Stórmerkileg kort af Plútó

Ítarlegar upplýsingar um Plútó er að finna hér.

Plútó er óhemju fjarlægur og agnarsmár. Hann er þess vegna meðal erfiðustu hnatta sólkerfisins að ljósmynda. Nýju kortin eru endurunnar ljósmyndir Hubble geimsjónaukans frá árunum 2002 og 2003. Þegar þau eru borin saman við eldri kort, sem gerð voru árið 1994, sést að yfirborð Plútós hefur breyst umtalsvert og ört. Þetta eru stórmerkar niðurstöður.

pluto_map_blink_anim_1994_2002_lg.gif

Samanburður á kortinu 1994 og 2002-3 af Plútó
Mynd: NASA/ESA/M. Buie (SwRI)/Emily Lakdawalla

Eins og tekið er fram í þessari fínu frétt hefur norðurhvelið orðið ljósara á síðustu árum á meðan suðurpóllinn hefur dökknað. Á sama tíma virðist sem yfirborðið í heild hafi orðið rauðara. Rauða litinn má sennilegast rekja til kolefnis. Þegar útfjólublá geislun frá hinni fjarlægu sól brýtur upp metanísinn á yfirborði Plútós situr kolefnið í metaninu eftir. Kolefnið er dökkt eða rauðleitt.

En hversu nákvæm eru þessi nýju kort? Kortin líkjast mjög því hvernig við greinum tunglið okkar með berum augum frá jörðinni. Með berum augum sjáum við dökk og ljós svæði á tunglinu en greinum engin smáatriði í landslaginu. Nýju kortin eru of ónákvæm til þess að við getum áttað okkur á jarðfræði Plútós en nógu nákvæm til að sýna okkur að dvergreikistjarnan er dílóttur hnöttur með ljósu, dökk-appelsíngulu og biksvörtu landslagi.  

Loftslagsbreytingar á Plútó

pluto_hubble_04022010_958039.jpgLofthjúpur Plútós er örþunnur, en við yfirborðið er loftþrýstingurinn 100.000 sinnum minni en við sjávarmál á jörðinni. Þú fyndir því ekki fyrir því þegar stormur geysaði Plútó. 

Athuganir af jörðu niðri sýna líka að massi lofthjúpsins hefur tvöfaldast frá árinu 1988, vegna hlýnunar. Þegar hlýnar á Plútó þurrgufar ísinn af yfirborðinu svo lofthjúpurinn þykknar. Þurrgufunin er líkleg ástæða fyrir þessum breytingum á yfirborðinu. En hvers vegna hefur hlýnað?

Braut Plútós um sólina er mjög sporöskjulaga og hallar meira en brautir reikistjarnanna í sólkerfinu. Brautin er svo sporöskjulaga að um 20 ára skeið af 248 ára löngu ferðalagi sínu umhverfis sólina er Plútó nær sólu en Neptúnus. Seinast fór Plútó inn fyrir braut Neptúnusar 21. janúar 1979 og var næst sólu 5. september 1989. Tæplega tíu árum síðar eða 11. febrúar 1999 fór Plútó aftur út fyrir braut Neptúnusar.

Hlýnunin og loftslagsbreytingarnar á Plútó má rekja til þessa, þ.e. að Plútó var nær sólinni en venjulega.  

Betri kort árið 2015

new_horizons_plutokerfi.jpgNýju kortin eru hin nákvæmustu sem við höfum af Plútó þar til New Horizons geimfar NASA flýgur framhjá honum og tunglunum Karon, Nix og Hýdra árið 2015. Nýju kortin eru vísindamönnum, sem starfa við þennan leiðangur, ómetanleg. Með þeim er hægt að skipuleggja framhjáflug geimfarsins árið 2015. New Horizons ferðast svo hratt framhjá Plútó að aðeins önnur hlið hans verður ljósmynduð í mestu mögulegu upplausn, svo mikilvægt er að velja hvor hliðin er áhugaverðari.

Með kortunum geta vísindamenn líka reiknað út réttan lýsingartíma fyrir ljósmyndirnar. Við framhjáflugið verður New Horizons svo langt frá jörðinni að það tekur skilaboð frá geimfarinu næstum sex klukkustundir að berast til jarðar. Þess vegna er ómögulegt að ljósmynda sömu svæði tvisvar, ef svo óheppilega vildi til að fyrri myndin misheppnaðist. Þess vegna er mikilvægt ljósmyndir geimfarsins verði hvorki undir- eða yfirlýstar.

Hvað skildi leynast á yfirborði Plútós? Ég get ekki beðið eftir því að New Horizons fljúgi þarna framhjá.

- Sævar


mbl.is Plútó roðnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það verður spennandi að sjá þokkalegar skýrar nærmyndir af Plútó. Takk fyrir skemmtilega færslu.

Villi Asgeirsson, 5.2.2010 kl. 22:02

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Já spennandi.  Við verðum bara að bregða undir okkur betri fætinnum fyrst að New Horizons er svona hægfara.  En svona rétt upp á spaugið að þá flýgur New Horizon ekki framhjá Plúto heldur fer framhjá. Það þarf loft, gas eða einhverskonar efni til að flug geti átt sér stað, sem ég veit að þið skiljið betur en ég, en hugar ákafin er á undan talfærunum. Þakka ykkur fyrir, kem til með að fylgjast með, EGL.   

Hrólfur Þ Hraundal, 6.2.2010 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband