Fékkstu sjónauka í jólagjöf?

Við vitum að fjölmargir fengu stjörnusjónauka í jólagjöf. Margir bíða eflaust spenntir eftir því að prófa gripinn því veðrið hefur ekki verið mjög heppilegt til stjörnuskoðunar síðustu daga.

Hér undir eru nokkur hollráð og tenglar sem ættu að auðvelda þér að byrja í þessu skemmtilega áhugamáli:

  • Vertu þolinmóð(ur) – Það tekur alltaf tíma að læra á stjörnusjónauka og mikilvægt að sýna þolinmæði og gefast alls ekki upp. Að læra á sjónauka er eins og að læra á hljóðfæri, nema miklu auðveldara, en maður þarf að læra réttu handtökin.
  • Lesu leiðarvísinn – Öllum sjónaukum fylgir leiðarvísir. Þeir eru misgóðir eins og gefur að skilja en í þeim eru yfirleitt alltaf nægar upplýsingar til að svara helstu spurningum sem kunna að vakna.
  • Prófaðu sjónaukann að degi til – Það er miklu auðveldara að læra á sjónaukann með því að prófa hann að degi til. Stilltu miðarann með því að horfa á ljósastaur og áttaðu þig á stækkuninni með því að kíkja á umhverfið í kringum þig.
  • Notaðu alltaf minnstu stækkun fyrst – Margir halda að stækkunin sé mikilvægasti eiginleiki stjörnusjónauka en svo er ekki. Það er miklu auðveldara að finna fyrirbæri á himninum með minnstu stækkun en mestu því sjónsviðið er miklu víðara. Auk þess er myndin yfirleitt alltaf tærari og skarpari í minni stækkun en meiri. Auktu stækkunina þegar þú ert búin(n) að finna fyrirbærið sem þú ætlar að skoða.
  • Sæktu þér stjörnukort – Á Stjörnufræðivefnum er hægt að sækja stjörnukort mánaðarins til útprentunar. Á því eru ýmis fyrirbæri sem auðvelt er að finna á himninum. Sæktu líka Stellarium ókeypis stjörnufræðihugbúnað í tölvuna þína á íslensku.

En hvað er hægt að skoða? Ýmislegt en við mælum með því að fólk byrji á að skoða tunglið og reikistjörnunar. Það eru tignarlegustu fyrirbærin sem maður skoðar með sjónauka. Allir stjörnusjónaukar ættu að stækka nóg til þess að þú sjáir Galíleótunglin við Júpíter, hringa Satúrnusar og gígana á tunglinu. 

Það borgar sig að eignast fleiri augngler. Augnglerin eru þeir hlutar sjónaukans sem stækka og ráða sjónsviðinu og eru því lang mikilvægustu fylgihlutir stjörnusjónauka. Með öllum sjónaukum fylgja oftast tvö augngler en gott er að eiga eitt til tvö til viðbótar. Augngler fást alla jafna hjá Sjónaukar.is.

Að lokum, besta leiðin til að koma sér af stað í þessu áhugamáli er að skrá sig í námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. Næsta námskeið verður eftir áramót, sennilegast í febrúar og þá bæði krakkanámskeið og fullorðinsnámskeið. Við munum kynna það þegar þar að kemur.

Tengt efni:

- Sævar

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband