Vísindavaka, tignarleg vetrarbraut og annað stjörnuskoðunarblogg

Stjörnuskoðunarfélagið tekur þátt í Vísindavöku Rannís föstudagskvöldið 24. september næstkomandi. Á Vísindavöku gefst öllum kostur á að kynna sér viðfangsefni íslenskra vísindamanna á lifandi og skemmtilegan hátt. 

Í ár ætlum við að leyfa gestum og gangandi að handleika elsta berg sem til er á jörðinni; 4.500 milljón ára loftsteina sem hafa fallið til jarðar. Við ætlum að stilla Galíleósjónaukanum upp, gefa myndir af undrum alheimsins og margt margt fleira skemmtilegt. 

Aðalheiður Jónsdóttir hjá Rannís var gestur okkar í Vísindaþættinum í gær. Við ræddum meðal annars um Vísindavökuna við hana og er spjallið nú aðgengilegt á vefnum okkar.

===

Bloggið okkar er ekki hið eina hér á landi sem fjallar um stjörnuskoðun. Á Þingeyri býr vinur okkar Jón Sigurðsson og heldur hann úti fínu bloggi um stjörnuskoðun. Okkur finnst einmitt sérstaklega skemmtilegt að lesa um það sem annað áhugafólk er að gera í áhugamálinu og Jón stendur sig ákaflega vel í því. Hann hefur smíðað sér stjörnuturn og er að gera tilraunir í stjörnuljósmyndun.

Bloggið hans er hér.

===

ESO birti í dag innrauða ljósmynd af einstaklega tignarlegri vetrarbraut sem heitir NGC 1365. Myndin var tekin með Very Large Telescope í Chile. NGC 1365 er sérstaklega formfögur bjálkaþyrilvetrarbraut í 60 milljón ljósára fjarlægð. Hún er hluti af vetrarbrautaþyrpingu sem kennd er við stjörnumerkið Ofninn.

Það sem mér finnst svo magnað við þessa mynd er að ekki sést ein einasta stök stjarna í vetrarbrautinni. Allir ljósu kekkirnir eru þyrpingar stjarna sem innihalda hundruð, ef ekki þúsundir stjarna.

Meira um það á vef ESO... á íslensku!

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

60 milljón ljósára fjarðlægð! Hvað getur maður sagt annað en VÁ!

En skyldi ekki vera líf þarna?

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 22.9.2010 kl. 17:28

2 Smámynd: Lárus Baldursson

Leit upp til himins fyrr í kvöld með sjónauka 32x50mm og field 3,6-1,7 gráður, sá reikistjörnu og fjögur tungl fyrir neðan tunglið okkar?

Lárus Baldursson, 22.9.2010 kl. 22:29

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Arinbjörn: Það bara hlýtur að vera.

Lárus: Júpíter fyrir neðan tunglið núna og tunglin fjögur eru Galíleótunglin Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó. Rétt fyrir ofan Júpíter ættirðu að sjá aðra stjörnu sem er reikistjarnan Úranus.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 22.9.2010 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband