Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Um tunglferðirnar

 Við minntumst á þessa kostulegu frétt hér á blogginu í gær og höfðum heldur betur gaman af.

Í gær birti Arizona háskóli nýja ljósmynd Lunar Reconnaissance Orbiter af lendingarstað Apollo 12 og Surveyor 3. Myndin er alveg stórglæsileg og sýnir slóðirnar eftir geimfarana Pete Conrad og Alan Bean. Myndina má sjá hér fyrir neðan:

Þú getur skoðað þessa mynd í stærri útgáfu í stuttri frétt um hana á Stjörnufræðivefnum.

Sumir vitleysingar (já þeir eru sannarlega vitleysingar að halda þessu rugli á lofti) halda því fram að mannkynið hafi aldrei farið til tunglsins. Þetta er nefnilega einhver heimskulegasta samsæriskenning sem til er. Öll "rök" sem koma fram hjá þeim sem halda þessu fram eru rökleysur. Þeir sem halda þessu rugli á lofti er fólk sem einfaldlega hefur EKKERT kynnt sér Apollo geimáætlunina og tunglferðirnar sjálfar. Þetta er stórkostleg saga sem ótrúlega margir keppast um að gera lítið úr. Maður ætti nú varla að verja tíma í svona bull og vitleysu, það er álíka gagnlegt og að rökræða við sköpunarsinna sem líka hafa sannarlega rangt fyrir sér.

Fyrir skömmu keypti ég frábæra bók eftir Andrew Chaikin sem nefnist Voices from the Moon. Í henni lýsa tunglfararnir með eigin orðum reynslu sinni af tunglferðunum. Eigin orð geimfaranna eru nægar sannanir fyrir því að þeir lögðu virkilega líf sitt í hættu til að ferðast alla leið frá jörðinni til tunglsins. Svo ekki sé minnst á allt grjótið sem þeir komu með heim, sólvindsmælana sem þeir settu upp á yfirborði tunglsins og komu með heim aftur, speglana sem skildir voru eftir til að mæla vegalengdina milli jarðar og tungls nákvæmlega, tunglskjálftamælina og svo framvegis og svo framvegis.

En myndin hér að ofan, jú hún var auðvitað Photosjoppuð ekki satt? Nei, það er álíka bjánalegt að halda því fram að tunglferðirnar hafi verið falsaðar og að halda því fram að pýramídarnir í Egyptalandi séu ekki til.


mbl.is Báðust afsökunar á fréttaklúðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndin frétt

Fyrir nokkrum dögum birti Laukurinn "viðtal" við Apollo geimfarann Neil Armstrong þar sem hann tjáði blaðamönnum Lauksins að samsærissinni hafi sannfært sig um að tungllendingin hefði aldrei átt sér stað. Þetta viðtal er hin mesta snilld. Í viðtalinu "segir" Neil:

"It only took a few hastily written paragraphs published by this passionate denier of mankind's so-called 'greatest technological achievement' for me to realize I had been living a lie, " said a visibly emotional Armstrong, addressing reporters at his home. "It has become painfully clear to me that on July 20, 1969, the Lunar Module under the control of my crew did not in fact travel 250,000 miles over eight days, touch down on the moon, and perform various experiments, ushering in a new era for humanity. Instead, the entire thing was filmed on a soundstage, most likely in New Mexico."

"This is the only logical interpretation of the numerous inconsistencies in the grainy, 40-year-old footage," Armstrong added.

Mér fannst þetta samt best,

He also admitted feeling "ashamed" that he had failed to notice the rippling of the American flag he and Buzz Aldrin planted on the surface, blaming his lack of awareness on the bulkiness of the spacesuit and his excitement about traveling to the "moon."

"That rippling is not possible in the vacuum of space," Armstrong said. "It must have been the wind from an air-conditioning duct that I didn't recognize because you can't hear a damn thing inside those helmets."

"This is all just common sense, people," he added. "It's the moon. You can't land on the moon."

[....]

"Yes, at the time I thought those thousands of NASA employees were working round the clock for the same incredible goal, but if anyone would know what was really going on, it would be Ralph Coleman," Armstrong said of the 31-year-old part-time librarian's assistant. "He knows a lot more about faked moon landings than I ever could. He's been researching the subject on the Internet for years."

"Literally years," he added.

Þetta er einfaldlega bestu rök gegn tungllendingarsamsærisbullinu sem ég hef heyrt hingað til. Sýnir fáránleikann vel. 

Þessi frétt BBC er samt eiginlega kostulegri en upphaflega "frétt" Lauksins. Einhver tvö dagblöð í Bangladess héldu viðtalið væri raunverulegt og birtu raunverulega frétt um það! 


Óviðjafnanleg fegurð hringa Satúrnusar

Hringar Satúrnusar eru eitt af undrum sólkerfisins. Óhemju fallegir og dularfullir á sama tíma. Galíleó sá hringana fyrstur fyrir tæpum 400 árum en gerði sér ekki grein fyrir hvað það raunverulega var sem skagaði úr hvorri hlið hans. Árið 1612 sá Galíleó að hringarnir voru horfnir en ári síðar birtust þeir á ný. Hvers vegna hurfu hringarnir ásjónum Galíleós? Ástæðan er möndulhalli Satúrnusar.

Allar reikistjörnur sólkerfisins hafa möndulhalla, aðeins mismikinn. Möndulhalli jarðar er 23,5 gráða og veldur hann árstíðaskiptum. Möndulhalli Satúrnusar er nokkru meiri eða 27 gráður. Á Satúrnusi eru því árstíðaskipti líkt og á jörðinni - vetur, sumar, vor og haust - en nokkru öfgafyllri vegna meiri möndulhalla. Líkt og jörðin heldur Satúrnus þessum möndulhalla á ferð sinni umhverfis sólina. Það þýðir að norður- og suðurhvel Satúrnusar beinast í átt til okkar til skiptist. Það þýðir aftur stundum sjáum við ofan á hringana og stundum undir þá.

Á sama tíma og Satúrnus fer einn hring um sólina fer jörðina þrjátíu. Á fimmtán ára fresti gerist það að við horfum beint á hringana. Þá er sagt að hringarnir séu á rönd. Þar sem hringarnir eru næfurþunnir, aðeins nokkrir tugir til hundruð metrar á þykkt, hverfa þeir algjörlega ásjónum okkar. Galíleó sá þetta gerast fyrir tæpum 400 árum og við sjáum þetta gerast í dag, á ári stjörnufræðinnar 2009

6_years_of_saturn

Þessi glæsilega mynd sýnir hvernig hallinn breytist smám saman uns hringarnir hverfa nánast algjörlega. Myndina útbjó bandaríski stjörnuáhugamaðurinn Alan Friedman.

Síðustu ár hefur Cassini geimfarið sveimað um Satúrnus, hringana og fylgitungl hans. Cassini hefur sent þúsundir stórglæsilegra ljósmynda heim til jarðar af hringunum. Glæsilegar hreyfimyndir sýna þau áhrif sem þyngdarkraftur tungla hefur á hringana, t.d. þessi hér sem tekin var 20. ágúst síðastliðinn:

prometheus_pandora_fring_20090820_lg.gif

Hér sjást vel þau áhrif sem tunglið Prómeþeifur (innra) hefur á F-hringinn. Þegar Prómeþeifur dýfir sér inn í hringinn verður til þetta fallega gárumynstur þegar tunglið hrífur með sér örfínar ísagnir í hringnum. Neðra tunglið sem sést á þessari mynd heitir Pandóra. Tungl sem hringsóla innan hringakerfa reikistjörnu eru nefnd smalatungl.

Satúrnus er svo falleg reikistjarna. Þú getur fræðst miklu meira um hana og séð miklu fleiri myndir af hringunum á Stjörnufræðivefnum.

Hvers vegna þarf fólk að menga heiminn með óþarfa fantasíum þegar slík fegurð blasir við okkur?


Blásúla á Galapagoseyjum

Fyrir tveimur árum fór ég ásamt kærustunni minni til Galapagoseyja. Mig hafði lengi dreymt um að komast þangað og þegar við ákváðum að leggja í þriggja mánaða reisu um Suður-Ameríku með viðkomu í Ekvador kom ekkert annað til greina en að feta í fótspor Darwins.

Galapagoseyjar eru magnaður staður. Þróunarstaðreynd Darwins blasir við manni. Lífið er ótrúlega fjölbreytt milli eyja og dýrin einstaklega spök. Maður sér "hinir hæfustu lifa af". 

Á Norður-Seymoureyju sáum við tvo fugla sem vöktu sérstaka athygli okkar. Hinn fyrri kallast blásúla (Blue-Footed Booby) en hann er með áberandi bláa fætur og grábláleitan gogg, eins og sést á þessari mynd sem ég tók af einum slíkum:

Blásúla (Blue-footed Booby)

Íslenska heitið blásúla fékk ég hjá Guðna Kolbeinssyni sem þýddi bókina Dýrin. 

Á myndinni hér fyrir neðan sést blásúla með unga sínum. Fæturnir blána þegar þeir fullorðnast svo ungarnir eru með ljósa fætur.

Blásúla og ungi

Á Galapagoseyjum sér maður hina hæfustu lifa af. Ef blásúla eignast tvo unga lifir yfirleitt aðeins annar af (ef marka mátti leiðsögumanninn). Á myndinni hér fyrir neðan sjást tveir blásúluungar, annar var frekari og lifði af en hinn laut því miður í lægra haldi.

Blásúluungar

En hver er hinn fuglinn sem vakti athygli okkar? Ég ætla að segja frá honum einhvern tímann síðar.


From Earth to the Universe í tíufréttum RÚV

Ég veit ekki hversu margir sáu tíufréttir á RÚV í gærkvöldi. Í lok fréttatímans var sýnt frá ljósmyndasýningunni okkar From Earth to the Universe á Skólavörðuholti fyrir framan Hallgrímskirkju. Á sýningunni eru tuttugu og sex glæsilegar ljósmyndir af undrum alheimsins. Hægt er að skoða myndskeiðið hér (http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4467526/2009/08/31/11/).

Hingað til hafa þúsundir skoðað sýninguna og ég veit til þess að skólahópar leggja leið sína þangað. Fyrir vikið er þetta eitt best heppnaða verkefni okkar á ári stjörnufræðinnar. Fallegar ljósmyndir grípa. Sýningin mun standa yfir í að minnsta kosti mánuð svo enn er nægur tími fyrir ykkur sem enn eiga eftir að skoða hana. Við hvetjum ykkur eindregið til að skoða þessar gullfallegu ljósmyndir.

*Uppfært* Sverrir er búinn að setja þetta inn á YouTube svæði Stjörnufræðivefsins.


Júpíter skín skært í suðri

Það er yndislegt veður þessa stundina til að stunda stjörnuskoðun. Í suðri blasir við björt og ægifögur stjarna, sjálfur konungur reikistjarnanna, gasrisinn Júpíter.

Ef þú átt handsjónauka, prófaðu þá að fara út með hann og kíktu á Júpíter. Reyndu að styðja sjónaukann við fasta undirstöðu svo hann titri sem allra minnst, t.d. á bílþak eða eitthvað slíkt. Þú ættir að geta séð það sama og Galíleó sá fyrir 400 árum, nefnilega fjögur tungl á sveimi um reikistjörnuna. Galíleótunglin líta út eins og litlar daufar stjörnur við hlið gasrisans.

Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum


Góð grein í Morgunblaðinu í dag - Fyrirlestur um tilurð tegunda

Í Morgunblaðinu í dag skrifar Eiríkur Sigurðsson líffræðingur sem starfar hjá KOM almannatengslum grein sem nefnist "Lítið gert úr vísindum". Í greininni fjallar Eiríkur um ábyrgð fjölmiðla í umfjöllun um vísindi og nefnir réttilega að stundum eru ekki allar skoðanir jafn réttháar. Hann kemur líka inn á ástæðulausan ótta fólks um bólusetningar, fjallar um skoðanir fólks á erfðabreyttum og lífrænum matvælum. Eiríkur minnist líka á detox meðferðir sem njóta ótrúlegra vinsælda hér á landi og bloggvinur okkar Svanur Sigurbjörnsson læknir gerði að umtalsefni í bloggfærslu sem vakti talsverða athygli. 

Að lokum segir Eiríkur í greininni:

Vísindamenn þurfa að taka þátt í umræðunni

Á þessu vandamáli er engin einföld lausn. Fjölmiðlar þurfa auðvitað að taka sig á í því að auka umfjöllun um vísindaleg málefni og leggja þar ekki öll sjónarmið að jöfnu. Einstaklingar án sérþekkingar á tilteknu fræðasviði eiga ekki gagnrýnislaust að geta kallað sig sérfræðinga og haldið fram rökum sem ganga þvert gegn vísindalegri þekkingu. Það er hins vegar enn mikilvægara að vísindamenn taki meiri þátt í almennri umræðu í samfélaginu. Það er ekki lengur nóg að bera staðreyndir á borð á hlutlausan hátt þegar eftir því er kallað. Vísindamenn verða að leyfa sér að hafa skoðun og hafa frumkvæði að beinskeyttri gagnrýni á rökleysu, kukl, hjátrú, hjávísindi, sögusagnir og fortíðardýrkun. 

Algjörlega!

----

Arnar Pálsson vekur athygli á mjög áhugaverðum fyrirlestrum sem fram fara laugardaginn 29. ágúst:

Næstkomandi laugardag munu Peter og Rosemary Grant halda erindi um finkurnar á Galapagos (13:00 laugardaginn 29 ágúst, í hátíðarsal HÍ - aðalbyggingu). Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í tilefni afmælis Charles Darwin (sjá darwin.hi.is). Þar verður gefið yfirlit um fjölbreytileika tegundanna, útbreiðslu þeirra og þróun. Rannsóknir Grant hjónanna eru innblásin af þróunarkenningunni og hafa þau fylgst með náttúrulegum breytingum á samsetningu finkustofna á nokkrum eyjum klasans. Þau takast við eina af lykilspurningunum þróunarfræðinnar "hvernig verða tegundir til?"

Tilurð tegunda er ein af ráðgátum þróunarfræðinnar. Almennt er talið að tegundir myndist greiðlega í kjölfar landfræðilegrar uppskiptingu stofna, við svokallaða sérsvæða tegundamyndun (allopatric speciation). Annar möguleiki er að tegundir verði til án landfræðilegrar einangrunar, eða vegna  samsvæða tegundamyndunar (sympatric speciation). Samsvæða tegundamyndun er þó álitin af mörgum mjög ólíkleg. Samt eru til nokkur forvitnileg dæmi sem benda til þess að tegundir geti myndast úr einum stofni á einu landsvæði. Þróunarfræðingarnir og hjónin Peter og Rosemary Grant við Princeton háskóla munu ræða um rannsóknir sínar í erindi sem þau nefna “Samsvæða tegundamyndun meðal fugla”.

Hinn fyrirlesturinn verður kl 10:00 laugardaginn 29 ágúst, í stofu 132 í Öskju. Erindið er öllum opið og verður flutt á ensku.

Að gefnu tilefni: Athugið að um er að ræða tvo fyrirlestra, einn um sérhæfðara efni kl 10:00  og annan yfirgripsmeiri kl 13:00.

Nánar á bloggsíðu Arnars.

Við hvetjum að sjálfsögðu allt áhugafólk um vísindi til að mæta.

----

Við minnum enn og aftur á ljósmyndasýninguna From Earth to the Universe á Skólavörðuholti. Sýningin hefur vakið talsverða athygli og þegar hafa þúsundir einstaklinga skoðað hana. Ég er ótrúlega stoltur af þessari sýningu, sér í lagi vegna þess að hún grípur fólk sem hefur ekkert endilega neinn sérstakan áhuga á vísindum. Þarna sést nefnilega hvað viðfangsefni vísindanna eru ótrúlega tilkomumikil og falleg.


Nýjung: Íslenskt stjörnukort fyrir septembermánuð

Ný grein um stjörnuskoðun í september er komin inn á Stjörnufræðivefinn. Greinin er með öðru sniði en fyrri greinar um stjörnuskoðun mánaðarins því henni fylgir stjörnukort fyrir Ísland (að sjálfsögðu á íslensku) ásamt leiðarvísi fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.

stjornuskodun manadarins pdf mynd

Við hvetjum lesendur til þess að prenta út báðar síðurnar og kíkja á himininn á fallegu haustkvöldi.

Hugmyndin er að búa til svona kort fyrir alla mánuðina í vetur. Við munum vita hér á blogginu þegar kortið fyrir október kemur inn á vefinn.

 

 


Google merkið í dag

Hefur þú séð Google merkið í dag?

galileo09

Í dag, 25. ágúst, eru 400 ár liðin frá því að Galíleó Galílei sýndi öðrum í fyrsta sinn það sem hann sá með sjónaukanum sínum. Galíleó setti sjónaukann sinn upp á Markúsartorgi í Feneyjum og sýndi þar fyrirmönnum það sem fyrir augum bar. Mönnum þótti mikið til koma að sjá hluti eins og skip úr mikilli fjarlægð og sáu mikla möguleika í þessari nýju uppfinningu, sem reyndar var hollensk, en Galíleó var hafði nú ekkert alltof hátt um það. Eftir þennan gjörning voru laun Galíleós tvöfölduð og var hann ennfremur æviráðinn við Padúaháskóla. 

Galíleó heillaðist af því sem fyrir augum bar þegar hann beindi sjónauka sínum í fyrsta sinn til himins stuttu seinna. Á ári stjörnufræðinnar upplifa milljónir manna þessa sömu tilfinningu þegar stjörnuáhugamenn um heim allan sýna fólki, í fyrsta sinn, undur alheimsins með uppfinningunni sem Galíleó breytti sögunni með. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Galíleó beindi sínum sjónauka til himins. Í dag fylgjast geimsjónaukar, risasjónaukar á jörðu niðri auk þeirra milljóna stjörnusjónauka í eigu áhugafólks, stöðugt með alheiminum. Á Skólavörðuholti næsta mánuðinn getur þú skoðað listaverkin sem búin hafa verið til með stjörnusjónaukanum á ljósmyndasýningunni From Earth to the Universe. Við hvetjum alla til að skoða!


Bleiki pardusinn truflar Inspector Clouseau í stjörnuskoðun

Hressandi myndskeið sem ég fékk sent frá Einari Guðmundssyni, prófessor í stjarneðlisfræði við HÍ.

Þetta er algjör nostalgía. Bleiki pardusinn og Tinni voru bestu teiknimyndirnar.

----

Búið er að setja upp ljósmyndasýninguna From Earth to the Universe á Skólavörðuholti. Myndirnar eru alveg stórglæsilegar, þótt ég segi sjálfur frá. Ég skora á alla að skoða sýninguna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband