20.8.2009 | 17:58
Ljósmyndasýning á Menningarnótt
Hver hefur ekki gaman af að skoða fallegar ljósmyndir?
Stjörnufræði er sérstaklega myndræn vísindagrein. Hubblessjónaukinn hefur sýnt okkur að auðvelt er að fanga athygli fólks þegar birtar eru fallegar ljósmyndir af viðfangsefnum stjarnvísindamanna.
Á Menningarnótt þann 22. ágúst næstkomandi hefst ljósmyndasýningin From Earth to the Universe á Skólavörðuholti fyrir framan Hallgrímskirkju. Sýningin er sett upp í tilefni af Menningarnótt 2009 og Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Tuttugu og sex ljósmyndir eru á sýningunni sem er eitt af alþjóðlegum verkefnum stjörnufræðiársins og nýtur meðal annars stuðnings Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Sýningin stendur yfir í mánuð.
Aðstandendur sýningarinnar eru:
Menningarnætursjóður
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
Stjörnufræðivefurinn
Sjónaukar.is
Við hvetjum að sjálfsögðu alla til þess að kíkja á sýninguna á Menningarnótt. Svo er um að gera að taka fjölskylduna með, ömmu og afa, mömmu og pabba, systkini og börn. Markmiðið er að sem allra flestir fái nú að sjá undur alheimsins.
Nánar er sagt frá þessu hér.
----
Á sýningunni er meðal annars ljósmynd af hinni glæsilegu Riddaraþoku í Óríon sem sést hér fyrir neðan. Riddaraþokan er einmitt hluti af risastóru sameindaskýi í stjörnumerkinu Óríon sem Sverðþokan í Óríon tilheyrir líka.
Ég veit til þess að margir hér á Moggablogginu eru áhugamenn um sólina. Þeir fá líka sitthvað fyrir sig því á sýningunni eru þrjár ljósmyndir af sólinni, meðal annars þessi hér:
Það jafnast fátt á við að sjá þessar myndir og fleiri til í stórri upplausn og góðri prentun. Þær eru óhemju glæsilegar.
11.8.2009 | 13:35
Veröldin að nóttu til: Sverðbjarmi í Atacamaeyðimörkinni
Atacamaeyðimörkin í Chile er einn allra þurrasti staður jarðar. Þar er heiðskírt í næstum 350 daga á ári og er staðurinn því kjörinn til að skoða stjörnuhiminninn, sem er sérstaklega glæsilegur frá suðurhveli jarðar. Þetta fallega myndskeið útbjó stjörnuljósmyndari Stéphane Guisard nótt eina undir stjörnunum í Atacamaeyðimörkinni. Myndskeiðið sýnir Vetrarbrautina rísa upp fyrir Miscantivatn (4350 metra yfir sjávarmáli) og Miñiquesfjall (5910 metra yfir sjávarmáli). Umhverfið er upplýst vegna tunglskins. Skömmu fyrir sólarupprás sést silfurleitur bjarmi á himninum, svonefndur Sverðbjarmi, sem er daufur bjarmi við Dýrahringinn nálægt sólu. Sverðbjarminn verður til þegar sólin lýsir upp ís og ryk sem halastjörnur hafa skilið eftir sig í hunduð milljónir ára á leið um innra sólkerfið. Stéphane Guisard er einn af þeim sem standa að The World at Night ljósmyndaverkefni stjörnufræðiársins.
- Veröldin að nóttu til: Alheimur á hreyfingu (ég veit ekki með ykkur en mér þykja þetta ótrúlega fallegar myndir)
----
Úff, hvað við höfum ekki skrifað neitt hér í langan tíma. Það á sér góðar skýringar. Síðustu daga hefur verið einstaklega mikið að gera. Tvö stór verkefni stjörnufræðiársins eru í höfn sem fólk mun heyra af innan tíðar.
----
Einhverjir hafa verið að velta fyrir sér hvers vegna Vísindaþátturinn hefur ekki verið á dagskrá að undanförnu. Ástæðan er einfaldlega sú að það var erfitt að fá viðmælendur yfir hásumarið þegar fólk var í sumarfríi. Við ákváðum því að taka okkur stutt sumarfrí í leiðinni en mætum hressir aftur fyrir framan hljóðnemann í lok ágúst eða upphafi september.
----
Eftir að hafa sett saman grein um Apollo 11 á Stjörnufræðivefinn fékk ég æði fyrir tunglferðunum. Ég setti því saman grein um Apollo geimáætlunina og margt fleira tengt tunglferðunum á Stjörnufræðivefinn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.7.2009 | 21:25
Hver er skæra stjarnan á suðurhimni?
Margir hafa veitt athygli björtu stjörnunni á suðurhimni þessa dagana. Með handsjónauka getur þú fetað í fótspor Galíleós Galílei og fundið út hvaða stjarna þetta er.
Þú getur líka smellt hér og fundið út svarið!
Og já, fetaðu í fótspor Galíleós í kvöld. Farðu út með handsjónauka og skoðaðu þessa ægifögru stjörnu.
31.7.2009 | 12:51
Hann hefur þá væntanlega ekki fundið nein sönnunargögn
Aumingja maðurinn, geimverutrúin er líklega búin að eyðileggja líf hans. Hann hefur væntanlega ekki fundið nein sönnunargögn í tölvum NASA eða sjóhersins, enda engin slík sönnunargögn til. Engu er haldið leyndu. Af hverju ættu stjórnvöld annars að halda slíkum sönnunum leyndum? Mér kemur engin ástæða til hugar. Þetta yrði ein mesta uppgötvun mannkynsins. Fólk myndi ekki ganga af göflunum ef slík sönnunargögn kæmu fram því kannanir sýna að mikill meirihluti fólks trúir því að við séum ekki ein í þessum heimi.
Engum sönnunargögnum um tilvist geimvera er leynt, enda eru slíkar sannanir því miður ekki til. Kannski koma þær fram í framtíðinni, þá fáum við öll að vita það!
![]() |
Braust inn í tölvur NASA |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.7.2009 | 23:18
Lengsti sólmyrkvi aldarinnar
Fréttin er byggð á frétt af fréttavef BBC. Því miður hefði mátt vanda örlítið betur til þýðingar á fréttinni. Oft þarf ekki meira til en að Googla "sólin" til að finna rétt hugtök á íslensku. Á mbl.is segir:
Einn þeirra Lucie Green, sem starfar við University College London en er nú um borð í rannsóknarskipi úti fyrir strönd japönsku eyjunnar Iwo Jima, segir yfirborð sólarinnar nú óvenjuheitt en hitinn þar mælist nú 2 milljón gráður. Við viðum ekki hvers vegna hitinn er þetta hár, segir hann.
Við ætlum að skota hvort það séu bylgjur á yfirborðinu. Bylgjur gætu myndað orku sem skýrir þennan mikla hita. Fáum við niðurstöðu í það mun það auka þekkingu okkar á sólinni.
Það er talsverður munur á því sem við köllum yfirborð sólar (sólin er gashnöttur og hefur þar af leiðandi ekkert eiginlegt yfirborð) og sólkórónunni. Sólkórónan er það sem kalla mætti lofthjúp sólar og þar er hitinn tvær milljónir gráða. Hitinn á yfirborði sólar er hins vegar 5600°C. Töluverður munur þar á.
Ekki er vitað nákvæmlega hvers vegna kórónan er svona heit en margar tilgátur hafa verið settar fram af þeim þykja tvær líklegasta, annars vegar svonefnd ölduhitun (wave heating) og hins vegar segultenging (magnetic reconnecton) og nanóblossar. Samkvæmt ölduhitunarkenningunni bera bylgjur orku úr innviðum sólar upp í lithvolfið og kórónuna. Sólin er úr rafgasi sem er fært um að bera bylgjur á svipaðan hátt og hljóðbylgjur berast með lofti. Bylgjurnar berast upp á við af völdum sólýra og ýruklasa frá ljóshvolfinu upp í lofthjúp sólarinnar, þar sem þær breytast í höggbylgjur og orkan losnar í formi hita. Nanóblossar eru nánar útskýrðir neðst í þessari grein hér.
Sjá ítarefni með fullt af stórglæsilegum myndum á Stjörnufræðivefnum:
Annars erum við bara helvíti ánægðir með Mbl.is þessa dagana. Óvenju mikið af vísindafréttum sem er mjög gott mál.
![]() |
Sólmyrkva beðið með óþreyju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.7.2009 | 12:00
Um tungllendingarsamsærið og fleira
Í gær og í dag hef ég verið gestur í þremur útvarpsviðtölum vegna fjörutíu ára afmælis Apollo 11. Í gær var ég gestur í Víðsjá á Rás 1 og Harmageddon á X-inu 977. Í morgun var ég svo í stuttu spjalli við Gulla Helga og Heimi Karls í Íslandi í bítið. Í viðtalinu við Víðsjá var meira fjallað um leiðangurinn sjálfan en í hinum tveimur þar sem áherslan var meira á tungllendingar-ekki-samsærið.
Ef svo ólíklega vildi til að einhverjir vilji hlusta á þessi viðtöl, er þau að finna hér:
- Harmageddon (viðtalið ætti að koma inn síðar í dag að sögn Frosta á X-inu)
----
Vísindaþátturinn fer í frí í þrjár til fjórar vikur í dag. Við Björn Berg munum taka upp þráðinn aftur í lok ágúst með nýja og ferska þætti. Á meðan er hægt að hlusta á gamla þætti hér.
---
20.7.2009 | 12:26
Förum til Mars!
Það er viðeigandi að sama dag og fjörutíu ár eru liðin frá fyrstu skrefunum á tunglinu, eru þrjátíu og þrjú ár liðin frá innrás manna á Mars. Sú innrás hófst 20. júlí 1976 þegar Víkingur 1 lenti á stað sem ber hið bjartsýna nafn Chryse Planitia eða Gullsléttan á Mars.
Því hefur verið fleygt fram af mönnum sem vit hafa á að ferðalag til Mars muni koma til með að kosta um 100 milljarða bandaríkjadala, sömu upphæð og kostar að smíða Alþjóðlegu geimstöðina. Ég held að fáir viti hreinlega hvaða tilgangi geimstöðin gegnir, en ég hefði sjálfur viljað sjá þess fjármuni fara í Mars leiðangur. Sá leiðangur hefði skilað okkur mikilli þekkingu og meiri tækniþróun heldur en geimstöðin.
100 milljarðar er há upphæð en dvergvaxin við hliðina á öðrum verkefnum.
Framreiknað til dagsins í dag kostaði allt Apollo verkefnið 125 milljarða bandaríkjadala. Verkefnið stóð yfir í átta ár svo það kostaði skattgreiðendur í Bandaríkjunum tæplega 51 dollar á ári í átta ár. Ekki svo slæmt.
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna fær árlega nærri 500 milljarða bandaríkjadal (já, á einu ári, Apollo verkefnið kostaði 125 milljarða á átta árum) til að spreða. Samkvæmt upplýsingum sem ég fann á internetinu á nokkrum stöðum, er kostnaður við stríðin í Írak og Afganistan komin yfir 1000 milljarða bandaríkjadala.
Það er ekki dýrt að fara til tunglsins eða Mars. Við erum fær um láta stóra drauma rætast þegar við tökum höndum saman og leggjum okkur fram.
Drífum okkur!
![]() |
Tunglfararnir vilja stefna á Mars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 21.7.2009 kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.7.2009 | 09:16
Ítarleg umfjöllun að finna hér
Tungllendingin er merkasti atburður mannkynssögunnar. Ferðasaga þeirra þriggja er líka stórmerkileg og hér á Stjörnufræðivefnum er ítarleg umfjöllun um leiðangurinn.
Í gær birtist ennfremur frétt á Mbl.is sem, af einhverjum ástæðum, bloggfærsla okkar birtist ekki við. Hún fjallaði um ljósmyndir sem Lunar Reconnaissance Orbiter tók af lendingarstöðum Apollo leiðangranna. Af einhverjum ástæðum birti Mbl.is ekki myndirnar í fréttinni, en allar myndirnar er að finna hér.
Einhver spyr, hvernig fóru þeir á klósettið í geimnum? Þeir voru í bleyjum.
![]() |
Risastórt skref fyrir mannkynið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.7.2009 | 20:31
Myndirnar að finna hér

Skrítið að Mbl.is birti ekki ljósmyndirnar sjálfar. Þær er að finna hér. Ég birti annars eftirfarandi færslu fyrr í dag, þegar fréttin á Mbl.is var ekki komin inn:
Vísindamenn hafa birt ljósmyndir Lunar Reconnaissance Orbiter af lendingarstöðum fimm Apollo leiðangra. Myndirnar eru birtar í tilefni af fjörutíu ára afmæli fyrstu tungllendingarinnar. Á myndunum sjást neðri stig tunglferjanna varpa löngum skugga á yfirborði tunglsins. Besta ljósmyndin er af lendingarstað Apollo 14.
Meira á Stjörnufræðivefnum að sjálfsögðu!
Þessar myndir munu annars ekki sannfæra samsærissinna um eitt né neitt. Tungllendingarsamsærisbullið er heimskulegasta samsæriskenning sem til er. Að segja að menn hafi ekki lent á tunglinu, er eins og að segja að Lakagígar séu ekki til, jafnvel þótt til séu myndir af þeim, hraunið sé augljóst og svo framvegis.
19.7.2009 | 19:30
Lendingarstaðir Apollo leiðangranna séðir með arnarauga LRO

Skrítið að Mbl.is birti ekki ljósmyndirnar sjálfar. Þær er að finna hér. Ég birti annars eftirfarandi færslu fyrr í dag, þegar fréttin á Mbl.is var ekki komin inn:
Vísindamenn hafa birt ljósmyndir Lunar Reconnaissance Orbiter af lendingarstöðum fimm Apollo leiðangra. Myndirnar eru birtar í tilefni af fjörutíu ára afmæli fyrstu tungllendingarinnar. Á myndunum sjást neðri stig tunglferjanna varpa löngum skugga á yfirborði tunglsins. Besta ljósmyndin er af lendingarstað Apollo 14.
Meira á Stjörnufræðivefnum að sjálfsögðu!
Þessar myndir munu annars ekki sannfæra samsærissinna um eitt né neitt. Tungllendingarsamsærisbullið er heimskulegasta samsæriskenning sem til er. Að segja að menn hafi ekki lent á tunglinu, er eins og að segja að Lakagígar séu ekki til, jafnvel þótt til séu myndir af þeim, hraunið sé augljóst og svo framvegis.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)