11.11.2010 | 12:58
FRESTAÐ - Krakkanámskeið í stjörnufræði á Akureyri
VIÐ HÖFUM ÁKVEÐIÐ AÐ FRESTA NÁMSKEIÐINU FRAM YFIR ÁRAMÓT.
Laugardaginn 13. nóvember næstkomandi standa Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn fyrir krakkanámskeiði í stjörnufræði og stjörnuskoðun. Námskeiðið hefst klukkan 11:30 og stendur til 13:50.
Fyrri hluti námskeiðsins snýst um mannaðar og ómannaðar geimferðir. Þar verður meðal annars velt upp spurningum á borð við: Hafa menn í alvöru stigið fæti á tunglið? Hvernig fara geimfarar á klósettið? Sofa geimfarar í rúmi og hvað borða þeir í geimnum? Hversu langt út í geiminn hefur maðurinn farið? Hvaða geimskip hefur farið lengst út í geiminn og hvað fór það langt? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem ætlunin er að svara á námskeiðinu.
Seinni hluti námskeiðsins snýst aftur á móti um undur alheimsins. Þar er t.d. ætlunin að skoða hvernig stjörnur springa og hvað gerist ef ólánsamur geimfari dytti ofan í svarthol.
Verði heiðskírt um kvöldið bjóðum við öllum þátttakendum og raunar öllum Norðlendingum að skoða stjörnurnar með okkur.
Hvetjum sem flesta til að láta sjá sig!
Hér eru nánari upplýsingar og skráning í námskeiðið.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 12.11.2010 kl. 11:37 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er bæði góð og þörf hugmynd ! Gaman væri, ef unglingar ættu líka kost á svona námskeiði ? Kannski seinna, vona ég.
Með góðri kveðju, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 12.11.2010 kl. 11:49
Sæll Kristján.
Unglingarnir (frá 12-14 ára og upp úr) hafa komið á byrjendanámskeiðin hjá okkur. Við verðum með svoleiðis námskeið líka einhvern tíma eftir jól.
Kv. Sverrir
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 12.11.2010 kl. 15:26
Ágæti Sverrir,
ég þakka þér fyrir svarið ! Það er reyndar kórrétt stefna hjá Stjörnufræðivefnun að setja börnin í forgang, "því að lengi býr að fyrstu gerð" eða þannig ? Ég hefi eigin reynslu af því ! Faðir minn heitinn var mikill stjörufíkill. Hann og okkar næsti nágranni, sem var háskólakennari, söfnuðu okkur krökkunum stundum útí garð, er skilyrði voru hagstæð til stjörnuskoðunar, og þeir fræddu okkur um dásemdir himinhvolfsins og veltu vöngum um stöðu mála á himninum þess á milli !
Manni fannst maður vera þátttakandi í miklu ævintýri og sú minning fylgir manni alla ævi.
Með góðri kveðju, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 13.11.2010 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.