24.9.2009 | 15:19
Árekstur við tunglið í næsta mánuði
Hér er frétt um sama mál á Stjörnufræðivefnum
Eins og segir í fréttinni hafa þrjú geimför, að því er virðist, fundið merki um vatn á tunglinu. Vatnið er reyndar í frekar litlu magni og aðallega í formi hýdroxíls (OH-), vatnssameindar sem búin er að missa annað vetnisatóm sitt. **Uppfært** Fréttamannafundur NASA í dag skýrir frá því að á tunglinu eru líka ótvíræð merki um hefðbundið vatn, H2O!! Það eru spennandi fréttir. Þar kom einnig fram að ef við myndum draga allt vatn úr tunglgrjótinu sem Apollo geimfararnir komu með til jarðar myndi það fylla eina matskeið.
Í meira en fjóra áratugi hafa vísindamenn velt fyrir sér hvort vatnís sé að finna á tunglinu. Þessari spurningu náðist ekki að svara með Apollo leiðöngrunum.
Ís gæti hafa borist til tunglsins með halastjörnum í gegnum tíðina og safnast saman í jarðveginn, undir yfirborðið, en einkum og sér í lagi í djúpum gígum á pólsvæðum tunglsins þar sem sólarljóss nýtur aldrei. Í eilífu myrkri eru gígarnir algjörir kuldapollar. Hitastigið fer aldrei upp fyrir -173°C. Þar gæti ís notið skjóls frá geislum sólar og viðhaldist í milljarða ára.
En hvers vegna hafa menn svona mikinn áhuga á að finna vatn á tunglinu? Vatn hefði mjög mikilvæga þýðingu fyrir vísindamenn og geimferðir í framtíðinni. Tunglfarar sæju t.d. hag í því að nýta vatnið til að útbúa drykkjarvatn, kælivökva, súrefni til að draga andan og vetni í eldflaugaeldsneyti.
Í augum reikistjörnufræðinga er vatnið sannkölluð fjársjóðskista. Allir Íslendingar vita að íslenskir jöklar geyma heilmiklar upplýsingar um jarðsögu landsins, hvort sem er um veðurfar eða eldgos. Á sama hátt geymir ísinn á tunglinu upplýsingar um tíðni halastjörnuárekstra í sögu sólkerfisins, efnainnihald halastjarna og þar af leiðandi upplýsingar um elsta efni sólkerfisins. Með þessum upplýsingum gætu stjörnufræðingar dregið upp nákvæmari mynd af myndunar- og þróunarsögu sólkerfisins.
Þessi uppgötvun er ekki beint þær sundlaugar af vatni sem vonast er til að finna í gígum tunglsins. Þetta vatn virðist dreift um yfirborð tunglsins og það er án efa mjög erfitt og kostnaðarsamt að ætla sér að nýta það.
Árekstur við tunglið í næsta mánuði
Þann 9. október næstkomandi, klukkan 11:30 að íslenskum tíma, tveggja tonna skeyti (sem er á stærð við stóran pallbíl eða jeppa eins og Land Cruiser) rekast á gíginn Cabeus A á suðurpóli tunglsins. Skeytið er í raun efsta stig Centaur eldflaugarinnar sem kom Lunar Reconnaissance Orbiter og LCROSS út í geiminn til að byrja með. Skeytið mun rekast á tunglið á yfir 9000 km hraða á klukkustund (tvöfaldur hraði byssukúlu). LCROSS mun fljúga inn í gas- og rykstrókinn sem verður til við áreksturinn og mæla eiginleika hans áður en það rekst sjálft á yfirborðið skömmu síðar. Áætlað er að áreksturinn verði föstudaginn 9. október kl. 11:30 að íslenskum tíma. Tunglið er þá á vesturhimni yfir Íslandi, en áreksturinn verður tæplega sýnilegur í dagsbirtu.
Þú getur lesið meira um Lunar Reconnaissance Orbiter og LCROSS á Stjörnufræðivefnum:
---
Við minnum svo á þátttöku Stjörnuskoðunarfélagsins í Vísindavöku Rannís annað kvöld, föstudagskvöldið 25. september, í listasafni Reykjavíkur. Þar verður meðal annars loftsteinn til sýnis.
Við minnum líka á námskeiðið okkar í stjörnufræði og stjörnuskoðun í október.
![]() |
Vatn fannst á tunglinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 25.9.2009 kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.9.2009 | 13:01
Vísindavaka Rannís á föstudagskvöldið
Hin árlega Vísindavaka RANNÍS fer fram föstudaginn 25. september í Listasafni Reykjavíkur kl. 17:00-22:00. Á Vísindavöku gefst almenningi kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í hinum ýmsu vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Öll fjölskyldan finnur eitthvað við sitt hæfi á Vísindavöku, en hún er haldin samtímis um alla Evrópu á Degi evrópska vísindamannsins. RANNÍS stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi og í ár er samstarfsaðilum á landsbyggðinni boðið að vera með og kynna rannsóknir og fræði um allt land.
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness tók í fyrsta sinn þátt í Vísindavökunni árið 2008. Í ár verða ljósmyndir sýndar af undrum alheimsins og fólki boðið að kíkja í gegnum Galíleóssjónaukann. Tímaritið Undur alheimsins verður að sjálfsögðu til sölu en einnig verða einhverjir glaðningar gefnir. Hver veit nema loftsteinn verði til sýnis?
---
Undanfarin ár hafa Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn staðið fyrir námskeiðum um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Námskeiðin eru ætluð þeim sem eru að stíga fyrstu skrefin og er boðið upp á fræðslu um áhugaverð fyrirbæri á himninum auk kennslu í grunnatriðum sem tengjast sjónaukum. Skemmst er frá því að segja að námskeiðin hafa hlotið góðar undirtektir og vonandi hjálpað einhverjum af stað við að leggja stund á þetta skemmtilega áhugamál.
Nú í haust er ætlunin að endurtaka leikinn og bjóða upp á byrjendanámskeið 6.-7. október. Verður það með svipuðu sniði og síðast: blanda af fyrirlestrum og fræðslu um sjónauka. Skráning er hafin og eru nánari upplýsingar á námskeiðasíðunni. Einnig er hægt að skrá sig með að fara beint á skráningarsíðuna.
23.9.2009 | 10:15
Bósi Ljósár við stífar æfingar
Mér finnst þetta góð hugmynd hjá NASA og þeir mættu gera meira af þessu. Þegar við í Stjörnuskoðunarfélaginu vorum með krakkanámskeið fyrr á árinu notuðum við Wall-E til að líkja eftir Marsjeppunum Spirit og Opportunity, en Wall-E er einmitt að hluta til byggður á þeim.
Bósi Ljósár er nefndur eftir Buzz Aldrin sem var flugmaður tunglferjunnar í Apollo 11 og næstfyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið. Hér er Bósi Ljósár við "stífar" æfingar með nafna sínum:
Ég las nýverið ævisögu Buzz Aldrin sem nefnist Magnificent Desolation. Þar lýsir hann mjög opinskátt baráttu sinni við þunglyndi og alkóhólisma. Sem betur fer hefur hann náð sér af því. Buzz Aldrin er sá Apollo geimfari sem er hvað mest áberandi. Hann hefur oft komið fram í spjallþáttum vestanhafs, t.d. hjá David Letterman. Viðtal Ali G við þennan merka mann er helvíti skemmtilegt.
Já, og vissir þú að Buzz Aldrin var fyrsti maðurinn sem pissaði á sig á tunglinu? Skemmtileg staðreynd. Hann pissaði reyndar í poka sem geimfararnir báru innan í tunglbúningnum. Maðurinn er hetja.
Því miður þarf hann og aðrir tunglfarar að glíma við tungllendingarsamsærisbjánana. Einn af forsprökkum samsærisbullsins, Bart Sibrel, hefur ítrekað verið staðinn af því að elta og áreita tunglfarna. Einu sinni elti hann Buzz Aldrin þar sem Buzz var á leið í viðtal og krafðist þess að hann viðurkenndi að tungllendingin væri fölsuð. Þegar vitleysingurinn Bart Sibrel öskraði á Buzz: "You are liar and a coward," tók Buzz einn góðan vinstrikrók og kýldi fíflið. Sibrel, bjáninn sem hann er, kærði Buzz fyrir líkamsárás en sem betur fer tók dómarinn í málinu ekki mark á þessum vitleysingi og lét málið falla niður.
- Nánar um Apollo geimáætlunina á Stjörnufræðivefnum.
![]() |
Bósi Ljósár slær vistarmet í geimnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2009 | 14:37
Vorboðinn ljúfi
Eins og kannski einhverjir vita er Cassini geimfarið á hringsóli um eina fallegustu reikistjörnu sólkerfisins, sjálfan Satúrnus. Aðeins degi eftir vorjafndægur á Satúrnusi (12. ágúst 2009) tók Cassini geimfarið 75 ljósmyndir af reikistjörnunni sem síðan voru settar saman í eina stórkostlega panoramamynd af Satúrnusi og hringum hans. Þetta er sjaldgæf og sérskennileg sýn á Satúrnus þar sem sólin skín næstum beint á miðbauginn. Þessar lýsingaraðstæður valda því að hringarnir eru tiltölulega dimmir nema þar sem endurvarpað ljós frá Satúrnusi sjálfum rekst á þá. Skuggar hringanna mynda örþunna línu í mitti Satúrnusar. Þetta er vorboðinn ljúfi á Satúrnusi.
Við jaðar hringanna sjást nokkur fylgitungl Satúrnusar. Janus (179 km í þvermál) er í neðra vinstra horninu á myndinni. Epímeþeifur (113 km) er nærri miðju, neðst. Pandóra (81 km) er utan hringanna hægra meginn á myndinni og Atlas (30 km) er innan hins örþunna F-hrings hægra meginn á myndinni. Aðrir bjartir blettir í bakgrunninum eru fjarlægar stjörnur.
Ég skora á þig að skoða myndina í betri upplausn hér. Hún er hreint stórkostleg!! Þvílík unun sem það er að vera upp á þeim tíma þegar vísindin gera okkur kleift að sjá slíkt listaverk í náttúrunni.
Það væri ekki úr vegi fyrir fjölmiðla landsins að birta þessa mynd hjá sér. Til dæmis væri hægt að sleppa plássinu undir slúðurdálkana eða stjörnuspekina og setja myndina í staðinn.
----
Í dag verður því miður endurfluttur Vísindaþáttur á dagskrá Útvarps Sögu. Ástæðan er einfaldlega flensa annars þáttarstjórnanda en hinn er staddur erlendis. Í síðustu viku leit Ólafur Ingólfsson prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands í heimsókn og er þátturinn að sjálfsögðu aðgengilegur á vefnum.
Við mætum bara hressir í næstu viku með eitthvað nýtt og spennandi úr heimi vísindanna.
----
Vinur okkar hann Helgi Hrafn Guðmundsson, blaðamaður á Skakka turninum, skrifaði fróðlega grein um ferðalög til Mars í nýjasta hefti Skakka turnsins. Þar er hugmyndum um mannaða ferð til Mars, aðra leiðina, lýst. Ég hafði heyrt um þessa hugmynd fyrir nokkru síðan og þótti hún áhugaverð, en ég hef enga trú á að hún verði nokkurn tímann að veruleika. Geimferðastofnanir myndu sennilega aldrei senda fólk fyrir skattpeninga almennings í sjálfsmorðsleiðangur til annars hnattar, jafnvel þótt við myndum læra óskaplega mikið af því.
Mig langar til heldur betur til Mars og færi á stundinni ef mér byðist það. En ég vildi líka komast heim aftur, færa jarðfræðingum grjót og jarðveg til ítarlegra rannsókna, sýna ljósmyndir af ferðalaginu og segja fólki frá ævintýrinu.
Það er líka gaman að segja frá því að heimildirnar í blaðinu eru meðal annars úr þessari grein um Mars á Stjörnufræðivefnum.
----
Ef það væri ekki fyrir þessa bévítans rigningu alltaf hreint hér á landi, þá væri nú hægt að fara út með handsjónauka eða stjörnusjónauka og skoða fallega vetrarbraut, Andrómeduvetrarbrautina. Sverrir lauk nýverið við að skrifa stuttan pistil um þennan nágranna okkar í alheiminum og hvar hana er að finna á næturhimninum. Kortin gætu nýst þér mjög vel til að finna hana.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.9.2009 | 20:09
Tuttugu ár frá leiðangurslokum Voyager 2
Þann 20. ágúst 1977 var Voyager 2, ómönnuðu könnunarfari, skotið út í geiminn frá Canaveralhöfða í Flórída. Á ferðalagi sínu heimsótti Voyager 2 fjórar reikistjörnur og tungl þeirra, þar á meðal tvær reikistjörnur sem ekkert geimfar hafði heimsótt áður, Úranus og Neptúnus. Fá geimför hafa kennt okkur meira um undur sólkerfisins en Voyager kannarnir eins og Carl Sagan segir frá á þessu myndskeiði úr sjötta þætti Cosmos þáttaraðarinnar, sem er óumdeilanlega bestu sjónvarpsþættir sögunnar:
Þess er nú minnst að tuttugu ár eru liðin frá leiðangurslokum Voyagers 2 þegar geimfarið geystist framhjá Neptúnusi og Tríton í lok ágúst 1989. För þess var þá heitið út úr sólkerfinu, út í víðáttur Vetrarbrautarinnar.
Í maí 2008 var Voyager 2 í ríflega 86 stjarnfræðieininga fjarlægð frá sólinni (tæpir 13 milljarðar km) og fjarlægðist með hraðanum 16 km/s. Það þýðir að geimfarið fjarlægist um 3,3 stjarnfræðieiningar á ári. Voyager stefnir í átt að stjörnumerkinu Páfuglinum (Pavo) sem sést ekki frá Íslandi. Geimfarið stefnir ekki í átt að neinni tiltekinni stjörnu. Reiknað er með því að samband haldist við geimfarið til ársins 2025, eða meðan rafmagnið endist, þá um 48 árum eftir að því var skotið á loft.
Ég er of ungur til að muna eftir þessum leiðangri, því miður. Eftir stutta könnun á Tímarit.is sýnist mér þó sem leiðangurinn hafi ekki fengið sömu athygli og hann átti skilið. En það er víst ekkert nýtt, fjölmiðlar hafa því miður ótrúlega lítinn áhuga á vísindum, jafnvel þótt fólk hafi mjög gaman af þeim. Því þarf að breyta.
----
Í gær var birt ljósmynd frá Swift gervitunglinu af Andrómeduvetrarbrautinni í útbláu ljósi. Eins og svo oft vill verða með ljósmyndir úr stjörnufræðinni er myndin stórglæsileg. Þú getur notið hennar hér.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.9.2009 | 16:54
GigaGalaxy Zoom
Stjörnustöð Evrópu á suðurhveli (ESO) birti í gær gagnvirkt 360 gráðu kort af öllum næturhimninum. Kortið eða myndin er hvorki meira né minna en 800 milljón pixlar (80 megapixlar) og sýnir himinninn eins og hann birtist okkur með berum augum við bestu hugsanlegu aðstæður í Chile og á Kanaríeyjum. Ljósmyndarinn tók myndirnar með Nikon D3 myndavél.
Hægt er að skoða þetta glæsilega kort hér. Lesa má fréttatilkynningu ESO hér. Hugmyndir eru uppi um íslenska útgáfu, en við sjáum hvað setur.
----
Nú getur þú orðið "aðdáandi" bestu vefsíðu Vetrarbrautarinnar, og þótt víðar væri leitað, á Facebook. Það er um að gera, því þarna póstum við inn nýjustu fréttum, um leið og þær birtast, segjum frá áhugaverðum fyrirbærum á himninum og svo framvegis. Það ku víst vera mikilvægt á veraldarvefnum í dag að tileinka sér "social networking". Við reynum það og erum því með síðu á Facebook, Twitter, YouTube, Flickr og hér á Blog.is. Er eitthvað eftir?
----
Nýjustu Vísindaþættirnir eru komnir á netið. Hægt er að hlusta á þá hér. Í seinustu viku spjallaði Svanur Sigurbjörnsson læknir um óhefðbundnar lækningar og heilsukukl með áherslu á detox, það eldfima viðfangsefni. Í gær var svo Ólafur Ingólfsson, prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, í góðu spjalli um rannsóknir hans á jöklunarsögu Íslands og heimskautasvæðanna, en einnig var komið inn á loftslagssögu jarðar síðastliðin 600 milljón ár.
Nú man ég hvað var eftir, við þurfum auðvitað að setja Vísindaþáttinn upp sem podcast sem hægt er að hlaða sjálfkrafa niður með hjálp iTunes. Stefnum að því í vetur.
----
Veist þú hvað Sjöstirnið heitir á japönsku?
15.9.2009 | 11:57
Jarðsaga í Vísindaþættinum í dag
Í Vísindaþættinum í dag verður fjallað um sögu lífs og jarðar, reyndar með áherslu á jarðfræðina að þessu sinni. Í heimsókn kemur bloggvinur okkar, jarðfræðingurinn Ólafur Ingólfsson, sem svo vill til að er að kenna mér jarðsögu í Háskólanum á þessu misseri. Ólafur hefur stundað rannsóknir víða um heim, meðal annars í Suður Afríku, Botswana, Suðurheimskautinu og á Svalbarða.
Þátturinn er á dagskrá Útvarps Sögu milli klukkan 17 og 18 í dag, þriðjudag. Þátturinn verður svo aðgengilegur á Stjörnufræðivefnum innan nokkurra daga.
9.9.2009 | 17:45
Hann er mættur aftur, öflugri en nokkru sinni fyrr
Stjörnufræðingar birtu í dag fyrstu myndirnar frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA eftir viðgerðarleiðangurinn í maí síðastliðnum. Birtar voru myndir og gögn frá fjórum af sex vísindatækjum sjónaukans. Hubble er svo sannarlega mættur aftur!
Stjörnufræðivefurinn fylgdist grannt með í maí síðastliðnum þegar geimfarar heimsóttu Hubblessjónaukann í hinsta sinn. Öll helstu markmið leiðangursins náðust. Sett voru upp tvö ný mælitæki og gert við gamla myndavél sem hafði bilað. Skipt var um rafhlöður og stjórnbúnað og miðunarbúnaður sjónaukans endurnýjaður. Loks settu geimfarar upp nýjar hlífar til þess að verja sjónaukann fyrir ryki sem hann rekst á í geimnum. Eftir þessa endurnýjun ætti sjónaukinn að eiga nokkur góð ár eftir.
Síðustu mánuði hefur sjónaukinn verið í stífri endurhæfingu vísindamanna og verkfræðinga. Það hefur svo sannarlega borið árangur nýju myndirnar eru hver annarri glæsilegri.
Þú getur séð nýju myndirnar hér! Njóttu vel og lengi.
8.9.2009 | 01:49
Stjörnuteiti með vísundum á Elgseyju
Ég fór í fyrsta stjörnuteitið mitt hér í Kanada í gær. Það verður ekki annað sagt en að staðsetningin hafi verið falleg við vatn í Elk Island Park þjóðgarðinum um 60 km austur af Edmonton. Ég hef tekið þátt í allmörgum stjörnuteitum á Íslandi sem hafa yfirleitt heppnast vel. Það var því mjög forvitnilegt fyrir mig að sjá hvernig stórt og gamalgróið félag stæði að málum.
Það var heilmikil dagskrá til viðbótar við sjálfa stjörnuskoðunina. Í garðinum er leikhús þar sem hægt er að vera með viðburði innandyra. Það hefur reynst vel því septembervindar hafa ekki blásið mjög byrlega þau þrjú ár sem þetta stjörnuteitið hefur verið haldið. Þetta ár reyndist engin undantekning því aflýsa þurfti öllu um tíuleytið þegar skall á stormur á svæðinu.
Staðarhaldarar í Elk Island Park hafa markvissa stefnu um að halda lýsingu í lágmarki og eru að vinna að því að verða alþjóðlegt verndarsvæði fyrir nátthiminn (International Dark Sky Reserve). Því var vel við hæfi að Peter Strasser, framkvæmdastjóri hjá International Dark Sky Association, hæfi dagskrána innandyra á erindi um ljósmengun og hvernig hægt sé að bæta lýsingu svo stjörnuhimininn hverfi ekki í ljósahafinu. Ég hafði áður verið á tveimur fyrirlestrum hjá Peter á föstudaginn svo efnið var kunnulegt en aldrei er góð vísa of oft kveðin! Blogga um þessi mál og boðskap Peters við tækifæri.
Ýmislegt fleira var á dagskrá í leikhúsinu s.s. fyrirlestur um leðurblökur sem lauk með því að öll krakkahersingin á staðnum fór út og bjó til leðurblökur úr pappa. Úti var einnig að finna málara sem vann að málverki sem tengdist stjörnuhimninum. Þetta var stórfengleg upplifun fyrir mig og mér leið eins og ég væri að koma í kaupstað í fyrsta sinn.
Í miðri dagskránni innandyra kom öryggistilkynning frá umsjónarmönnum garðsins. Þau sögðu frá því að það væri vísundur á svæðinu og að fólk ætti að halda sig í hæfilegri fjarlægð (100 m). Ég missti af því öllu saman en sá þó nokkra vísunda í fjarlægð þegar ég kom inn í garðinn. Það var í fyrsta skipti sem ég hef séð þá skepnu.
Ég mætti stoltur með minn eigin sjónauka sem kostaði 50 kanadíska dollara og kemst fyrir í litlum bakpoka. Var mjög spenntur fyrir að sjá sjónauka félagsmanna og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum! Stærstu sjónaukarnir á svæðinu voru líklega tveir heimasmíðaðir sjónaukar sem eru 16" og 12,5". Ég held að ég hafi ekki litið í heimasmíðaðan sjónauka áður svo það var stór stund fyrir mig að kíkja á Júpíter og tunglið í sjónaukunum. Stærri sjónaukinn er í eigu Dennis sem smíðaði báða sjónaukana en hinn á annar reyndur félagsmaður sem nefnist Larry.
Þeir Larry og Dennis eru miklir stjörnuskoðunarkumpánar og fara oft saman út fyrir borgina til þess að skoða næturhimininn. Þeir reyna að sjá eins dauf fyrirbæri og sjónaukarnir leyfa sem er býsna mikið. Larry hefur sagt mér nokkrar sögur af afrekum þeirra og að hann hafi náð að sjá fyrirbæri sem er um 20x daufara en Plútó (af birtustigi +17,3)! Ég hef reynt að sjá Plútó í stórum áhugamannasjónauka í Chile en gat ekki áttað mig á því hvar fallna reikistjarnan var í öllu stjörnugerinu.
Hér fylgja tvær myndir til viðbótar. Önnur er af mér og Mr. Spock í Vúlkanatjaldinu, en ferðamálayfirvöld frá bænum Vúlkan í Alberta voru með kynningu á staðnum með tilheyrandi Star Trek glensi.
Hin myndin er af sjónaukanum mínum og 16" sjónaukanum hans Dennis. Þeir kappar, Dennis og Larry, segja að það taki samt bara nokkrar mínútur að setja upp stóru sjónaukana. Sem fyrr segir fékk stjörnuteitið í gær snöggan endi þegar stormur skall á eins og hendi væri veifið. Það var ekki annað að sjá en þeir væru mjög snöggir að taka niður sjónaukana og skella þeim inn í bíl á nokkrum mínútum. Á myndinni má einnig sjá áltröppur en þær eru notaðar þegar þarf að skoða fyrirbæri sem eru hátt á lofti í svona risasjónaukum.
Ég er strax farinn að hlakka til næsta stjörnuteitis sem verður eftir hálfan mánuð. Það nefnist Norhern Prairie Starfest. Þá verður nýtt tungl og skilyrði til stjörnuskoðunar vonandi eins og best verður á kosið. Einn af fyrirlestrunum sem verða þar á dagskrá mun fjalla um stjörnufræði á Íslandi. Meira af því síðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 05:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2009 | 18:07
Vísindaþátturinn snýr aftur
Á morgun snýr Vísindaþátturinn aftur eftir stutt sumarfrí, mörgum til mikillar ánægju... alla vega mér. Þátturinn er að sjálfsögðu á dagskrá Útvarps Sögu milli 17 og 18 alla þriðjudaga og svo aðgengilegur á Stjörnufræðivefnum stuttu síðar.
Í þættinum á morgun verður Svanur Sigurbjörnsson læknir gestur okkar. Svanur hefur t.d. skrifað pistil á blogg sitt þar sem hann varar við detox meðferðum og öðru heilsukukl og ætlum við að ræða það vítt og breitt.
Viðfangsefni næstu vikna verður fjölbreytt. Við ætlum að fjalla um súrnun hafa jarðar, skyggnast inn í sögu jarðar, fjalla um uppruna lífsins og margt, margt fleira.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að hlusta. Ef þú missir af þáttunum er alltaf hægt að sækja þá á Stjörnufræðivefnum.
----
Þriðjudagsvköldið 8. september klukkan 21:00 sýnir Ríkissjónvarpið heimildamyndina Hún snýst nú samt eða Den bevægede Jord eins og hún heitir á frummálinu. Í þessari dönsku heimildamynd, sem RÚV framleiðir meðal annara, er sögð sagan af stórkostlegri byltingu í stjörnufræði sem átti sér stað í Evrópu á endurreisnartímanum.
Ég hef þegar séð þessa fróðlegu og skemmtilegu mynd og mæli óhikað eindregið með henni. Hér er hægt að skoða sýnishorn úr myndinni.