21.6.2010 | 09:13
Sumarsólstöður á norðurhveli en vetrarsólstöður á suðurhveli
Í dag klukkan 11:28 að íslenskum tíma nær sólin sinni nyrstu og hæstu stöðu á himninum. Verða þá sumarsólstöður á norðurhveli en vetrarsólstöður á suðurhveli. Stjarnfræðilega hefst sumarið á norðurhveli í dag og að sama skapi veturinn á suðurhveli.
Á norðurhveli er dagur lengstur í dag, en stystur á suðurhveli. Nú byrjar sól að lækka á norðurhimni. Dagarnir styttast og stjörnurnar prýða brátt himinhvelfinguna. Loksins. Ég hlakka til að sjá þær aftur.
Það vita það ekki allir en það er möndulhalli jarðar sem ræður árstíðaskiptum eins og lesa má um hér. Sumar halda að sumri fylgi vetur vegna mismikillar fjarlægðar jarðar frá sólu, en það er alls ekki rétt. Braut jarðar er vissulega sporöskjulaga en frávikið frá hringlögun er sáralítil. Fjarlægðin sveiflast aðeins 2% yfir árið. Jörðin er næst sólinni í kringum 3. janúar (vetur á norðurhveli), en lengst frá henni í kringum 4. júlí (sumar á norðurhveli).
Fjarlægðarbreytingin veldur um 6,9% breytingu á inngeislun sólarorku á jörðinni. Samkvæmt því ættu árstíðabreytingarnar að vera áhrifaríkari á suðurhveli en norðurhveli. Þessi áhrif hverfa algjörlega í skuggann af áhrifum möndulhallans og öðrum áhrifavöldum eins og dreifingu landmassa og úthafa á suðurhveli. Þess vegna er sumarið á suðurhveli ekkert mikið hlýrra en sumarið á norðurhveli.
En hvað um það. Ferðist um landið okkar og njótið ylsins frá sólinni.
Gleðilegt sumar!
---
Sumarsólstöðuganga í kvöld
Ég fékk eftirfarandi tilkynningu um árlega sumarsólstöðugöngu senda frá Þór Jakobssyni, veðurfræðingi:
Hinn árlega sólstöðuganga í Reykjavík verður farin á mánudaginn, 21. júní nk., en þá eru sumarsólstöður, lengsti dagur ársins. Þetta er 26. sólstöðugangan í Reykjavík og nágrenni. Eins og undanfarin ár verður gengin stór hringur um Öskjuhlíð.
Lagt verður lagt af stað kl. 8 um kvöldið frá hitaveitugeymunum undir Perlunni. Farið verður m.a. um skógarstíg vestan í hlíðinni og niður að Fossvogi, síðan inn með voginum og um Fossvogskirkjugarð, og þaðan sem leið liggur stóran sveig upp að Perlunni þar sem göngunni lýkur um kl. 10:30 e.h.
Þetta er því róleg tveggja og hálfs tíma ganga þar sem staldrað verður við öðru hverju og hlýtt á fróðleik um náttúru og sögu Öskjuhlíðar. Sólstöðugangan hefur verið kölluð meðmælaganga með lífinu og menningunni. Undanfarið hafa um 100 manns tekið þátt í göngunni.
Allir eru velkomnir að slást í hópinn, sjálfum sér til hressingar og öðrum til ánægju!
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 28.6.2010 kl. 08:47 | Facebook
Athugasemdir
"Dagarnir styttast og stjörnurnar prýða brátt himinhvelfinguna. Loksins. Ég hlakka til að sjá þær aftur."
Ekki kannski alveg sammála þessu... en skil hvað þú átt við.
Mér finnst íslenska sumarið yndislegt og það fylgir því ákveðin depurð þegar lengsta degi ársins er náð. Þá tekur daginn að stytta á ný.
Gunnar Th. Gunnarsson, 22.6.2010 kl. 05:24
Sammála því. Íslenska sumarið er yndislegt. En ég sakna þess alltaf að sjá ekki stjörnurnar á sumrin.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 22.6.2010 kl. 09:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.