Fjör á krakkanámskeiðum!

Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness héldu krakkanámskeið um síðustu helgi fyrir 6-12 ára börn og foreldra þeirra. Það er fátt jafngaman eins og að kenna áhugasömum krökkum um stjörnufræði og var þessi helgi engin undantekning.

img_0566

Meðal þess sem við gerðum var að kenna gestum um nifteindastjörnur (og leyfa þeim að snúast á bretti eins og skautadansari eða nifteindastjarna). Einnig fræddum við gesti um kvartilaskipti tunglsins og sýndum þeim loftsteina. Það verður nú að teljast góð ástæða til þess að mæta á næsta viðburð hjá okkur að fá að halda á 4,5 milljarða ára gömlum steinum utan úr geimnum!

Á mánudagskvöldið fórum við í stjörnuskoðun mðe hópinn þrátt fyrir óræða veðurspá. Við vorum við gervigrasvöll Gróttu á Seltjarnarnesi þar sem var smá skjól fyrir allri lýsingunni í kringum Valhúsaskóla. Ég fann Sjöstirnið frekar fljótt í FirstScope-sjónaukanum mínum inni á milli skýja en svo þegar fólk spurði hvar það væri það væri þá fékk það svarið „Sérðu stjörnuþyrpinguna þarna sem sést rétt svo í skýjunum, þetta er Sjöstirnið!“.

Það létti samt til þegar leið á kvöldið og fólk gat betur áttað sig á himninum með hjálp Stjörnukorts mánaðarins. Allir sem komu með sjónauka gátu fundið einhver fyrirbæri í honum sem þýðir að tilgangi stjörnuskoðunarinnar var náð! Meðal annarra fyrirbæra sem við kíktum á voru Sverðþokan í stjörnumerkinu Óríon og reikistjarnan Mars sem var áberandi appelsínugul og skein skært á himninum.

Við ætlum að endurtaka leikinn næsta vetur og bjóða aftur upp á krakkanámskeið (ásamt námskeiðum fyrir byrjendur). Áhugasamir skulu endilega kíkja inn á námskeiðssíðuna í fyrrihluta september í haust til þess að sjá hvenær námskeiðin fara fram.

Þangað til: Horfið til himins og látið hugann reika til stjarnanna!

-Sverrir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband