3.2.2010 | 09:27
Smástirnaárekstur, Ragnar Reykás og Avatar
Sólkerfið okkar er dýnamískur staður. Allt er á mikilli og stöðugri hreyfing og stundum verða hnettir í vegi hvors annars.
Þann 6. janúar síðastliðinn urðu bandarískir stjörnufræðingar varir við sérkennilegt fyrirbæri; langa rák sem leit ekki út fyrir að vera hefðbundin halastjarna heldur afleiðing árekstrar tveggja smástirna í 140 milljón km fjarlægð, í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíter. Fyrirbæri þetta hlaut nafnið P/2010 A2
Þann 25. og 29. janúar var Hubblessjónaukanum svo beint á fyrirbærið. Þetta var það sem hann sá:
Kúúúúúúúlllll!!!!
Á þessari mynd eru leifar árekstursins greinilegar. Langi halinn er ryk og grjót úr splundruðu smástirnunum. Sólvindurinn hefur síðan feykt þeim út á við, líkt og hala halastjarna. Á innfelldu myndinni sést að stærsta árekstraleifin er utan rykhjúpsins. Hann er talinn um 140 metra breiður eða á stærð við Laugardalsvöll.
Smástirnin voru óþekkt áður en áreksturinn varð. Árekstrahraðinn var að minnsta kosti 5 km/s sem er fimmfaldur hraði byssukúlu. Á þessum hraða kæmist þú frá Reykjavík til Selfoss á rúmlega tíu sekúndum eða frá Akureyri til Mývatns á tuttugu sekúndum!
Það er engin smávegis hreyfiorka fólgin í slíkum árekstri. Orkan sem losnar við áreksturinn og fer í að splundra hnöttunum er sambærileg við nokkrar kjarnorkusprengjur (veit ekki hversu margar því ég veit ekki massa hnattanna).
Ég veit ekki með þig en mér finnst þetta magnað.
----Efnafræði í daglegu lífi Ragnars Reykáss
Í Vísindaþættinum í gær, þriðjudaginn 2. febrúar, kom Ágúst Kvaran, prófessor í eðlisefnafræði við Háskóla Íslands, í heimsókn til okkar. Ágúst fór í gegnum dag í lífi Ragnars Reykáss. Í þættinum skoðuðum við þá efnafræði sem verður á vegi okkar, allt frá sápu og örbylgjuofni til eldsneytis, fæðu, kertaloga og flugelda. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt spjall og vonandi finnst þér það líka.
----
Stjörnulíffræði Avatar í Íslandi í bítið
Í Íslandi í bítið í morgun ræddi ég við Heimi og Sólveigu um kvikmyndina Avatar með augum stjörnulíffræðinnar. Ég er að vinna að stuttum pistli um vísindin í Avatar sem birtist fyrr en síðar á Stjörnufræðivefnum. Á meðan er hægt að hlýða á spjallið hér (mp3).
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:46 | Facebook
Athugasemdir
Þú getur kannski nýtt þér grein í NYTimes um
3 metra háar bláar verur og framandi vistkerfi
Arnar Pálsson, 3.2.2010 kl. 11:32
Takk fyrir að vísa á þetta. Kemur sér örugglega vel.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 3.2.2010 kl. 12:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.