Stærsta fulla tungl ársins skammt frá Mars

Í kvöld, föstudagskvöld, ætlar næturhiminninn að setja á svið fallega sýningu þar sem tunglið og Mars leika aðalhlutverkin.

Eldsnemma á laugardagsmorguninn verður fullt tungl. Á sama tíma er tunglið líka eins nálægt jörðinni og það kemst. Verður því hér um að ræða stærsta fulla tungl ársins 2010, 14% breiðara og 30% bjartara en önnur full tungl á árinu, samkvæmt SpaceWeather.com. Í kvöld mun tunglið sem sagt líta út fyrir að vera aðeins stærra og bjartara en venjulega.

Mynd: (©) Anthony Ayiomamitis. Sjá hér.

En hvernig stendur á því að tunglið er mislangt frá jörðinni? Jóhannes Kepler áttaði sig á því fyrir næstum 400 árum. Hann komst að því að braut tunglsins um jörðina (og annarra reikistjarna um sólina) er ekki hringur heldur sporaskja. Minnst er fjarlægðin er tunglsins um 363.000 km en mest um 405.000 km. Þessi mismunur á jarðnánd (perigee) og jarðfirð (apogee) tunglsins veldur því að tunglið getur verið misstórt á himninum. Til gamans má geta þess að fyrir næstum 40 árum settu geimfarar fjarlægðarmet í geimnum. Þegar Apollo 13 flaug bak við tunglið í apríl 1970 var tunglið næstum eins langt frá jörðinni og mögulegt er, þá í 400.002 km fjarlægð.

Stórt tungl, aðeins minna tungl

Fullt tungl rís alltaf á sama tíma og sólin sest. Líttu í norð-austurátt við sólsetur í kvöld. Þar skríður tunglið upp á himinninn, risastórt að því er virðist, og appelsínugult. Síðar um kvöldið, þegar tunglið er komið hærra á himinninn, virðist það hafa skroppið aðeins saman og gránað. Hvers vegna?

Það sem þú ert að upplifa er tunglskynvillan svonefnda. Tunglið virðist stærra við sjóndeildarhringinn en það í raun og veru er vegna þess hvernig við skynjum lögun himinhvelfingarinnar. Þú getur sannreynt skynvilluna sjálf(ur) með því að beygja þig og horfa á tunglið á hvolfi. Hvað gerist? Tunglið minnkar. Reistu þig við og tunglið stækkar! Magnað, ekki satt?

Tunglið er alveg jafn stórt við sjóndeildarhringinn og þegar það er hæst á lofti. En hvernig útskýrum við litamuninn? Hvers vegna er tunglið appelsínugult þegar það er lágt á lofti en grátt hátt á lofti? Tunglið endurvarpar því sólarljósi sem á það fellur. Þegar tunglið er lágt á lofti þarf ljósið að ferðast lengri vegalengd í gegnum lofthjúpinn. Við það verður rauði liturinn í ljósinu allsráðandi og tunglið tekur á sig rauðan eða appelsínugulan blæ. Ljósið ferðast skemmri leið þegar tunglið er hátt á lofti og þá er blái liturinn í ljósinu allsráðandi.

Myndin hér fyrir ofan sýnir þetta vel en hún er fengin að láni héðan.

Hver er þessi bjarta stjarna við hliðina á tunglinu?

Glöggir himnarýnarar sjá bjarta appelsínugulleita stjörnu skammt vestan við tunglið. Þetta er enginn annar en stríðgsuðinn Mars örstutt frá býflugunum í krabbanum. Prófaðu að skoða býflugurnar með handsjónauka.

mars_tunglid_29jan2010.jpg

Síðastliðinn miðvikudag voru jörðin og Mars næst hvort öðru á þessu ári. Skildu þá 99 milljón km rauðu reikistjörnuna og móður jörð að. Í dag, föstudag, er Mars beint á móti sólinni frá jörðu séð (í gagnstöðu) og á þeim tímapunkti tekur jörðin fram úr Mars á leið sinni umhverfis sólin.

Jörðin og Mars mætast á ferðalögum sínum umhverfis sólin á rúmlega tveggja ára fresti. Brautirnar eru sporöskjulaga eins og Kepler komst að og þess vegna er fjarlægðin milli þeirra líka breytileg. Minnst getur fjarlægðin verið um 56 milljón km, eins og árið 2003, en mest um 102 milljón km, þegar þær eru næst hvor annarri.

Mynd frá Stjörnufræðivefnum.

Þegar fjarlægðin er minnst sést mest í gegnum sjónauka. Með góðum stjörnusjónauka (helst 114mm eða stærri) sést að Mars er sú reikistjarna sem líkist jörðinni mest. Sjá má pólhettur, ský, rykstorma og dökk- og ljósleit landsvæði.

Mynd: (©) Damian Peach.

Prófaðu að beina stjörnusjónaukanum þínum á Mars. Hann er krefjandi fyrirbæri að skoða og oftast finnst manni maður ekki sjá nokkurn skapaðan hlut á ljósrauðu skífunni sem blasir við í sjónaukanum. Taktu þér tíma og horfðu vel og lengi. Smátt og smátt birtast smáatriði sem þú hefðir aldrei haldið að þú gætir mögulega séð.

Úff, alltof langt. En takk fyrir ef þú nenntir að lesa þetta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Alls ekki of langt!  Hinsvegar áhugavert og fróðlegt.

Tók eftir skærri stjörnu í norð-austur átt í gærkvöldi, svona hálf sjö kannski.  Hún var sýnileg löngu áður en aðrar stjörnur, og svo í morgun þegar ég leit út var skær stjarna nálægt (næstum fullu) tungli í vestur átt.  Var það Mars í bæði skiptinn?

Þarf að fara að koma mér í að fá mér stjörnusjónauka, búinn að bíða í 30 ár eftir að fá svoleiðis í jóla-/afmælisgjafir en það virðist bara ekki ætla að ganga upp.

Arnar, 29.1.2010 kl. 10:29

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Úff, gott að heyra að einhver nennti að lesa þetta.

Já, í bæði skiptin var um Mars að ræða. Það er svolítið gaman að fylgjast með snúningi jarðar á þennan hátt.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 29.1.2010 kl. 12:26

3 identicon

Sammála Arnari, var alls ekki of langt. Finnst frábært að lesa pistlana frá ykkur. Er í sömu sporum og langar að fá mér góðan kíki. Hann má hins vegar ekki vera of dýr. Hvað mynduð þið mæla með sem bestu kjörum fyrir nýgræðing í stjörnukíkismálum?

Bestu kveðjur,

Einar Ingi

Einar Ingi (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 12:38

4 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Einstaklega fróðlegt og skemmtilegt - takk fyrir þetta

Höskuldur Búi Jónsson, 29.1.2010 kl. 13:16

5 identicon

Einar Ingi:

Mæli með því að þú sendir póst á Sævar á sjonaukar@sjonaukar.is. Ég á ódýrasta sjónaukann sem hann er að selja og mæli með honum (sami og hér: www.stjornuskodun.is/firstscope).

Sævar er án nokkurs vafa langbesti ráðgjafinn við sjónaukakaup á Íslandi og ég veit að hann okrar ekki á þeim.

Gangi þér vel!

Sverrir

Sverrir Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 16:51

6 identicon

Skemtilegt að lesa þetta. Svaraðir spurningum sem ég var ný búinn að velt fyrir mér, litamunurinn.

Þórhallur (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 18:02

7 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Meiriháttar! - gaman að vita og þúsund þakkir fyrir að nenna að skrifa um þetta.

Vilborg Eggertsdóttir, 29.1.2010 kl. 21:04

8 identicon

Mjög fróðlegur pistill. Takk kærlega.

GM (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 00:17

9 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Ákaflega gagnleg og skemmtileg skrif !

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 30.1.2010 kl. 00:20

10 identicon

Takk kærlega fyrir þetta Sverrir. Ég mun hafa samband við hann. :)

Bestu kveðjur, 

Einar Ingi

Einar Ingi (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 09:04

11 identicon

Við hjónin upplifðum þetta í nótt þegar við vorum að ganga heim. Stórkostlegt tunglskin, heiðskýrt og kalt. Björt stjarna við hlið tunglsins. Svo var svona stór óljós baugur í kringum tunglið, man ekki hvað það er kallað?

Örvar (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 09:09

12 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ég þakka öllum fyrir hrósið! Það er sérstaklega gaman ef þetta fær einhverja til þess að horfa til himins.

Örvar: Stór baugur í kringum tunglið kallast rosabaugur. 

- Sævar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 30.1.2010 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband