13.9.2010 | 10:58
Stór dagur hjá okkur
Í dag er stór dagur hjá okkur. Við höfum opnað nýjan og glæsilegan Stjörnufræðivef og um leið hafið eitt stærsta átak sem miðar að eflingu raunvísindakennslu á Íslandi.
Hugsmiðjan útbjó nýja vefinn okkar og eiga þau hrós skilið fyrir algjörlega frábært starf. Við sáum fyrstu drög af vefnum í maí og satt að segja fór brosið varla af okkur næstu daga á eftir. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við Hugsmiðjuna. Í dag opnaði svo Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra vefinn við athöfn í Setbergsskóla í Hafnarfirði.
Nýja vefnum fylgja þó nokkrar nýjungar. Fyrir utan nýtt útlit eru fjölmargar nýjar greinar á vefnum, t.d. um stjörnur, vetrarbrautir og heimsfræði. Næstu vikur bætast svo enn fleiri greinar í sarpinn enda ætlunin að gera vefinn að öflugum þekkingarbrunni sem allir, ekki síst nemendur og kennarar, geta sótt í. Allar greinar eru settar upp á svipaðan hátt og gert er á Wikipedia. Sumar greinar, eins og til að mynda sú sem fjallar um jörðina, eru mjög yfirgripsmiklar.
Í hverri viku birtist ný frétt um niðurstöður rannsókna í stjarnvísindum. Við fáum fréttir frá ESO og Hubble fyrirfam og getum birt þær á sama tíma á íslensku og þær birtast erlendis. Hægt er að skrifa ummæli við fréttir í gegnum Facebook athugasemdakerfi.
Ýmsar nýjungar eru líka í þeim hluta vefsins sem snýr að stjörnuskoðun. Þar finna byrjendur og lengra komnir ýmislegt við sitt hæfi, svo sem stjörnukort, upplýsingar um búnað, stjörnumerki og margt fleira.
Við erum hvergi nærri hættir að þróa vefinn. Næsta verkefni sem bíður okkar er líka stórt. Nánar um það síðar í vetur.
Sjónauki í alla skóla landsins
Aðalatriðið er þó að sjálfsögðu það átak sem við hófum í Setbergsskóla í dag. Í fyrra, á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar, pöntuðum við 300 stjörnusjónauka með aðstoð góðra aðila sem við ætlum að gefa öllum grunn- og framhaldsskólum á Íslandi. Tilgangurinn er að efla áhuga íslenskra nemenda á raunvísindum og gera þeim kleift að sjá undur alheimsins með eigin augum, líkt og segir í fréttatilkynningu sem við sendum fjölmiðlum af þessu tilefni. Katrín afhenti fyrsta sjónaukann á sama tíma og vefurinn var opnaður.
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:21 | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með nýja vefinn. Flott útlit :)
Reyndar smá böggur, að ef maður fer beint inn á www.stjornuskodun.is (þ.e. rótina eða forsíðuna), þá kemur upp rammi sem stendur m.a.:
Það er þó ekkert mál að lesa fréttina og sjá útlitið.
Sveinn Atli Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 11:26
Til hamingju með flottan vef! Má ég koma með tillögu um að gera sérstaklega ráð fyrir yngstu börnunum og bæta við efni sem er sérstaklega ætlað börnum frá 5-6 ára?
Halla Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 11:42
Til hamingju með nýja vefin.
Arnar, 13.9.2010 kl. 12:06
Takk kærlega fyrir öllsömul.
Svatli: Við sáum þetta. Held að búið sé að lægfæra það.
Halla: Takk fyrir það. Það er á stefnuskránni hjá okkur að krakkavef.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 13.9.2010 kl. 13:32
Frábært framtak og einstaklega flottur og vel hugsaður vefur. Til hamingju með hann.
Mig langar til að leggja ykkur til tuttugu "heimskulegar" byrjendaspurningar um stjörnufræði sem fólk þorir almennt ekki að spyrja um af ótta við niðurlægingu. Má ég það?
Allt eru þetta spurningar sem ég hef sjálfur sárt saknað að fá ekki svör við og hef kannski verið of hræddur við að spyrja ...
Fyrsta spurningin kom reyndar um daginn: Eru allar stjörnur (sólir) sem við sjáum með berum augum innan okkar eigin Vetrarbrautar?
Nr. 2 yrði: Eru þá engar stjörnur annars staðar en í Vetrarbrautum, er t.d. engin stjarna bara ein og sér úti í geimi á milli Vetrarbrauta?
Nr. 3 yrði: Getum við ekki séð neina aðra Vetrarbraut með berum augum en okkar eigin?
Væri ekki gaman að hafa á vefnum ykkar dálítinn svona database með svörum við "virkilega heimskulegum" grunnspurningum fyrir þá sem hafa enga grunnþekkingu?
Hólímólí (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 18:38
Er það rétt að allir stjörnusjónaukarnir sem voru gefnir hafi verið merktir Alco fjarðarál??
albert (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 22:14
það er greinilegt að fólk hefur ekkert lært af hruninu.
Er boðlegt að félag eins og stjörnuskoðunarfélag sé notað eins og almanatengsla fyrirtæki fyrir stórfyrirtæki sem hafa ömurlegt orðspor í umgengni við jörðina? Einnig mestu náttúruspjöll íslandssögunar.
Er boðlegt að beinar auglýsingar stórfyrirtækja komi inní grunnskóla íslands með aðstoð áhugamannasamtaka. Er þetta sem á að innræta íslenskum grunnskólabörnum, hversu gott þetta fyrirtæki er?
Þetta er ömurlegur viðbjóður heilalausra stjórnenda þessara félagasamtaka.
albert (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 22:32
Kynntu þér málin vinur áður en þú tjáir þig um þau. Nenni ekki að svara svona rugli.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 13.9.2010 kl. 23:22
þetta er alveg geðveikur vefur!innilega til hamingju með þetta.
Svo getur maður núna loksins farið að heyra vísindaþáttinn aftur þar sem ég missi allta af honum í útvarpinu
Jónatan Gíslason, 14.9.2010 kl. 02:46
Stjörnuskoðurnavefur, ég sá ekki betur en þetta væri allt meira og minna merkt Alcoa fjarðarál og þið takið það fram á heimasíðunni ykkar að þeir hafi styrkt þetta.
Er það þá rugl????????????
Af hverju getur þú ekki bara rökstutt, með hvaða heimild þið komið með svona auglýsingar inní grunnskóla landsins.
Er það í kennsluskrám að kenna stjörnufræði?? Ef það er hlutverk skóla að kenna stjörnufræði sem er áhuga máli þitt, þá er það hlutverk ríkisins að útvega kennslugögn en ekki hlutverk stórfyrirtækja
Það er ekki nóg að heimta að þingmenn séu dæmdir og dregnir fyrir dóm þegar allt kerfið og háskólasamfélagið kemur með svona auglýsingar inní skólanna.
albert (IP-tala skráð) 14.9.2010 kl. 08:44
Albert: Ég man veit ekki til þess að Alcoa hafi valdið umhverfisspjöllum á Íslandi. Voru það ekki annars ríkið og Landsvirkjun sem reistu Kárahnjúkastíflu?
Ég stakk upp á því að þú myndir nú kynna þér hlutina áður en þú setur þessa þvælu fram. Fyrst þú getur það ekki ætla ég að gera tilraun til að útskýra þetta fyrir þér.
Alcoa er eins og mörg önnur fyrirtæki með samfélagssjóð sem þú og allir aðrir geta sótt um styrk í. Í fyrra fengu t.d. björgunarsveitir styrk (þér finnst það væntanlega skandall!!!). Við ákváðum svo upp á okkar einsdæmi að þakka fyrir stuðninginn með því að prenta út límmiða fyrir þau fyrirtæki sem veittu okkur hæstu styrkina. Það voru CCP og Alcoa. Varla gerum við upp á milli þeirra, er það nokkuð, bara út af einhverri persónulegri óvild í garð fyrirtækisins? Skólum er svo í sjálfsvald sett hvort þeir lími miðana á sjónaukana.
Já, ef þú hefðir nennt að kynna þér hlutina, þá hefðirðu ekki spurt þessarar spurningar. Já, stjörnufræði er í námskrám grunn- og framhaldsskóla. Námsgagnastofnun útvegar kennslugögn en það er ekkert sem bannar okkur að gefa skólum stjörnusjónauka sem hægt er að nota til að auka gildi kennslunnar. Það er Stjarnvísindafélag Íslands, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og landsnefnd um ár stjörnufræðinnar sem gefa sjónaukana, ekki Alcoa eða CCP þótt þeir tækju þátt í að styðja verkefnið. Menntamálaráðuneytið styrkti okkur einnig vel.
Ég sem forsvarsmaður þessa verkefnis frábið mér svona þvælu. Persónulega var ég mjög andvígur Kárahnjúkavirkjun en ég hef ekkert á móti Alcoa Fjarðaál. Það er örugglega ágætis fyrirtæki hér á landi þótt eflaust megi finna margt slæmt um móðurfyrirtækið erlendis. Gildir það ekki um mörg önnur fyrirtæki líka? Þá finnst mér bara gott að þessi sömu fyrirtæki leggi eitthvað til samfélagsins í staðinn.
Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 14.9.2010 kl. 09:13
Takk Jónatan! Vísindaþátturinn hefst aftur í dag klukkan 17
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 14.9.2010 kl. 09:13
Til hamingju með nýja vefinn, hann er sérlega glæsilegur.
Arnar Pálsson, 14.9.2010 kl. 17:32
Sé að albert kýs frekar það versta en næst besta að íslenskum sið.
Held að íslenska ríkið sé ekkert að fara að spendera í skólakerfið núna frekar en síðustu ár og áratugi. Ef valið stendur á milli stjörnusjónauka eða ekki stjörnusjónauka er mér nokkuð sama hvað stendur utan á honum meðan börnin mín fá tækifæri til að horfa til himins og vonandi fræðast eitthvað í leiðinni.
Verst að það er sjaldnast 'stjörnubjart' á skólatíma :)
Arnar, 15.9.2010 kl. 09:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.