4.10.2010 | 17:00
Halastjarna og fyrirlestur um kortlagningu Vetrarbrautarinnar
Á himninum nú um stundir og næstu daga er halastjarnan Hartley 2. Halastjarnan er ansi dauf og því erfitt að sjá en það er nú samt hægt með hjálp stjörnukorts og dimms næturhimins. Kjarni halastjörnunnar er lítil, aðeins rúmur km í þvermál en haddurinn eða hjúpurinn er 150.000 km í þvermál, álíka stór og Júpíter. Halastjarnan verður næst jörðu 20. október, þá björtust og sennilega mest áberandi.
Við settum upp frétt um halastjörnuna á vefinn okkar. Þar er einnig kort sem hægt er að notfæra sér til að finna hana. Fréttin er hér.
Við fórum tveir saman í Kaldársel í Hafnarfirði í gær til að berja halastjörnuna augum. Við sáum hana útundan okkur með berum augum og leit út eins og óljós þokublettur. Hún lítur ágætlega út í stjörnusjónauka og handsjónauka. Sökum þess hve hún er dauf er nauðsynlegt að nota kort til að finna hana. Á henni er enginn eiginlegur hali sjáanlegur svo hún lítur ekki beinlínis út eins og tignarleg halastjarna. Það er samt alltaf gaman að sjá þessi fyrirbæri.
Íslenskir stjörnuáhugamenn eru þegar farnir að gera tilraunir til að taka mynd af halastjörnunni.
Snemma í nóvember fær halastjarnan heimsókn frá Deep Impact geimfarinu.
====
Þriðjudagskvöldið 5. október (annað kvöld) klukkan 20:00 fer fram fyrirlestur Guðlaugs Jóhannessonar um Fermi gervitunglið og kortlagningu á Vetrarbrautinni okkar. Guðlaugur er nýkominn til landsins aftur eftir nokkurra ára dvöl í Stanford í Bandaríkjunum. Um er að ræða samvinnuverkefni milli Háskóla Íslands, Stanford háskóla og NASA sem greiðir fyrir rannsóknirnar. Sjá nánar fréttatilkynningu frá okkur.
Það er mikil lyftistöng fyrir rannsóknir í stjarnvísindum á Íslandi að fá þetta verkefni hingað til lands.
Fyrirlestur Guðlaugs fer fram í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Þess má svo geta að Guðlaugur verður gestur í Vísindaþættinum á morgun milli 17:10 og 18:00.
Við verðum með Galíleósjónaukana á staðnum hafi einhver áhuga á!
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:01 | Facebook
Athugasemdir
Sæll.
Þegar þú skrifar "Við sáum hana útundan okkur með berum augum..." áttu þá við að stundum sjái maður hana ekki þegar horft er beint á hana, heldur aðeins til hliðar?
Mér fannst í fyrrakvöld að hún væri nánast að detta inn og út úr sjónsviðinu. Þóttist sjá hana stundum með berum augum og stundum ekki.
Ágúst H Bjarnason, 5.10.2010 kl. 06:47
Sæll
Já, ég á við að við sáum hana með berum augum með hliðraðri sjón. Mér fannst hún, eins og þú segir, hverfa og birtast í sjónsviðinu. Sá hana að minnsta kosti greinilega með því að horfa aðeins til hliðar.
- Sævar
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 5.10.2010 kl. 08:09
Það var sannur heiður að fá að sitja og hlýða á þennan snilldar fyrirlestur við hliðina á Hrotubrjótnum :) mjög skemmtilegt og væri alveg til í meira svona!
Jónatan Gíslason, 5.10.2010 kl. 21:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.