Vetrarbraut Svarthöfða

Fyrir skömmu sögðum við frá tungli Satúrnusar sem líkist Helstirni Veldisins í Stjörnustríðsmyndunum. Það er greinilega enginn hörgull á fyrirbærum í geimnum sem líkjast tækjum og tólum úr Stjörnustríðmyndunum því í dag er komið að vetrarbraut sem minnir óneitanlega á TIE geimorrustuflaugar Veldisins sem Svarthöfði og félagar notuðu.

ngc_936.jpg

Hér er myndin í meiri upplausn.

Hér sést bjálkaþyrilvetrarbrautin NGC 936. Hún er í um 50 milljón ljósára fjarlægð frá okkur. Myndin sýnir sem sagt vetrarbrautina eins og hún leit út fyrir 50 milljón árum, löngu áður en Ísland varð til. Vetrarbrautina er að finna í stjörnumerkinu Hvalnum. Hún er ekki mjög björt en þó sjáanleg með stórum áhugamannasjónaukum (6-8 tommur og stærri). 

250px-tiefighterfull.jpgMiðbunga vetrarbrautarinnar minnir mjög á vélina og stjórnklefa TIE geimorrustuflauganna. Miðjan er umlukin hring af stjörnum sem samsvarar þ.a.l. vængjum orrustuflauganna sem eru útbúnir sólarhlöðum.

Vetrarbrautin inniheldur næstum eingöngu gamlar stjörnur og í henni eru engin merki um nýlega stjörnumyndun. Myndin var tekin með einum af VLT sjónaukunum fjórum á Cerro Paranal í Chile. Þarna eru að minnsta kosti 200 milljarðar sóla samankomnar. Skyldi einhver þar vera að horfa yfir til okkar?

Hvað sem því líður er augljóst að Veldið er í óðaönn að leggja undir sig alheiminn.

---

Krakkanámskeið í Morgunútvarpi Rásar 2

Hátt í fjörutíu krakkar tóku þátt í námskeiðum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og Stjörnufræðivefsins um liðna helgi. Sveinn Guðmarsson, einn af umsjónarmönnum Morgunútvarpsins á Rás 2 leit við og tók nokkra krakka spjalli. Hægt er að hlusta á það hér.

Fyrir áhugasama verða næstu námskeið í stjörnuskoðun og stjörnufræði í haust. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Kannski er einhver þarna (má segja uppi) að horfa til okkar núna,koma svo      kanski og taka okkur tali, ekki spjalli.

Helga Kristjánsdóttir, 2.3.2010 kl. 00:30

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Frábær mynd.

Sá líka góða myndarunu á New York Times (skráningar krafist)

http://www.nytimes.com/slideshow/2010/03/01/science/space/030110_Pluto_index.htm

Arnar Pálsson, 2.3.2010 kl. 09:05

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Helga, jú það er allt í lagi að segja þarna uppi. Sjálfur nota ég reyndar yfirleitt bara þarna úti, en það skiptir svo sem engu máli. Það væri fínt ef þær gætu spjallað við okkur, en við vitum svo sem ekki einu sinni hvort aðrar verur myndu þróa með sér tungumál. Þær myndu alla vega ekki tala ensku. Þetta eru skemmtilegar vangaveltur.

Arnar, takk fyrir þetta. Skemmtileg myndaröð. Ótrúlegt hvað Bandaríkjamenn taka samt þessu Plútó máli nærri sér.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 2.3.2010 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband