Nokkuð merkileg uppgötvun

venusexpressseq14_c_h.jpgÞetta er nokkuð merkileg uppgötvun hjá Venus Express geimfari ESA sem Mbl.is gerir prýðileg skil. Við hana er í sjálfu sér ekki mörgu að bæta nema ef vera skyldi til að fjalla aðeins um þann stórmerka lofthjúp sem umlykur hnöttinn.

Aðeins um uppgötvunina samt. Ósonið fannst með litrófsmælingum. Í Venus Express er litrófsriti sem kallast SPICAV. Hann fylgdist með ljósi fjarlægra stjarna berast í gegnum lofthjúp Venusar. Gastegundir í lofthjúpnum gleypa ljósgeisla stjörnunnar svo það verður til gleypilínuróf. Út frá gleypilínunum í litrófinu er hægt að finna út hvaða efni eru í lofthjúpnum.

Lofthjúpur Venusar er þykkari en lofthjúpur jarðar. Hann er að mestu úr gróðurhúsalofttegundinni koldíoxíði. Þess vegna eru þar óðagróðurhúsaáhrif sem valda því að hitastigið á yfirborðinu er um 480°C. Á Venusi rignir brennisteinssýru hátt í lofthjúpnum. Hún kemst reyndar aldrei niður á yfirborðið þar sem hún gufar upp áður en hún lendir þar. Á yfirborðinu er 90 sinnum hærri þrýstingur en við sjávarmál á jörðinni. 

Allt þetta uppgötvaðist reyndar ekki fyrr en fyrstu könnunarför jarðarbúa flugu framhjá Venusi upp úr 1960. Áður töldu margir að ágætar líkur væru á að líf þrifist þar. Fyrst ekki sást niður á yfirborðið hlutu mikil ský að hylja það. Á jörðinni eru ský úr vatni svo það hlaut að vera mikið vatn á Venusi. Venus gæti allt eins verið notalegur staður til að búa á, ekki ósvipaður Flórída, eins og einn komst að orði árið 1960. Eins og síðar kom í ljós voru þessar hugmyndir, því miður, ekkert annað en tálsýn. 

Við eigum margt eftir ólært um þennan nágranna okkar í geimnum. Venus Express hefur hringsólað um Venus frá árinu 2006 og meðal annars fundið vísbendingar um tiltölulega nýlega eldvirkni. Hægt er að fræðast meira um Venus og Venus Express á Stjörnufræðivefnum.

Mynd: ESA

- Sævar Helgi


mbl.is Uppgötvuðu ósonlag á Venusi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

„Gastegundir í lofthjúpnum gleypa ljósgeislana og hægt er að sjá fingraför þess sem ljós með tiltekna bylgjulengd.“

 

Gastegundir í lofthjúpnum gleypa (absorbera) ljósgeislana og þannig má sjá fingraför lofthjúpsins í bylgjulengd ljóssins sem gleypist.

Reynið að formúlera á skiljanlegu og skýru máli, please.  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 21:28

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Gastegundir í lofthjúpnum draga í sig ljóseindir og gefa í staðinn frá sér geislun. Þessi geislun hefur tiltekna bylgjulengd sem er einkennandi fyrir efnið sem gleypti ljósið. Þessi ákveðna bylgjulengd er eins konar fingrafar efnisins, í þessu tilviki ljós með útfjólubláa bylgjulengd. Bylgjulengdin kemur heim og saman við óson.

Vona að þetta sé á skiljanlegu og skýru máli.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 7.10.2011 kl. 21:34

3 Smámynd: Haukur Kristinsson

Gefa í staðinn frá sér geislun? Þessi geislun hefur tiltekna bylgjulengd, sem er einkennandi fyrir efnið sem gleypti ljósð. Er þetta rétt? Ef til vill, þið eigið að svar því, stjörnufræðingar.  

 

En ég hélt að upplýsingar um lofthjúpinn fengjust einkum með því að analýsera þær ljóseindir (bylgjulengdir) sem hann (lofthjúpurinn) gleypir, en ekki með því að analýsera eitthvað ljós sem hann “gefur í staðinn”. Þessi möguleiki gæti hinsvegar verið fyrir hendi, að lofthjúpurinn sendi frá sér, vegna “exitation”, ljósgeisla, sem segja til um efnifræðilega samsetningu. En enn og aftur, reynið að skrifa skiljanlegt mál.

Haukur Kristinsson, 7.10.2011 kl. 22:18

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Afsakaðu, ég var sjálfur að rugla saman. Hér er notast við þriðja lögmál Kirchhoffs um litróf

http://www.stjornufraedi.is/alheimurinn/litrofsgreining#logmal_kirchhoffs

Hefði átt að lesa þetta betur yfir áður en ég ýtti á birta.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 7.10.2011 kl. 22:30

5 identicon

Ólíkt Hauki er ég mjög ánægður með fróðlegt innlegg ykkar þegar stjörnufræðilegar fréttir detta inn á mbl.is. Takk fyrir það!

Jón Flón (IP-tala skráð) 9.10.2011 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband