Fyrir hvað fengu þeir verðlaunin?

ccdflaga.jpgÞetta er fremur klén frétt, það verður að segjast. Örfáar línur um stórmerkileg verðlaun, örfáar línur um uppgötvanir sem hafa gerbreytt heiminum. Vonum að þeir bæti úr því í dag. Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði sem eru afhent í dag sýna nefnilega vel hvernig grunnrannsóknir í eðlisfræði geta gjörbreytt heiminum til hins betra.**Uppfært** Jæja, ég sé að fréttin er orðin öllu efnismeiri en í fyrstu. Gott hjá Mbl.is.

Willard Boyle og George Smith fá Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir að hafa fundið upp CCD myndflögurnar. Þú átt alveg örugglega CCD myndflögu. Þær eru í öllum stafrænum myndavélum nú til dag, þinni eigin vasamyndavél og líka í myndavél Hubblessjónaukans.

Það sem hér fer á eftir er að mestu unnið upp úr grein á Stjörnufræðivefnum um sjónauka og rannsóknir í stjarnvísindum.

CCD myndflögurnar hafa líka gjörbylt rannsóknum í stjarnvísindum þegar þær komu fram árið 1969. CCD flögur leystu silfurhalíð af hólmi í stafrænu byltingunni. Pixlar komu í stað korna og í dag eru ljósmyndir teknar á miklu skemmri tíma en áður.

En hvað er CCD flaga? CCD flaga er net ljósnæmra pixla úr kísli. Við lýsingu safnar hver pixill rafhleðslu í hlutfalli við magn þess ljóss sem á hann lendir. Eftir lýsinguna er hleðslan lesin rafrænt og breytt í ljósmynd. Fyrstu tvívíðu CCD flögurnar voru aðeins 100 x 100 pixlar en í dag hafa jafnvel símamyndavélar nokkrar milljónir pixla eða megapixla.

CCD flögur sem stjörnufræðingar nota eru sérstaklega ljósnæmar. Svo þær verði enn ljósnæmari eru þær kældar langt niður undir frostmark með fljótandi nitri. Næstum hver einasta ljóseind er fönguð. Það þýðir að lýsingartíminn getur orðið umtalsvert skemmri. Það sem áður tók ljósmyndaplötu að fanga á klukkustund nær CCD myndflaga á fáeinum mínútum, jafnvel með smærri sjónauka. Stjörnufræðingar hafa smíðað risastórar CCD myndavélar með hundruð milljóna pixla upplausn. 

Google sjónaukinn Large Synoptic Sky Survey

Árið 2015 opnast nýr gluggi út í alheiminn þegar Large Synoptic Sky Survey sjónaukinn verður tekinn í notkun. Þessi öflugi sjónauki verður með 8,4 metra breiðan spegil, sjónsvið á svið fimmtíu full tungl og þriggja gígapixla CCD myndavél sem tekur 15 sekúndna ljósmyndir samfleytt af himninum.

Vonir standa til um að sjónaukinn ljósmyndi næstum allt himinhvolfið á þriggja nátta fresti. Vænst er til þess að sjónaukinn safni þrjátíu þúsund gígabætum (30 terabæt) af gögnum á einni nóttu - hrikalegt gagnamagn sem verður unnið, greint og flokkað í rauntíma þökk sé samstarfi við tölvurisann Google. Niðurstöðurnar verða öllum aðgengilegar á internetinu. 

Og þá er eins gott að hafa góða nettengingu. Kannski ljósleiðaratengingu, þökk sé þriðja verðlaunahafanum Charles Kao.

Þessi pistill er að mestu unninn úr grein af Stjörnufræðivefnum


mbl.is Þrír deila Nóbelsverðlaunum í eðlisfræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk kærlega

Greinagóð og skýr viðbót.

Arnar Pálsson, 6.10.2009 kl. 13:52

2 identicon

Flottur texti

Gunni (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband