1.11.2010 | 13:13
Deep Impact nálgast halastjörnuna Hartley 2
Á fimmtudaginn flýgur Deep Impact geimfarið framhjá halastjörnunni Hartley 2 úr aðeins 700 km hæð. Er þetta fimmta halastjarnan sem við sjáum í návígi en jafnframt sú minnsta.
Árið 2005 heimsótti Deep Impact halastjörnuna Tempel 1. Í júlí það ár losnaði lítið koparskeyti frá geimfarinu og rakst á halastjörnuna. Við það myndaðist gígur á yfirborðinu og talsvert magn íss og ryks þeyttist út í geiminn. Útsýnið var vægast sagt stórfenglegt:
Árekstur! Deep Impact ljósmyndar árekstur koparskeytis við halastjörnuna Tempel 1 þann 4. júlí 2005.
En núna verður enginn árekstur. Eftir frægðarförina til Tempel 1 var geimfarið, sem er á stærð við lítinn fólksbíl, enn við hestaheilsu og nóg eftir af eldsneyti. Því ákvað NASA að endurnýta geimfarið og setja stefnuna á aðra halastjörnu. Því miður var ekki fýsilegt fyrir Deep Impact að heimsækja Tempel 1 aftur. Það fellur aftur á móti í skaut Stardust geimfarsins að skoða ummerki árekstursins þann 14. janúar á næst ári.
Halastjarnan sem Deep Impact flýgur nú framhjá er sú sama og prýtt hefur kvöldhiminninn síðustu vikur, íslensku stjörnuáhugafólk til mikillar ánægju. Sú halastjarna heitir Hartley 2 og sést sem grænn hnoðri á myndinni hér undir sem Jón Örn Sigurðsson tók nýverið.
Halastjarnan var næst jörðinni 20. október síðastliðinn, þá í aðeins 17,7 milljón km fjarlægð. Nokkrum dögum síðar nýttu stjörnufræðingar við útvarpssjónaukann í Arecibo tækifærið og tóku ratsjármyndir af kjarna halastjörnunnar. Á myndunum sést að kjarni halastjörnunnar er ílangur, um 2 km langur.
Hvernig ætli yfirborð hennar sé? Við eigum von á miklu betri myndum á fimmtudaginn frá Deep Impact sem sýna okkur það vonandi.
Sjá nánar
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.