14.1.2010 | 04:38
Daglegt líf í NASA
Margir hafa spurt mig hvernig það sé að vinna í NASA og er gef ég oftast stutt og ónákvæm svör (eins og "bara fínt"). Ég ákvað því að smella stuttri færlsu um veru mína í NASA Goddard Space Flight Center (GSFC). Ég er sem stendur í framhaldsnámi í stjarneðlisfræði við Maryland-háskóla í Bandaríkjunum og vinn masters- og doktorsverkefni mitt í samvinnu við vísindamenn í Goddard. Hérna vinna um tíu þúsund manns við ýmis verkefni á borð við Hubble sjónaukann, SOHO sólarsjónaukann, Swift, WMAP, James Webb sjónaukann o.s.frv. Venjan er að í Goddard fari fram mestöll vinna sem tengist sjónaukum og rannsóknartækjum á braut um jörðina á vegum NASA, meðan vinna við ómönnuð könnunarför (eins og Cassini og Messenger) fer að mestu fram í Kaliforníu í NASA Jet Propulsion Laboratory. Geimferjuáætlunin fer aftur fram enn annars staðar. Maryland-háskóli og NASA GSFC eru bæði staðsett í útjaðri Washington DC og hef ég búið hér síðan 2008.
Þar sem NASA er ríkisrekin stofnun fylgir henni mikil pappírsvinna og skrifstofuumsýsla. Til að mynda tók mig tvo mánuði að fá auðkennisskírteini sem veitir aðgang að gjörsamlega afgirtu Goddard svæðinu. Það eitt að fá tölvuaðgang og lykilorð tók um hálft ár og ég er þegar búinn að gleyma flestum lykilorðunum (já, þau eru nokkur). Öllum lykilorðum þarf síðan að breyta á tveggja mánaða fresti sem hjálpar ekki gleymnum vísindamönnum. Það má segja að þegar ég ákvað að taka að mér rannsóknarverkefni í Goddard vissi ég lítið sem ekkert um ferlið sem því fylgdi. Til að mynda flækir það málin töluvert að vera erlendur ríkisborgari. Sem betur fer er Ísland í náðinni og gekk pappírsvinnan nokkuð "greiðlega" fyrir sig. Við erum jú á lista hinna viljugu :-).
Byggingarnar á Goddard svæðinu hafa hvorki að geyma sjálfvirkar stálhurðar né augnskanna, þvert á væntingar margra. Fólk situr í þröngum skrifstofubyggingum í misgóðu ásigkomulagi. Allir stjarneðlisfræðingar í Goddard voru nýlega fluttir undir eitt þak og þar hefur myndast góður andi. Í nýju byggingunni nr. 34 (já, þær eru fleiri en 34!) var mér úthlutað skrifstofu og kom það mér í opna skjöldu að hún er staðsett við hliðina á skrifstofu John Mather, nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði árið 2006. Það eina sem hvetur mann áfram snemma á morgnanna, fyrir utan kaffibolla auðvitað, er að hitta John. Skemmtilegast finnst mér að heimsækja bygginguna þar sem sjónaukum og gervitunglum er raðað saman af verk- og tæknifræðingum í hvítum samfestingum. Þar er til að mynda risavaxinn lofttæmistankur sem var notaður til að prófa Hubble sjónaukann á sínum tíma auk hljóðbylgjuklefa sem sker úr um hvort tækin þrauki eldflaugaskot. Myndin er af lofttæmistanknum.
Ég byrjaði hér sumarið 2009 að vinna að rannsóknum á innrauðu bakgrunnsgeisluninni og hvernig hægt best sé að nema hana með James Webb sjónaukanum. Innrauða bakgrunnsgeislunin er svipað fyrirbæri og Örbylgjukliðurinn en á sér allt aðrar rætur. Hugsanlega kemur þetta daufa innrauða ljós frá fyrstu stjörnunum sem mynduðust í alheiminum sem eru svo fjarlægar að þær hafa aðeins skilið eftir sig daufan bjarma af innrauðu ljósi. James Webb sjónaukanum verður skotið á loft árið 2014 og er þess beðið með mikilli eftirvæntingu að þessi arftaki Hubbles gefi okkur nýja mynd af alheiminum. Myndin að neðan er af undirrituðum með líkani af James Webb sjónaukanum.
NASA ræður í vinnu ótrúlega breiðan hóp fólks, stjörnufræðinga, verkfræðinga, tölvunarfræðinga, jarð- og veðurfræðinga, og marga fleiri. Fyrir þá sem hafa áhuga á að vinna í samstarfi við NASA þá eru ýmis tækifæri fyrir háskólanema, svo sem sumarskólar, styrkt verkefni og rannsóknarsamvinna. Síðan má ekki gleyma Evrópsku geimrannsóknarstofnuninni (ESA) sem færist sífellt í aukana.
-Kári Helgason
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.