15.11.2010 | 12:11
Ræman
Þessi magnaða mynd var tekin með Hubble geimsjónaukanum. Hér sérðu hundruð milljarða stjarna frá óvenjulegu sjónarhorni. Þetta er vetrarbrautin NGC 4452 sem liggur nánast fullkomlega á rönd frá okkur séð. Í miðri skífunni glittir í bjartan kjarna vetrarbrautarinnar en umhverfis ræmuna svífa fleiri milljarðar stjarna og mynda hjúp. En ekki er allt sem sýnist. Þarna er líka hellingur af hulduefni sem heldur vetrarbrautinni saman, þótt við sjáum það ekki beint.
Vetrarbrautir koma í ýmsum stærðum og gerðum. Þær eru yfirleitt aldrei stakar í geimnum heldur mynda þær hópa og þyrpingar. Þessi tiltekna vetrarbraut tilheyrir þyrpingu tæplega 2000 vetrarbrauta sem kennd er við stjörnumerkið Meyjuna. Fjarlægðamælingar á sefítum benda til þess að Meyjarþyrpingin sé í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Grenndarhópurinn sem Vetrarbrautin okkar tilheyrir er við ytri mörk Meyjarþyrpingarinnar og mun dag einn, eftir einhverja milljarða ára, sameinast henni.
Vetrarbrautir innihalda marga milljarða stjarna, sumar trilljónir. Árið 1923 sannaði Edwin Hubble að til voru aðrar vetrarbrautir handan okkar eigin Vetrarbrautar þegar hann mældi vegalengdirnar til þeirra. Sú uppgötvun gjörbreytti sýn okkar á alheiminn. Hann varð skyndilega stærri en nokkurn óraði fyrir. Geimsjónaukinn frægi var síðan nefndur eftir honum.
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:12 | Facebook
Athugasemdir
AE hvad mig langar í pönnukuku núna.
Jóhannes í Félagsbakaríinu (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 23:05
Alveg hreint magnað
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.11.2010 kl. 09:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.