15.3.2010 | 10:04
Í Höfðaborg í Suður Afríku er Óríon á hvolfi
Þessa dagana er ég, Sævar, staddur á ráðstefnu í Höfðaborg í Suður Afríku um miðlun stjörnufræði. Ráðstefnuna sækja yfir 200 manns frá háskólum og stofnunum um heim allan. Ráðstefnan er haldin í kjölfar alþjóðlegs árs stjörnufræðinnar. Farið er yfir það sem vel tókst, það sem hefði mátt takast betur og það sem bíður okkar á næstu árum. Við slökum sko ekkert á í að miðla vísindunum þótt stjörnufræðiárið sé á enda.
Höfðaborg er mjög skemmtileg og flott borg. Hún er umlukin fallegum fjöllum frá Ordovísíum og Kambríum. Frægast þeirra er sennilega Borðið og svo Ljónshöfuðið og Ljónsrófan (hvort eru ljón með hala eða rófu?). Þetta má sjá á myndunum hér undir sem ég tók einn af fjölmörgum góðum veðurdögum.
Framkvæmdir eru á hverju götuhorni vegna undirbúnings fyrir HM. Hótelið sem ég er á, þar sem ráðstefnan fer fram, er í göngufæri við knattspyrnuvöllinn sem leikið verður á í sumar. Verið er að leggja nýja vegi, útbúa bílastæði og svo framvegis. Hér sést völlurinn á mynd sem tekin er uppi á Ljónsrófunni.
Einn af mörgum hápunktum ferðarinn hingað til var heimsókn í skólann í Lunga. Lunga þýðir sól á tungumálinu Xhosa og er fátæktarhverfi. Sum börnin í skólanum bjuggu hreinlega í kofum. Það var virkilega mikil og jákvæð upplifun að spjalla við krakkana um alheiminn. Hér eru Carolina Ödman (Svíþjóð/Holland) og John Goldsmith (Ástralía) að fræða krakkana um jörðina.
Krakkarnir voru mjög áhugasamir um myndavélar og vildu endilega láta mynda sig með okkur. Hér er ég með nokkrum hressum stelpum úr skólanum.
Megintilgangur ferðarinnar er þó að sjá suðurhiminninn. Hann er nefnilega mjög frábrugðin íslenska stjörnuhimninum. Héðan sjást stjörnumerki sem við getum aldrei séð frá Íslandi, t.d. Suðurkrossinn, Mannfákurinn og fleiri. Héðan sjást líka djúpfyrirbæri sem við sjáum aldrei frá Íslandi svo sem Magellanskýin, Eta Carinae og Centaurus A. Héðan sjást líka fyrirbæri sem við sjáum frá Íslandi en þau líta allt öðruvísi út vegna ólíkrar hnattstöðu. Stjörnumerki eins og Óríon er á hvolfi og Síríus, bjartasta stjarna himinsins sem rétt skríður upp á íslenska himinninn, er í hvirfilpunkti, eins og sjá má á þessari mynd.
Suður Afríka virðist frábært land og allar sögur um að maður sé hreinlega í stórhættu hér á götum úti eru stórlega ýktar. Fólkið er yndislegt, veðrið gott og verðið lágt.
Besta leiðin til að fylgjast með þessu er að skoða Twitter og sérstaklega #CAP2010.
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:08 | Facebook
Athugasemdir
Frábær pistill og rosalegar myndir. Sérstaklega þessi síðasta.
Skemmtu þér vel í ferðinni, hlakka til að lesa meira um ævintýri þín syðra.
Arnar Pálsson, 19.3.2010 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.