ljósari hraunin eru títansnauð. Litamunurinn á hraununum sést vel á myndinni hér undir.

lpod-dec15b-13.jpg

Chang'e 3 lenti á títanríku hrauni á Regnhafinu (örin bendir á lendingarstaðinn). Mynd: LPOD/Chuck Wood 

Höfin á tunglinu eru risavaxnar árekstradældir sem fyllst hafa upp af þessum hraunum. Á Regnhafinu eru nokkur af mestu hraunum tunglsins. Hraunið sem Chang’e 3 er á kom úr gosstöðvum sem eru 700 km fyrir sunnan lendingarstaðinn. Það að hraunið hafi runnið svo langt bendir til þess að það hafi verið mjög þunnfljótandi, mun meira en dæmigerð þunnfljótandi basalthraun á Jörðinni. Hvers vegna? Chang’e 3 getur vonandi hjálpað til við að svara því.

Hraunin í Regnhafinu virðast líka mun yngri en sambærilegar hraunsléttur sem kannaðar hafa verið á tunglinu.

Aldur yfirborða í sólkerfinu er fundinn út frá fjölda loftsteinagíga. Því fleiri gígar, því eldra er yfirborðið. Á tunglinu er aldur svæðis áætlaður út frá fjölda gíga og hann síðann borinn saman við svæðin sem sýni eru til frá eftir heimsóknir Apollo leiðangranna og sovésku Luna geimfaranna, en þau hafa verið aldursgreind.

Út frá þessum upplýsingum hefur verið áætlað að hraunin í Regnhafinu séu með yngstu hraunum tunglsins eða milli 1 og 2,5 milljarða ára. Til samanburðar eru flest þau svæði sem menn heimsóttu í Apollo leiðöngrunum milli 3,1 og 3,8 milljarða ára. Og þar sem veðrun er mjög hæg á tunglinu hafa upplýsingar um myndun hraunanna varðveist vel.

Fyrst hraunin í Regnhafinu eru ung er berghulan („jarðvegur“ tunglsins) þynnri en á mörgum öðrum stöðum. Fyrir vikið hafa litlir gígar grafist niður á berggrunninn undir berghulunni.

Á lendingarstað Chang’e 3, um tíu metra frá, sést 10-12 metra breiður gígur og grjót á börmum hans. Grjótið er úr berggrunninum fyrir neðan huluna, svo líklega er þykkt hennar aðeins 2-3 metrar. Á lendingarstað Apollo 11, sem lenti á einu elsta tunglhafinu, var þykkt hulunnar um og yfir 6 metrar. Ratsjáin á Yutu verður notuð til að mæla þykkt hulunnar og hraunlaganna fyrir neðan.

Á aðfangadag flýgur Lunar Reconnaissance Orbiter yfir lendingarstaðinn og smellir þá af myndum af Chang'e 3 og Yutu á yfirborðinu. 

Erfitt er að nálgast gögn frá Chang'e 3 sem skýrir hvers vegna flestar myndir sem við sjáum, eins og þær fyrir ofan, eru skjáskot úr fréttatímum. Vitgrannir bandarískir pólitíkusar koma í veg fyrir að NASA megi taka þátt í leiðangrinum, deila gögnum með Kína og birta upplýsingar á sínum vefsíðum. Pólitíkusarnir óttast að Kínverjar muni stela tækni þeirra. 

Þetta kemur sér illa fyrir annan bandarískan leiðangur sem nú er á braut um tunglið, LADEE, sem safnar upplýsingum um næfurþunnan lofthjúpinn sem umlykur tunglið. Vísindamenn LADEE hafa óskað eftir  gögnum frá Kínverjum um lendingu Chang'e 3 þar sem þau snerta beint mælingar LADEE.

Evrópa (ESA) er hins vegar í samstarfi við kínverska vísindamenn. Að sögn leiðangursstjóra verða gögn gerð opinber með tíð og tíma. 

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband