7.9.2010 | 16:35
Leysigeisla skotið að miðju Vetrarbrautarinnar
Sumar myndir eru virkilega tilkomumiklar, eins og þessi hér:
Mynd: ESO/Yuri Beletski
Hér sést leysigeisla skotið upp með einum af Very Large Telescope ESO á Paranal. Í 90 km hæð örvar leysigeislin natríumatóm efst í lofthjúpi jarðar. Þetta natríum er talið leifar loftsteina sem brenna upp í lofthjúpnum. Við örvunina byrja natríumatómin að glóa og mynda lítinn ljósblett. Sjónaukinn getur fylgst með hvernig ljósbletturinn bjagast vegna ókyrrðar í lofthjúpi jarðar.
Speglar sjónaukanna eru örþunnir og á þá eru festir þrýstihreyfiliðir sem geta breitt lögun speglanna í samræmi við bjögunina. Þessi breyting nemur broti úr míkrómetra. Bylgjunemi sendir þessar upplýsingar í öflugar tölvur sem reikna út hversu mikið breyta á lögun spegilsins út frá mældri ókyrrð lofthjúpsins. Ferlið í heild frá því að ljósið berst inn í nemann og þar til lögun speglanna hefur verið breytt má ekki taka lengri tíma en 0,5 til 1 millisekúndu, þar sem lofthjúpurinn er á örri hreyfingu.
Þessi tækni nefnist aðlögunarsjóntækni og er eitt mikilvægasta töfrabragð nútíma stjarnvísinda. Með aðlögunarsjóntækni má draga úr áhrifum lofthjúpsins á gæði athugana. Aðlögunarsjóntæknin er ein mikilvægasta tækniþróunin í stjarnvísindum á síðustu árum og er raunar ómissandi fyrir stærstu sjónauka jarðar.
Án aðlögunarsjóntækninnar væri lítið vit í að reisa risasjónauka. Án hennar sæjum við alheiminn í móðu. Með henni er mynd okkar af alheiminum hnífskörp.
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Hvad? Thetta er ótrúlegt. Hvernig er thetta haegt? Ég meina...sko...úr hvada efni eru thessir speglar gerdir? Hvernig getur lögun theirra adlagast breytingunum á svo örskömmum tíma? Af hverju lidast speglarnir ekki í sundur vegna efnisthreytu?
Thetta hlýtur ad vera blöff! (IP-tala skráð) 8.9.2010 kl. 21:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.