Breytingar á forsíðu mbl.is

Ég verð að viðurkenna umtalsverð vonbrigði með umfjöllun íslenskra vefmiðla um tækni og vísindi. Fréttir birtast alltof sjaldan og þær fáu sem birtast fá litla sem enga athygli. Fréttamennirnir á mbl.is geta alveg skrifað fínar vísinda- og tæknifréttir, en ég skil aftur mjög vel að það sé letjandi þegar sífellt er verið að hrauna yfir þær fáu fréttir sem birtast. Það er lítið mál að senda uppbyggilegar athugasemdir á netfrett@mbl.is. Í þeim fáu skiptum sem ég hef gert það hafa fréttirnar undantekningalaust verið lagfærðar.

Nú sé ég að búið er að breyta forsíðu mbl.is til hins verra, að mínu mati. Búið er að færa dálkinn "Tækni og vísindi" neðst á síðuna, undir slúðurdálknum og "Matur og vín". Meira að segja stjörnuspáin er á meira áberandi stað. Búið er að setja afþreyingarmyndskeið inn á staðinn þar sem Tækni og vísindi voru og í dag er það klósetthúmor sem á að trekkja að.

Ég heyrði það fyrir stuttu að Vísir.is væri kominn upp fyrir mbl.is í heimsóknum. Kannski þetta sé afleiðing þess. Vísir.is hefur hingað til ekki þótt jafn traustur vefur og mbl.is. Er þetta merki um uppgjöf og áhugaleysi mbl.is á vísindafréttum? Mér finnst hreinlega að fréttavefur sem ætlar að taka sig alvarlega eigi að halda slúðurfréttum í lágmarki og hafa þær neðst á síðunni og sleppa algjörlega "fyndum" myndskeiðum. Er mbl.is afþreyingarvefur eða fréttavefur? Þeir verða eiginlega að gera það upp við sig. 

---

Nýjustu Vísindaþættirnir eru komnir á vefinn. Í þar síðustu viku ræddum við Björn Berg um slæm og góð vísindi í kvikmyndum og í síðustu viku ræddi Björn við Örn Arnaldsson stærðfræðing um stærðfræði. Í gær spjölluðum við Björn svo við Jón Ólafsson prófessor í haffræði við HÍ um súrnun sjávar og breytingar sem orðið hafa á hafinu. Þættirnir eru að sjálfsögðu á Stjörnufræðivefnum.

---

Þetta er leiðinlegasta bloggfærsla sem ég hef skrifað. Tilefnið er ærið. Skrifa um eitthvað meira hressandi á morgun eða föstudaginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Já, leiðinleg breyting hjá þeim.  En "Tækni og vísindi" er sem betur fer en þá á sínum stað í stikunni undir "Forsíða"

Arnar, 16.12.2009 kl. 16:28

2 identicon

Mæltu heilastur. Sá hluti lesendahóps fjölmiðla sem áhuga hefur á fréttum af vísindum er stórlega vanmetinn. Samanber hvað undirtektir við vísindavef HÍ voru miklu meiri en menn héldu. Gjarnan eru þetta ungir lesendur sem miðlarnir eru þarna að vanrækja.

Gagarýnir (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 16:58

3 identicon

Visir.is er alls ekki kominn yfir Mbl.is. Samkvæmt nýjustu mælingum Modernus komu 330 þúsund notendur á Moggavefinn í liðinni viku en 255 þúsund á Visir.

Sjá Modernus.is > samræmd vefmæling

Halldóra (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 19:01

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Takk fyrir það Halldóra, gott að vita.

Ég man hreinlega ekki hvar ég sá þetta, annars hefði ég vísað á það.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 16.12.2009 kl. 19:35

5 identicon

Það getur verið að þú hafir séð þetta hjá mér.

Samkvæmt mælingum alexa.com, þá fór visir.is fram úr mbl.is í einn dag. Það gekk til baka, en ljóst er að visir.is er í hörku sókn. Það sést vel ef línuritið fyrir Daily Reach er stillt á max (2ár).  Líklegt er að sókn visir.is tengist áherslu þeirra á slúðurfréttir.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband