Skrítin frétt - örfáar athugasemdir

**Uppfært** Fréttin hefur nú verið leiðrétt. Mbl.is fær hrós fyrir það. Þeir tengja líka á Stjörnufræðivefinn og fá sko feitan plús fyrir það. Þessi viðbrögð eru til fyrirmyndar.

Nú ætla ég að vera pínu leiðinlegur við mbl.is. Þeir hafa staðið sig ágætlega í vísindaumfjöllun að undanförnu, en þessa frétt hefði mátt lesa yfir að minnsta kosti einu sinni áður en hún var birt. Vona að þessi bloggfærsla verði til þess að þetta verði lagfært.

Til að byrja með verð ég að gera athugasemd við fyrirsögnina: "Stjarna étur upp fylgihnött." Hér er augljóslega um beina þýðingu að ræða og orðinu "upp" ofaukið. Hefði frekar haft þetta: "Stjarna étur fylgihnött sinn", eða eitthvað í þá áttina.

Svo kemur þessi málsgrein:

Það tekur WASP-12b sem er stödd í stjörnuþokunni Aurica um 26 tíma að fara hringinn í kringum WASP-12. Stjarnan sjálf, sem var uppgötvuð á síðasta ári, er einn gasmassi, um 40% þyngri en stærsta reikistjarna okkar sólkerfis, Júpíter, og með nær 80% stærri radíus.

Það er ekki til nein stjörnuþoka sem heitir Aurica. Hér er örugglega átt við stjörnumerkið "Auriga" sem heitir Ökumaðurinn á íslensku, eins og sjá má á lista yfir stjörnumerkin á Stjörnufræðivefnum. Skilja má seinni setninguna sem svo að stjarnan WASP-12 hafi fundist á síðasta ári, þegar hið rétta er að reikistjarnan WASP-12b fannst við sólstjörnuna WASP-12 árið 2008. Sólstjarnan sjálf, WASP-12, hefur verið þekkt lengi. Hún er ekki ósvipuð sólinni okkar.

Ég veit svo ekki hvað átt er við með "einn gasmassi, um 40% þyngri en stærsta reikistjarna okkar sólkerfisins, Júpíter, og með nær 80% stærri radíus". Líklega hefði ég orðað þetta svona: "Reikistjarnan, sem fannst árið 2008, er 40% massameiri en Júpíter, stærsta reikistjarna sólkerfisins, og hefur nærri 80% sinnum stærri radíus."

Höldum áfram. Í fréttinni segir líka:

Þó það taki Júpíter nær tólf ár að hringa sólina skýst WASP-12b á tólf tímum í kringum WASP-12 og er því einstaklega nálægt henni. Aðdráttarafl stjörnunnar er hins vegar það mikið að það er farið að að éta upp fylgihnöttinn með því að draga af því gaslög sem stjarnan bætir svo við sig.

Nart WASP-12 er farið að taka sjáanlegan toll á fylgihnettinum sem er ekki lengur hnöttóttur heldur egglaga og líkist nú helst amerískum fótbolta. Fylgst er með stjörnunum frá stjörnuathugunarstöð Peking háskóla í Kína.

Hér er í fyrsta lagi rangt farið með umferðartíma WASP-12b. Hún er rétt rúmlega 26 klukkustundir að snúast umhverfis sólina sína, eins og reyndar er tekið fram fyrr í fréttinni.

Heppilegra orðalag væri t.d.:

Wasp-12b er rétt rúmlega 26 klukkustundir að snúast umhverfis WASP-12, en til samanburðar er Júpíter nærri tólf ár að ljúka einni hringferð um sólina okkar. Smám saman dregur stjarnan reikistjörnuna í sig vegna nálægðarinnar. Er nú svo komið að hún er ekki lengur hnattlaga heldur líkist einna mest eggi eða amerískum fótbolta.

Ég vona að hér sé einfaldlega um að ræða fljótfærni, að eftir átti að lesa fréttina yfir áður en hún var birt. Hér undir er skjáskot af fréttinni, bara svo þessu sé haldið til haga ef (þegar) þetta verður lagfært.

skjaskot_frett_23feb2009.jpg

- Sævar


mbl.is Stjarna étur fylgihnött
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alveg magnað hvað mbl starfsmenn virðast stundum nýta sér þýðingarforrit til að þýða fréttar úr erlensku :)

En það væri þá betra því að staðreyndarvillurnar, eins og þær sem þú bendir hér á, eru stundum kjánalegar.

Hallur (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 23:31

2 identicon

Góðar athugasemdir.

En svo allir séu við sama borð þá virkar ekki "sólinni okkar." linkurinn þinn ekki rétt nemað þú ætlir að linka beint á vefinn www.stjörnuskoðun.is. :)

...og já alveg hrillilegt að lesa þessa frétt á mbl.is.

Bjarki Már (IP-tala skráð) 25.2.2010 kl. 00:18

3 identicon

Og auðvitað er "ekki" ofaukið hjá mér.

hefði átt að lesa þetta tvisvar yfir...

Bjarki Már (IP-tala skráð) 25.2.2010 kl. 00:21

4 identicon

Svo má auðvitað bæta því við að amerískir fótboltar eru ekki egglaga :)

Gulli (IP-tala skráð) 25.2.2010 kl. 09:05

5 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ætli það sé ekki rétt hjá þér Gulli. Er ekki nógu vel að mér um ameríska fótbolta svo þetta eru byrjendamistök. Held reyndar að reikistjarnan sé frekar egglaga vegna flóðkrafta og það sé betri lýsing.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 25.2.2010 kl. 10:53

6 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Bjarki Már, takk fyrir að benda á þetta. Er búinn að lagfæra.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 25.2.2010 kl. 10:54

7 identicon

Ég man amk ekki eftir að hafa séð egg sem er svona í laginu: Amerískur fótbolti

Gulli (IP-tala skráð) 25.2.2010 kl. 15:37

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Ertu ekki dálítið strangur að krefjast þess að fréttir séu skiljanlegar?

Hvar værum við stödd núna ef fréttirnar væru í raun skiljanlegar og nákvæmar, en ekki skrifaðar ljósi flokkslitar, eignastöðu, stjórnmálaskoðanna eða trúar?

Sniðugt að taka mynd af klúðrinu, mbl.is leiðrétta reglulega fréttir (án þess að geta þess!).

Arnar Pálsson, 25.2.2010 kl. 15:54

9 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Nú hefur fréttin verið leiðrétt og lagfærð. Mbl.is fær sko plús fyrir það.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 25.2.2010 kl. 16:56

10 identicon

Ég les í leiðréttingunni að radíusinn sé 80 sinnum stærri en hjá Júpíter. Hvernig getur pláneta sem er með 40% meiri massa en Júpíter, verið með 80sinnum stærri radíus?

   Er ekki verið að tala um plánetu sem á að vera svipuð að stærð og Júpíter?

Jóhannes (IP-tala skráð) 25.2.2010 kl. 23:42

11 Smámynd: Þór Sigurðsson

Svona getur það klúðrað málunum að setja fingurna í (slæma) fréttamennsku án þess að skoða eigin heimildir og staðreyndir fyrst.

Upphaflega fréttin er nefnilega nokkurnveginn rétt hvað varðar þvermál reikistjörnunnar, en radíusinn er 79% stærri en radíus Júpíters, eða 1.79+/-0.09R_J

Sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/WASP-12b

Þór Sigurðsson, 26.2.2010 kl. 01:22

12 identicon

Ættir kanski aðeins að rifja upp stærðfræðina 80% er ekki það sama og 80 sinnum. þannig að ef þessi pláneta er með 80% stærri radius en Jupier er hún með 1,8 sinnum stærri radius en jupiter.

Magnus (IP-tala skráð) 26.2.2010 kl. 10:16

13 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Magnus, ég tók ekki eftir þessu. Þetta er að sjálfsögðu rétt hjá þér.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 26.2.2010 kl. 13:47

14 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Og þér líka Jóhannes. Takk fyrir að benda á þetta.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 26.2.2010 kl. 13:49

15 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Ég spyr mig oft,,hvar er skapari þessa alls?,, með vísan til trúar. Eins áhugaverð og stjörnufræðin er,vekur hún upp endalausar spurningar,barnalegar eins og í Ara-vísum;Hvar er eilífðin mamma,,?      Það er allt hægt í huganum,t.d. að komast til gasmassa- stjörnunnar,en er hægt að tylla á hana fæti eins og á tunglinu?   Tilfinning mín er að Jörðin sé eyðieyja,umleikin dyndóttum frumkröftum. Svo margt hafa vísindin uppgötvað,að kæmi mér ekki á óvart,þótt ég lifi það ekki að við flytjumst  á annan hnött,þegar þessi verður orðinn óbyggilegur,eða of lítill,vegna fólksfjölgunar,nema þeir öflugustu grysji til að fá meira rými.    Þetta er nætur-hugliðing,sem væri öðruvísi,væri hægt að spjalla og fá svör jafn óðum.

Helga Kristjánsdóttir, 28.2.2010 kl. 03:23

16 identicon

Ekki segja vekja "upp" spurningar. Betri íslenska er: ..þá vaknar sú spurning..

..eða spurningar i ft.

þetta "upp" eru áhrif úr ensku - sem væru kærkomin ef íslenskan þarfnaðist þeirra. Svo er hinsvegar ekki í þessu tilviki.

steini (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband