16.7.2010 | 13:35
Fyrstu stjörnurnar farnar að sjást á himninum
Jæja, nú eru fyrstu stjörnurnar farnar að sjást á næturhimninum.
Ég rétt náði að koma auga á tvær stjörnur í kringum miðnætti í Reykjavík (1:30) síðastliðið sunnudagskvöld. Þar voru á ferð Vega (Blástjarnan) í Hörpunni og Altair í Erninum. Þær eru á meðal björtustu stjarna á himninum og eru báðar í Sumarþríhyrningnum svonefnda. Vegna þess hve enn var bjart náði ég ekki að sjá þriðju stjörnuna í Sumarþríhyrningnum sem nefnist Deneb og er í stjörnumerkinu Svaninum.
Annar félagi í Stjörnuskoðunarfélaginu, Hermann Hafsteinsson, sá þriðju stjörnuna þennan sama dag (13. júlí) fyrir þremur árum en hún nefnist Arktúrus í Hjarðmanninum . Það má ímynda sér að hægt sé að sjá stjörnur örfáum dögum fyrr í júlí og verður spennandi að prófa það á næstu árum. Þar sem aðeins voru liðnir 22 dagar frá sumarsólstöðum má gera ráð fyrir að það sé aðeins um mánuður sem engar stjörnur sjást á næturhimninum yfir Reykjavík.
Þetta gefur góð fyrirheit um stjörnuskoðun í vetur og ég get varla beðið eftir því þegar fer að dimma almennilega upp úr miðjum ágúst! Bjartasta stjarnan á kvöldhimninum verður þá reikistjarnan Júpíter (sem sést mjög líklega núna í suðaustri í kringum miðnætti).
-Sverrir
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:30 | Facebook
Athugasemdir
Snilld!
en til að skjóta þessu inn þá hefur mér gengið eitthvað erfiðlega undanfarið að ná í vísindaþáttinn á stjörnuskoðunarsíðunni ykkar, breytingar hjá ykkur eða rugl í mér?
ae (IP-tala skráð) 18.7.2010 kl. 13:47
Ástæðan er breytingar hjá okkur. Færðum vefinn til bráðabirgða yfir á nýjan netþjón en stóðum ekki í því að flytja alla þættina yfir á hann. Nýr Stjörnufræðivefur verður opnaður í haust og þá verða allir gömlu þættirnir aðgengilegir.
Sverrir Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.7.2010 kl. 14:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.