Nýr og spennandi kafli að hefjast

Þótt ökuferðum Marsjeppans Spirit sé lokið er fjarri því að dagar hans séu taldir. Fyrir næstum ári síðar skrifaði ég pistil um fyrstu fimm árin í lífi Spirit á Mars. Spirit er aldurhniginn þótt hann sé aðeins sex ára gamall. Hann haltrar eftir að tvö af sex hjólum hans biluðu. Hann er útataður í ryki sem veldur því að hann fær ekki eins mikla orku frá sólinni og oft áður.

Spirit hefur dvalið á reikistjörnunni Mars í meira en sex ár, næstum 25 sinnum lengur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Jeppinn lenti í Gusev gígnum á Mars snemma í janúar 2004. Hann hefur síðan ekið um hraunbreiðuna á botni gígsins víðfeðma.

Eftir þriggja mánaða ökuferð, heila þrjá kílómetra, komst jeppinn að Kólumbíuhæðum. Spirit varð fyrsti fjallgöngugarpurinn á Mars þegar hann klöngraðist upp hæðirnar. Á staðnum, þar sem Spirit er nú fastur, datt hann í lukkupottinn. Þar fann Spirit brennisteins- og kísilríkan jarðveg sem allt bendir til að sé veðruð leif af gufuhver. Gufuhver er staður þar sem grunnvatn ofurhitnar þegar það kemst í snertingu við fljótandi kviku. Kannski var á Kólumbíuhæðum staður sem líkist Hveravöllum fyrir næstum 4.000.000.000 árum. Kannski voru þar örverur líka. Hver veit?

Fyrir tíu mánuðum festist Spirit í fínum og dúnmjúkum jarðveginum. Verkfræðingum hefur ekki tekist að losa hann. Myndin hér til hliðar sýnir hjólin föst og tilraunir manna til að aka honum. Nú vinna verkfræðingar að því að stilla jeppanum þannig upp að hann drekki í sig sem mesta sólarorku fyrir veturinn sem brátt gengur í garð á Mars. Veturnir á Mars eru sambærilegir og á jörðinni, enda möndulhalli Mars svipaður og möndulhalli jarðar. En þar sem Mars er lengra frá sólinni en jörðin eru árstíðirnar tvöfalt lengri en á jörðinni.

Spirit er ekki dauður úr öllum æðum. Þótt hann aki ekki lengra á Mars hefst nú nýr og spennandi kafli í rannsóknum hans á reikistjörnunni. Þar sem hann situr fastur má nota hann til að mæla vagg í möndulsnúningi Mars sem getur veitt okkur upplýsingar um hvort kjarni reikistjörnunnar sé fastur eða bráðinn. Það krefst þess að jeppinn sé stöðugt á sama stað. Fylgst verður útvarpsmerkjum með föstum punkti á Mars til þess að reikna út vaggið með nokkurra sentímetra nákvæmni. Einnig verður fylgst með veðurfarinu á staðnum og jarðvegurinn rannsakaður ítarlega.

Sá dagur rennur upp að Marsferðalangur gengur fram á jeppann þar sem hann situr fastur á stað þar sem eitt sinn var hver. Hvaða uppgötvanir gerir ferðalangurinn þegar hann tekur sýni úr jarðveginum sem Spirit uppgötvaði nokkrum áratugum áður?

Ég get ekki beðið.

Á meðan skaltu horfa til himins. Þessa dagana skín Mars stjarna skærast á austurhimni á kvöldin, áberandi appelsínugulleitur. Á morgun, miðvikudaginn 27. janúar, verður minnst fjarlægð milli jarðar og Mars, þá 99 milljón km. Tveimur dögum síðar tekur jörðin fram úr Mars á braut sinni um sólina og fer rauða reikistjarna þá hægt og rólega minnkandi á himninum. 

Ef þú átt góðan stjörnusjónauka, helst 114mm eða stærri, skaltu prófa að beina honum á Mars. Þú gætir greint hvíta norðurpólhettuna og dökkleit landsvæði. Spirit er nokkurn veginn við miðbaug reikistjörnunnar.

Þessar glæsilegu myndir tók breski stjörnuljósmyndarinn Damian Peach af Mars nú í upphafi ársins. 

2010_01_04rgb_small.jpg

Tengt efni á Stjörnufræðivefnum:


mbl.is NASA viðurkennir ósigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ein lítil leiðrétting. Mars skín stjarna næst-skærast á himninum. Síríus er örlítið bjartari.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 26.1.2010 kl. 21:18

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

En Mars er auðvitað ekki stjarna svo það skiptir svo sem engu máli.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 26.1.2010 kl. 21:19

3 identicon

Maður hefur næstum samúð með litla garpnum, þó líflaus sé.

Brynjar Björnsson (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 22:18

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk!

Villi Asgeirsson, 26.1.2010 kl. 22:19

5 identicon

Ég sá þátt um roverinn fyrir einhverju síðan og fannst einmitt merkilegt hversu lengi hann hafði þraukað og starfað þarna á Mars. Athyglisvert að hann skuli nýtast þrátt fyrir að sitja þarna fastur. Vonandi lifir hann af sem lengst.

Jón Flón (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 11:15

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hér vantar bara íslenska jeppakarla við stjórnvölin til að jukka þessu upp úr ófærðinni.

Emil Hannes Valgeirsson, 27.1.2010 kl. 17:45

7 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Brynjar: Einmitt. Manni er farið að þykja vænt um þessa jeppa. Þetta eru vinir manns. 

Emil: Já, ég held að NASA ætti að ráða íslenska jeppakarla til að aka næsta jeppa á Mars. Sá verður reyndar engin smásmíð, Spirit og Opportunity á sterum.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 27.1.2010 kl. 22:15

8 Smámynd: Arnar

Er Mars (og Sírius) skærari en Júpiter?

Arnar, 28.1.2010 kl. 09:04

9 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Heh, ég var búinn að gleyma að Júpíter er á himninum svo ég kannaði birtu hans. Hann er bjartari en bæði Síríus og Mars.

Takk fyrir að benda á þetta!

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 28.1.2010 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband