16.12.2010 | 13:31
Leiðangurinn mikli
Engin geimför hafa kennt okkur jafn mikið um sólkerfið og Voyager-förin.
Nokkrum árum áður en geimförin fóru á loft höfðu stjörnufræðingar hugsað sér að nýta sérstaklega heppilega uppröðun reikistjarnanna sem verður á 176 ára fresti. Hugmyndin var þá að nýta uppröðunina til að þeyta geimförunum á milli reikistjarnanna og spara þannig gríðarlega orku. Þannig hefðu geimförin getað ferðast til Júpíters, Satúrnusar, Úranusar, Neptúnusar og Plútó, sem á þeim tíma var enn flokkaður sem reikistjarna. Fallið var frá þessum áformum vegna fjárskorts. Engu að síður var tækifærið nýtt og Voyager 1 sendur í ferðalag til Júpíters og Satúrnusar en Voyager 2 til allra reikistjarnanna nema Plútós.
Báðum förum var skotið á loft árið 1977 og heimsóttu þau Júpíter tveimur árum síðar og Satúrnus árin 1980 og 1981. Eftir að hafa flogið framhjá Satúrnusi var Voyager 1 beint út úr sólkerfinu okkar og hefur það nú ferðast lengst allra manngerðra hluta frá jörðinni. Voyager 2 hélt áfram leiðangri sínum og flaug framhjá Úranusi árið 1986 og Neptúnusi árið 1989. Voyager 2 leið út úr sólkerfinu líkt og Voyager 1 en mun aldrei taka fram úr systurfari sínu. Voyager leiðangrarnir hafa kennt okkur langmest af því sem við vitum um ytra sólkerfið og lögðu línurnar fyrir aðra leiðangra eins og Galíleó til Júpíters árið 1995 og Cassini til Satúrnusar árið 2004.
Í dag eru tölvur og hugbúnaður orðin miklu öflugri en áður sem gerir áhugafólki kleift að vinna upp á nýtt myndir frá þessum geimförum. Útkoman er oftar en ekki hreinasta listaverk!
Tengt efni:
====
Daufir gammablossar og jólakúla Hubblessjónaukans
Hvað eru daufir gammablossar? Sjá nýja frétt frá ESO hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1049/
Einnig er hér ný frétt um glæsilega mynd frá Hubblessjónaukanum http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/307
====
Við minnum fólk á jólagjafalista Stjörnufræðivefsins http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/301
- Sævar
Geimfar stendur undir nafni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Ég man eftir því hvað það var spennandi að sjá myndirnar frá Voyager I og II í fréttum sem barn. Stórbrotið ferðalag sem opnaði augu mín fyrir óravíddum og leyndadómum himingeimsins.
Arnar Pálsson, 17.12.2010 kl. 11:10
Trúi því að það hafi verið spennandi að fylgjast með þessu á sínum tíma. Nú er ég of ungur til að muna eftir þessu en miðað við hvað ég bíð óþreyjufullur eftir myndum frá geimferðum nútímans, þá hefði ég sennilega aldrei haft þolinmæðina í að bíða í nokkra daga jafnvel vikur eftir niðurstöðum framhjáfluganna á tímunum fyrir internetið.
Það er gaman að skoða Tímarit.is og sjá fréttir frá þessum tíma. Einhvern veginn finnst mér eins og vísindafréttir hafi fengið meira pláss þá en nú, en það kann að vera rangt hjá mér.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 17.12.2010 kl. 15:48
Þegar ég var 12 ára sá ég með eigin augum fyrsta gervihnöttinn, þ.e. Sputnik-1. Sjálfsagt hefur mér þótt það merkilegt, því ég man vel eftir tilfinningunni og sé enn þann dag í huganum litla punktinn svífa yfir himininn :-)
Líklega hefur það verið mjög skömmu seinna sem ég smíðaði lítinn sjónauka úr meters-löngum pappahólk. Að framan var gleraugnagler með 100cm brennivídd, líklega um 5cm í þvermál (keypti það í gleraugnabúð í Hafnarstræti minnir mig), og augnglerið var lítið stækkunargler um 1 cm í þvermál og brennivíddin 2cm. Kíkirinn stækkaði því 50 sinnum sem var auðvitað nóg til að sjá vel tungl Júpíters og gígana á tunglinu. Auðvitað var litbrenglun töluverð og voru tunglgígarnir í öllum regnbogans litum :-) Því miður glataði ég þessum frumstæða kíki.
http://en.wikipedia.org/wiki/Sputnik_1
Stjörnusjónauki er örugglega holl og góð jólagjöf.
Ágúst H Bjarnason, 19.12.2010 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.