Tvær stórmerkar fréttir

Vetrarbrautir eru risavaxin söfn stjarna og sólkerfa og stundum gass og ryks á víð og dreif um alheiminn. Það hefur löngum verið stjörnufræðingum mikil ráðgáta hvenær þessar stærstu byggingareiningar alheimsins mynduðust fyrst eftir Miklahvell og hvernig þær síðan uxu og þróuðust.

Nú hafa stjörnufræðingar komist skrefi nær því að leysa þessar ráðgátur.

Í dag birtist merkileg frétt frá ESO um fjarlægustu vetrarbraut sem sést hefur í alheiminum hingað til. Ljósið frá henni lagði af stað fyrir rúmlega 13 milljörðum ára, nánar tiltekið aðeins rétt um 600 milljón árum eftir Miklahvell. Þótt það sé vissulega áhugavert að finna fjarlægasta fyrirbærið eru þær ályktanir sem draga má af uppgötvuninni þó sínu merkilegri. Uppgötvunin sýnir að stjörnur og vetrarbrautir mynduðust tiltölulega stuttu eftir Miklahvell þegar alheimurinn var enn á barnsaldri.

eso1041b.jpg

Á þessari mynd sést vetrarbrautin UDFy-38135539, fjarlægasta vetrarbraut sem sést hefur í alheiminum hingað til. Vetrarbrautin sást fyrst á innrauðri ljósmynd sem Hubble geimsjónaukinn tók árið 2009. Gríðarlega erfitt er að mæla fjarlægðina til svo daufrar ljósuppsprettu en það tókst evrópskum stjörnufræðingum engu að síður með hjálp Very Large Telescope. Litróf ljóssins frá vetrarbrautinni var grannskoðað og út frá litrófslínum í því var hægt að reikna út fjarlægðina: Næstum 13,2 milljarðar ljósára! Það þýðir að ljósið frá þessari vetrarbraut lagði af stað þegar alheimurinn var aðeins um 600 milljón ára gamall. Þegar ljósið lagði af stað voru enn næstum 8.000.000.000 ár þangað til jörðin byrjaði að myndast. Mynd: NASA, ESA, G. Illingworth (UCO/Lick Observatory og University of California, Santa Cruz) og HUDF09 hópurinn.

Segja má að þessi fyrirbæri hafi myndast þegar fósturfitan var enn á alheiminum því vetrarbrautirnar á þessum tíma voru umluktar vetnisgasi sem gerði alheiminn að mestu ógegnsæjan. Ungu og heitu stjörnurnar í vetrarbrautunum sviptu svo smám saman hulunni af alheiminum með ljósi sínu – þær brutust út úr þokunni.

Í árdaga var alheimurinn minni en í dag enda hefur hann þanist út síðan þá. Gasið sem umlék vetrarbrautirnar í árdaga alheims var því þéttara en í dag og virðist hafa leikið lykilhlutverk í vexti vetrarbrautanna, ef marka má niðurstöður nýlegra rannsókna og greint var frá í síðustu viku. Evrópskir vísindamenn hafa nefnilega komist að því að ungar vetrarbrautir gátu vaxið með því að soga til sín vetnisgasið sem umlék þær og notað það sem eldsneyti í myndun nýrra stjarna. Þessar vetrarbrautir sjást um það bil tveimur milljörðum ára eftir Miklahvell.

Gaman er að segja frá því að báðar þessar uppgötvanir voru gerðar með Very Large Telescope og litrófsritanum SINFONI sem er eitt helsta mælitæki sjónaukans. VLT eru fjórir risaspegilsjónaukar, staðsettir við bestu mögulegu aðstæður í Atacamaeyðimörkinni í Chile, starfræktir af European Southern Observatory (ESO) sem er stærsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Íslenskir stjarneðlisfræðingar hafa notið góðs af sjónaukum ESO þrátt fyrir að vera ekki formlegur þátttakandi í samstarfinu. Í fyrra notaði t.a.m. Páll Jakobsson, stjarneðlisfræðingur við Háskóla Íslands, Very Large Telescope til að greina daufar glæður fjarlægasta gammablossa sem sést hefur í alheiminum hinga til. Sá blossi var allt þar til nú, fjarlægasta fyrirbæri sem sést hafði í alheiminum.

Allar þessar rannsóknir eru liður í því að skilja hvernig í ósköpunum alheimurinn ól okkur af sér. Mér finnst það ótrúlega spennandi viðfangsefni. Ég get ekki beðið eftir því að vísindamenn haldi áfram að svipta hulunni af alheiminum. Hvað stórfenglegu uppgötvanir leynast handan við hornið?

Sjá nánar:

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þettað er magnað. Svo nærri, en ...

Er hægt að segja að vísindamenn hafi náð utanum verkefnið? Eða að þeir séu með þetta í hendi sér?

Athyglisvert. Er kannski hægt að fara enn aftar? Kannski að upphafinu?

Stefán Ásgeir Guðmundsson (IP-tala skráð) 20.10.2010 kl. 17:54

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Það er bara tímaspursmál hvenær fjarlægara fyrirbæri finnst. Eins og nefnt er í fréttinni verða svona uppgötvanir næsta daglegt brauð þegar European Extremely Large Telescope verður tekinn í notkun. Það er hægt að fara mun aftar. En það sem er einna merkilegast við þetta er tæknilega afrekið. Það er gríðarlega erfitt að finna og mæla nákvæmlega svona fjarlægt fyrirbæri.

Vísindamenn eru á réttri leið, en það er alveg heill hellingur eftir.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 20.10.2010 kl. 19:38

3 identicon

Eins gott ad frétta af thessu strax.  Nú er um ad gera ad haetta ad borda thá tegund af hnetusmjöri sem ég er búinn ad borda í 23 ár og skipta yfir í Skippy hnetusmjör.  Verst ad ég átti hálfa krukku eftir af thví gamla sem nú endar í ruslinu.  En svona er thetta...thegar stjörnurnar krefjast thess verdur madur ad hlusta!

Naes fréttir (IP-tala skráð) 20.10.2010 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband