1.12.2010 | 20:00
Hvað ætlar NASA að tilkynna?
Fyrir tveimur dögum barst mér þessi tilkynning frá NASA. Hún vakti að sjálfsögðu forvitni mína, enda orðuð þannig að um sé að ræða nokkuð merkilega uppgötvun í stjörnulíffræði (íslenska orðið yfir astrobiology) sem á eftir að hafa áhrif á leit að vísbendingum um líf utan jarðar. Sama dag verður rannsóknin birt í tímaritinu Science. Nú þegar hafa að minnsta kosti tveir íslenskir vefmiðlar birt frétt þar sem sagt er frá fundinum og kynnt undir vangaveltur sem eiga kannski ekki alveg við rök að styðjast.
Ég hef ekki hugmynd um hverju skýrt verður frá á morgun klukkan 19 að íslenskum tíma. Miðað við þá vísindamenn sem taka þátt í fundinum býst ég við því að það hafi eitthvað að gera með lífvænlegar aðstæður á hnetti í sólkerfinu okkar og lífræn efnasambönd. Ég ætla þess vegna að skjóta á að fundist hafi merkileg lífræn efnasambönd í lofthjúpi Títans, fylgitungli Satúrnusar, án þess að ég hafi nokkuð sérstakt fyrir mér í því. Kannski hefur þetta eitthvað að gera með hlutverk arseniks og/eða fosfórs í lífi utan jarðar.
Eitt þykir mér nokkuð ljóst og það er að ekki verður tilkynnt um að líf hafi uppgötvast utan jarðar. Það má einfaldlega lesa út úr tilkynningunni. Því miður hafa margir túlkað tilkynninguna sem svo að greint verðir frá sönnunargögnum um líf utan jarðar. En vonandi hef ég rangt fyrir mér!
Ég er hræddur um að með þessari tilkynningu hafi blaðafulltrúar NASA skapað óþarfa spennu og vangaveltur meðal almennings. Ekki misskilja mig, ég efast ekki um að fréttin verður vísindalega mjög merkileg, en ég er hræddur um að fréttin valdi fólki, sem á von á einhverju stórkostlegu eins og sönnunum fyrir lífi í alheimi, dálitlum vonbrigðum.
Hvað svo sem verður ætla ég að fylgjast vel með fundinum á morgun, en leyfi mér að efast um að eitthvað stórbrotið líti dagsins ljós, því stórbrotnar staðhæfingar krefjast stórbrotinna sönnunargagna eins og Carl Sagan orðaði það.
Uppfært 2. desember kl. 11:30
Samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum hefur þessi tilkynning með hlutverk arseniks í lífi að gera. Það ku vera býsna spennandi því það snertir uppruna lífs á jörðinni og annars staðar í alheiminum. Þetta hefur þá þýðingu að líf gæti verið miklu algengara en okkur hafði áður órað fyrir. Líf eins og við þekkjum það endurskilgreint!
===
Í dag greindi ESO frá merkilegri uppgötvun. Í fyrsta sinn hafa vísindamenn skyggnst inn í lofthjúp risajarðar. Sjá nánar hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1047/
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 2.12.2010 kl. 11:37 | Facebook
Athugasemdir
"stjörnulíffræði" ? Fyrsta skipti sem ég sé thetta ord. Er ekki eitthvad til sem er stjörnufraedi? Jú jú...stjörnur verda til og stjörnur eydast....en er haegt ad tala um líf? Ekki eru stjörnur hluti af líffraedi? Útskýringar óskast.
Námfús (IP-tala skráð) 1.12.2010 kl. 20:41
Þú ert stjörnuryk, þ.e.a.s. úr efnum sem urðu til í Miklahvelli og inni í stjörnum. Stjörnulíffræði snýst um spurningarnar hvernig líf varð til, hvernig lífræn efnasambönd myndast í alheiminum, hvernig sólkerfi og lífvænlegar reikistjörnur verða til og hversu margar þær eru. Leit að lífi í geimnum fellur innan stjörnulíffræðinnar.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 1.12.2010 kl. 22:06
"The Rise and Fall of Ziggy Stardust and the Spiders from Mars"
Jú...satt er nú thad. Thetta er nokkud nákvaem thýding á enska ordinu.
Er thad venja NASA ad gera fólk spennt? NASA naer athygli fólks óneitanlega med svona tilkynningum.
Vid skulum bara vona ad ekki sé stór loftsteinn á beinni og óframhjákomanlegri leid beint til jardar....HA?
Námfús (IP-tala skráð) 1.12.2010 kl. 23:19
Ef við erum bjartsýn þá gæti verið að tilkynna um ummerki að einfalt líf hafi þrifist á Mars. En líklega átt þú kollgátuna að þessu fundur hafi með að gera Títan og lífræn efnasambönd.
Axel Þór Kolbeinsson, 2.12.2010 kl. 09:23
Ýmislegt fleirra sem hefur verið að gerast síðustu dagana sem gæti tengst þessu:
Thin Air: Oxygen Atmosphere Found on Saturn's Moon Rhea
Cassini Finds Warm Cracks on Saturn's Moon Enceladus
Eða kannski eru þeir bara að fara að tilkynna væntanlega yfirtöku jarðarinnar af reptilian overlords sem koma svífandi á Niribu 12. des 2012
Arnar, 2.12.2010 kl. 10:28
Rumour has it að þessar arsenik lífverur sé að finna í Lake Mono í BNA.
redford (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 11:44
http://www.timesonline.co.uk/tol/news/science/eureka/article7040864.ece
redford (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 11:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.