Árekstur við tunglið í næsta mánuði

Hér er frétt um sama mál á Stjörnufræðivefnum

Eins og segir í fréttinni hafa þrjú geimför, að því er virðist, fundið merki um vatn á tunglinu. Vatnið er reyndar í frekar litlu magni og aðallega í formi hýdroxíls (OH-), vatnssameindar sem búin er að missa annað vetnisatóm sitt. **Uppfært** Fréttamannafundur NASA í dag skýrir frá því að á tunglinu eru líka ótvíræð merki um hefðbundið vatn, H2O!! Það eru spennandi fréttir. Þar kom einnig fram að ef við myndum draga allt vatn úr tunglgrjótinu sem Apollo geimfararnir komu með til jarðar myndi það fylla eina matskeið.

Í meira en fjóra áratugi hafa vísindamenn velt fyrir sér hvort vatnís sé að finna á tunglinu. Þessari spurningu náðist ekki að svara með Apollo leiðöngrunum.

Ís gæti hafa borist til tunglsins með halastjörnum í gegnum tíðina og safnast saman í jarðveginn, undir yfirborðið, en einkum og sér í lagi í djúpum gígum á pólsvæðum tunglsins þar sem sólarljóss nýtur aldrei. Í eilífu myrkri eru gígarnir algjörir kuldapollar. Hitastigið fer aldrei upp fyrir -173°C. Þar gæti ís notið skjóls frá geislum sólar og viðhaldist í milljarða ára.

En hvers vegna hafa menn svona mikinn áhuga á að finna vatn á tunglinu? Vatn hefði mjög mikilvæga þýðingu fyrir vísindamenn og geimferðir í framtíðinni. Tunglfarar sæju t.d. hag í því að nýta vatnið til að útbúa drykkjarvatn, kælivökva, súrefni til að draga andan og vetni í eldflaugaeldsneyti.

Í augum reikistjörnufræðinga er vatnið sannkölluð fjársjóðskista. Allir Íslendingar vita að íslenskir jöklar geyma heilmiklar upplýsingar um jarðsögu landsins, hvort sem er um veðurfar eða eldgos. Á sama hátt geymir ísinn á tunglinu upplýsingar um tíðni halastjörnuárekstra í sögu sólkerfisins, efnainnihald halastjarna og þar af leiðandi upplýsingar um elsta efni sólkerfisins. Með þessum upplýsingum gætu stjörnufræðingar dregið upp nákvæmari mynd af myndunar- og þróunarsögu sólkerfisins.

Þessi uppgötvun er ekki beint þær sundlaugar af vatni sem vonast er til að finna í gígum tunglsins. Þetta vatn virðist dreift um yfirborð tunglsins og það er án efa mjög erfitt og kostnaðarsamt að ætla sér að nýta það.

Árekstur við tunglið í næsta mánuði

lcross_art_med.jpgÞann 9. október næstkomandi, klukkan 11:30 að íslenskum tíma, tveggja tonna skeyti (sem er á stærð við stóran pallbíl eða jeppa eins og Land Cruiser) rekast á gíginn Cabeus A á suðurpóli tunglsins. Skeytið er í raun efsta stig Centaur eldflaugarinnar sem kom Lunar Reconnaissance Orbiter og LCROSS út í geiminn til að byrja með. Skeytið mun rekast á tunglið á yfir 9000 km hraða á klukkustund (tvöfaldur hraði byssukúlu). LCROSS mun fljúga inn í gas- og rykstrókinn sem verður til við áreksturinn og mæla eiginleika hans áður en það rekst sjálft á yfirborðið skömmu síðar. Áætlað er að áreksturinn verði föstudaginn 9. október kl. 11:30 að íslenskum tíma. Tunglið er þá á vesturhimni yfir Íslandi, en áreksturinn verður tæplega sýnilegur í dagsbirtu. 

Þú getur lesið meira um Lunar Reconnaissance Orbiter og LCROSS á Stjörnufræðivefnum:

---

Við minnum svo á þátttöku Stjörnuskoðunarfélagsins í Vísindavöku Rannís annað kvöld, föstudagskvöldið 25. september, í listasafni Reykjavíkur. Þar verður meðal annars loftsteinn til sýnis.

Við minnum líka á námskeiðið okkar í stjörnufræði og stjörnuskoðun í október.

 


mbl.is Vatn fannst á tunglinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir greinagóðan pistil. 

Einnig er mjög spennandi að heyra af fyrirhuguðum árekstri.

Verður svona "crash test dummy" um borð?

Arnar Pálsson, 25.9.2009 kl. 16:47

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Því miður er engin "crash test dummy" um borð, enda held ég að það væri ekki tími til að safna gögnum um afdrif hennar, þetta mun gerast svo hrikalega hratt. En það væri gaman. Dúkkan myndi sennilega gufa upp við áreksturinn.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 27.9.2009 kl. 12:35

3 Smámynd: Andrés.si

Mér skildist frá öðrum greinum að hér er um að ræða nokkuð vegin sprenging sem NASA veldir tunglinu.

Andrés.si, 28.9.2009 kl. 13:30

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Það verður engin sprenging í þeim skilningi að það séu einhver sprengiefni um borð. Slíkt er óþarfi því hreyfiorkan er svo gífurleg. Svo má alveg segja, að þar sem tunglið hreyfist miklu hraðar en skeytið, þá sé það tunglið sem rekst á skeytið en ekki öfugt.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 28.9.2009 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband