26.11.2010 | 12:17
Pistlar á Rás 1, sefítar, rauði bletturinn og jólagjafir
Hanna G. Sigurðardóttir, útvarpskona á Rás 1, var svo indæl að bjóða mér að flytja pistla aðra hverja viku í þættinum sínum Vítt og breitt. Pistlarnir eru teknir upp og leiknir á miðvikudagsmorgnum.
Í pistlunum hef ég fjallað um ýmislegt, allt frá vetrarbrautum til halastjarna. Í pistli síðasta miðvikudags sagði ég frá fullu tungli og því helsta sem fyrir augum ber á kvöldhimninum þessa dagana. Ég er enn að læra að flytja svona pistla, það er hægara sagt en gert að gera það vel en vonandi skánar maður með tímanum. Hægt er að hlusta á seinasta pistil hér http://dagskra.ruv.is/ras1/4552174/2010/11/24/
---
Á miðvikudaginn birtist ný frétt frá ESO þar sem skýrt er frá niðurstöðum mælinga stjarnvísindamanna á óvenjulegu tvístirnakerfi. Í þessu tvístirnakerfi er sefíti, sem er mikilvæg tegund sveiflustjörnu, og önnur minni stjarna sem ganga fyrir hvor aðra á víxl. Er þar því um að ræða myrkvatvístirni og þau eru harla sjaldgæf enn sjaldgæfara er að þau innihaldi sefíta.
Þetta myrkvatvístirnakerfi gerði vísindamönnum kleift að mæla massa sefítsins með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr. Mikilvægt er að massi sefíta sé þekktur eins nákvæmlega og unnt er því þessar stjörnur eru notaðar til að mæla vegalengdir í geimnum. Edwin Hubble notaði einmitt sefíta til að bylta heimsmynd okkar því þegar hann fann slíkar stjörnur í Andrómeduvetrarbrautinni tókst honum að mæla vegalengdina til hennar. Þá fyrst áttuðu menn sig á því að alheimurinn var miklu stærri en þá óraði fyrir og innihélt milljarða vetrarbrauta.
Hægt er að lesa sig betur til hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1046/
---
Í gær birtum við alveg hreint stórkostlegar myndir sem Björn Jónsson, stjörnuáhugamaður og geimlistamaður, útbjó af Stóra rauða blettinum á Júpíter. Björn tók gömul gögn frá Voyager 2. og vann upp á nýtt. Blanda af nútíma tölvutækni og hugbúnaði auk slatta af hæfileikum gerir áhugamönnum eins og Birni færi á að útbúa þessi listaverk.
Þetta eru bestu myndir sem gerðar hafa verið af rauða blettinum á Júpíter. Sjón er sögu ríkari. Myndirnar má nálgast hér http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/300
---
Við höfum tekið saman lista yfir góða stjörnusjónauka og góðar bækur sem eru tilvaldar jólagjafir. Þetta eru allt hlutir sem við mælum óhikað með.
Listann má nálgast hér http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/301
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.