1.3.2010 | 19:31
Hver er uppáhalds stjörnuskoðunin mín?
Það spannst smá umræða hjá okkur sem vorum með krakkanámskeið Stjörnuskoðunarfélagsins og Stjörnufræðivefsins um helgina hvað það væri sem við hefðum mestan áhuga á að skoða í stjörnuskoðun. Mig langar til þess að fara aðeins lengri leið að svarinu og segja frá svörum sem ég hef sjálfur fengið.
Ég fékk sjálfur þessa spurningu í fyrsta sinn úti í Kanada (reyndar þrisvar sinnum og í öll skiptin frá mönnum sem hafa verið yfir 20 ár í bransanum). Ég vissi ekkert hvernig ég átti að svara spurningunni en fékk að heyra aðeins frá þeim sem spurðu hvað þeir hefðu mestan áhuga á.
Einn þeirra, Larry í Edmontondeild RASC, fékk áhuga sinn á stjörnufræði þegar Halley-halastjarnan heimsótti okkur 1986. Í fyrsta alvöru samtali okkar þá sagðist hann hafa skoðað yfir 400 hringþokur. Þær eru því án efa efst á listanum hjá honum yfir fyrirbæri sem hann eltist við. Hann skoðar líka önnur djúpfyrirbæri með 12,5" sjónaukanum en hringþokurnar eru samt í sérflokki. Þegar hann spurði mig hvað ég hefði skoðað af hringþokum þá sagðist ég hafa séð kannski tvær eða þrjár (þar á meðal Hringþokuna í Hörpunni). Þær urðu samt miklu fleiri eftir að ég fór tvisvar í stjörnuskoðun með Larry út fyrir borgina
Annar náungi sem spurði mig var hann Bruce McCurdy sem vann í stjörnustöðinni í Edmonton síðasta sumar og var þar manna duglegastur að kynna stjörnufræði fyrir almenningi og skólakrökkum. Ég átti í erfiðleikum með að svara spurningunni um uppáhalds stjörnuskoðunina mína en þegar ég spurði hann til baka þá sagðist Bruce núna vera mest á höttunum eftir loftsteinahríðum. Ég fór einu sinni með honum út fyrir bæinn að skoða Óríoníta. Hann fylgdist með himninum í kringum Óríon og þegar við sáum stjörnuhrap þá las hann inn á upptökutæki hvaðan steinninn hefði verið að koma og u.þ.b. hvað hann hefði verið bjartur. Til viðbótar var hann með klukku sem sagði tímann upphátt svo nákvæm tímasetning fylgdi með hverri upptöku. Það var mjög gaman að sjá hann gera þetta og ég á tvímælalaust eftir að fara með einhverjum í loftsteinaleiðangra út fyrir bæinn næsta vetur
Þriðji maðurinn sem spurði mig var Stephen James O'Meara á stjörnufræðinámskeiði fyrir utan bæinn. Ég gat heldur ekki svarað honum heldur sagðist ég skoða alls konar fyrirbæri en ekkert eitt frekar en annað. Stephen er náttúrlega meðal þekktustu og reyndustu stjörnuskoðara í heiminum. Hann hefur skoðað ótal fyrirbæri af öllu tagi svo það væri kannski erfitt fyrir hann að svara spurningunni um uppáhalds stjörnuskoðunina.
Hann spurði mig samt sérstaklega út í norðurljósin (ekki skrýtið frá manni sem býr á Hawaii) en einnig hvort ég fylgdist með ljósagangi s.s. grænum blossum í kringum sólarlag. Ég byggi jú við sjóinn (öfugt við íbúa Edmonton sem er inni á miðju meginlandi N-Ameríku). Ég fylgist reglulega með aukasólum o.þ.h. en sagði við hann að ég myndi hafa augun enn frekar hjá mér hvað varðar litbrigði við sólarlag. Það sem Stephen hefur fjallað sérstaklega mikið um í pistlum sínum í Astronomy undanfarið er stjörnuskoðun með berum augum s.s. fyrirbæri við sólarlag, hvað hægt er að sjá á tunglinu með berum augum og einnig daufustu vetrarbrautirnar sem sjást með berum augum. Allt greinilega atriði sem hann hefur sérstaklega mikinn áhuga á þessi misserin.
Þá er loks komið að mér: Ég fer yfirleitt aldrei einn í stjörnuskoðun með sjónauka. Bæði helgast það af bílleysi en einnig hef ég bara ekki mikinn áhuga á því (sem sást þegar ég hafði reglulega bíl til umráða og fór aldrei einn í stjörnuskoðun!). Hins vegar hef ég gaman að því að fara með öðrum t.d. í Krýsuvík og sérstakt yndi af því að sýna byrjendum Sjöstirnið, tunglið, Andrómeduvetrarbrautina og þessi helstu fyrirbæri (sem eru alltaf jafnáhugaverð í hvert skipti sem ég skoða þau). Bæði hef ég verið að gera þetta eftir námskeið félagsins og eins í stjörnustöðinni á meðan ég var í Edmonton. Maður verður alltaf fljótari að finna fyrirbærin og var ég m.a. búinn að ná upp tækni til þess að finna Herðatréð í Litlarefi í Edmonton áður en stjörnuklasinn sást með berum augum á himninum!
Uppáhalds stjörnuskoðunin mín er samt stjörnuskoðun með berum augum þar sem ég er úti að labba eða stend kyrr og kíki á Óríon, Perseif, reyni að sjá Vetrarbrautarslæðuna og rifja upp nöfn á stjörnum og staðsetningu stjörnumerkja (að útbúa stjörnukort mánaðarins hjálpar mér mikið með það!). Í Edmonton kom ég mér líka upp því sporti að leita uppi daufustu stjörnuna sem sést á himninum og geri það mjög oft þegar ég fer út, bæði eftir minni og eins eftir stjörnukorti. Út frá daufustu stjörnunni má álykta um ljósmengun og aðstæður og hve margar stjörnur sjást á himninum í heildina. Svona stjörnuskoðun með byrjendum og berum augum er þannig í mestu uppáhaldi hjá mér sem stendur.
Draumastjörnuskoðunin er náttúrlega að komast í góðar aðstæður á suðurhveli, hvort sem er með stóran sjónauka eða með lítinn sjónauka eða með berum augum úti í óbyggðum fjarri öllum ljósum (já, grasið er alltaf grænna hinum megin).
Ég setti inn spurningu um uppáhalds stjörnuskoðun íslenskra áhugamanna á spjallborði Stjörnuskoðunarfélagsins http://korkur.astro.is. Þið getið kíkt þar inn og séð svör þeirra um uppáhalds stjörnuskoðunina sína.
-Sverrir
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 2.3.2010 kl. 14:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.