Stórfurðulegt og listrænt landslag

Ég held að HiRISE sé mitt uppáhald. Myndirnar frá þessari öflugustu myndavél sem send hefur verið út í sólkerfið eru í senn stórfurðulegar og stórglæsilegar. Gott dæmi er þessi mynd hér:

hirise_mars_nordurhvel.jpg

Sjáðu stærri útgáfu hér. Í alvöru! Smelltu til þess að sjá það sem hér verður lýst á eftir.

Hvað í veröldinni er hér um að vera?

Myndin er auðvitað af rauðu reikistjörnunni Mars. Myndin er vísvitandi í fölskum litum til að draga fram smáatriði sem ella sæjust illa eða alls ekki. Á henni sést risasvaxið sandöldusvæði á norðlægum breiddargráðum, á stað sem e.t.v. var á kafi í vatni fyrir milljörðum ára. Á veturnar verður svo kalt á þessum slóðum að koldíoxíðið í lofthjúpnum frýs og þurríslag legst yfir sandöldurnar og bindur ryk í hlíðum sandöldunnar. Með vorinu hækkar sólin á lofti og hitastigið um leið. Við það þurrgufar þurrísinn, rykið losnar úr krumlum hans og fossar niður hlíðarnar. Við það myndast dökku rákirnar í sandölduhlíðunum.

Á myndinni hér fyrir neðan er búið að stækka hluta af svæðinu. Á henni sjást dökku rykrákirnar mjög vel, sitt hvorum meginn sandöldunnar. Á efri hlutanum sést að lítið rykský hefur þyrlast upp við skriðuföllin. 

hirise_smaatridi.jpg

Ef vel er að gáð sjást á myndinni fyrirbæri sem við þekkjum vel í íslenskri náttúru: frosttiglar. Tiglarnir verða til þegar ísinn undir þiðnar. Þegar ísinn frýs þenst hann út, en þegar hann þiðnar dregst hann saman og skilur eftir sig augljóst tiglamynstur.

Mars er alveg ótrúlega heillandi reikistjarna. 

Það er ekkert skrítið þótt ein af myndum HiRISE hafi orðin ein af tíu bestu stjörnuljósmyndum ársins 2009. Árið er rétt nýhafið en strax er kominn sterkur kandídat á listann yfir tíu bestu stjörnuljósmyndir ársin 2010.

Pistillinn birtist fyrst á Stjörnufræðivefnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábærar myndir, flottir litir í henni.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.1.2010 kl. 07:00

2 Smámynd: Þórhildur Daðadóttir

Ótrulega flottar myndir

Þórhildur Daðadóttir, 8.1.2010 kl. 13:12

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Eins og augu á kýldri konu með fölsk augnhár,  þetta er stórkostlegt að hægt sé að ná svona góðum myndum.  Dettur oft í hug  að einn góðan veðurdag spretti upp verur,á einhverri stjörnunni sem verið er að mynda.

Helga Kristjánsdóttir, 8.1.2010 kl. 22:33

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Flottar myndir :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 9.1.2010 kl. 13:39

5 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Mörgum hefur þótt dökku rákirnar helst líkjast trjám. Fölsk augnhár eru líka góð líking.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.1.2010 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband