Færsluflokkur: Vísindi og fræði
19.5.2007 | 20:33
Hver er þessi bjarta stjarna á himninum?
Ég hef verið spurður talsvert að því að undanförnu hvaða stjarna skín svo skært við sólsetur í vest-norðvesturátt. Þessi fallega og áberandi stjarna er reikistjarnan Venus, okkar næsti nágranni í sólkerfinu. Venus er bjartasta fyrirbæri himinsins um þessar mundir á eftir sólinni og tunglinu með birtustigið -4,19. Þessi tala segir flestum væntanlega ekki neitt en hún þýðir í raun það að hægt er að sjá Venus um hábjartan dag, ef þú veist nákvæmlega hvar á að leita og skyggt er á sólina með einhverjum hætti. Mér hefur tekist það með mikilli þolinmæði, reyndar á degi þar sem ég hafði ekkert annað betra að gera og þegar ég gat miðað út frá tunglinu.
Í gegnum stjörnusjónauka sést að Venus er ekki að fullu upplýst heldur að hálfu, líkt og hálft tungl. Sú staðreynd segir okkur að Venus sé nær sólinni en jörðin og var það ein af þeim röksemdum sem sannfærði Galíleó og fleiri góða menn á sínum tíma um ágæti sólmiðjukenningarinnar. Í gegnum sjónauka er fátt annað merkilegt að sjá. Yfirborðið er algjörlega falið undir þykkri skýjahulu sem engin leið er að sjá í gegnum nema með ratsjám. Einn sendiherra jarðarbúa hringsólar einmitt í kringum Venus þessa dagana, evrópska geimfarið Venus Express.
Að endingu. Þegar sólin sest í kvöld, farðu þá út og horfði í vesturátt. Taktu með þér handsjónauka ef þú átt slíkan búnað. Venus og vaxandi tungl verða þá sjáanleg í rauðu húminu, aðeins 1° á milli þeirra. Þetta er mjög falleg samstaða tveggja björtustu fyrirbæra næturhiminsins. Í stjörnufræðihugbúnaðinum Starry Night Enthusiast sést þetta vel.
Hugsaðu þér að á þessari fallegu reikistjörnu rignir brennisteinssýru sem gufar upp áður en regndroparnir ná niður á yfirborðið. Þar er nefnilega álíka heitt og í pizzaofni!
Og Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Ormsson í Smáralind.
- Sævar Helgi Bragason
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.5.2007 | 10:19
Aðeins lítill blár punktur
Hvenær ætla menn að læra?
Jörðin er afar lítið svið á stórum alheimsleikvangi. Hugsaðu þér hversu miklu blóði hefur verið úthellt af hershöfðingjum og keisurum, til þess að þeir, í dýrð og sigurgleði sinni, gætu orðið tímabundnir herrar á agnarsmáum hluta punkts.
- Carl Sagan, Pale Blue Dot: A Vision of the Human Future in Space
![]() |
Sprengt á Græna svæðinu í Bagdad |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2007 | 23:26
Bloggað um stjörnufræði og stjörnuskoðun
Á þessari bloggsíðu munum við fjalla um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Við erum þrír vinir sem standa að Stjörnufræðivefnum (http://www.stjornuskodun.is) sem er alfræðivefur um stjörnuskoðun og stjörnufræði. Á vefnum okkar er að finna heilmikið af upplýsingum um allar reikistjörnur sólkerfisins, geimferðir, stjörnur og vetrarbrautir og Miklahvell svo fátt eitt sé nefnt. Á Stjörnufræðivefnum er auk þess heilmikið af gagnlegum upplýsingum stjörnusjónauka, svo sem hvernig best sé að bera sig að við val á slíkum búnaði, notkun hans, nauðsynlegum fylgihlutum og upplýsingar um fyrirbæri sem áhugavert er að skoða.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)