Aðeins meira um þessa skemmtilegu frétt

snSprengistjörnur eru gríðarlega öflugar sprengingar mjög massamikilla stjarna. Þessi stjarna sem sprakk í vetrarbrautinni UGC 3378 varð um stutta stund jafn björt og heil vetrarbraut. Hugsið ykkur, ein stjarna sem skín á við hundrað milljarða sóla. Hér til hægri sést mynd af sprengistjörnunni (blikkandi ljósblettur í stefnu klukkan 2 frá stóra blettinum í miðjunni) og vetrarbrautinni. Myndin sem fylgir fréttinni á við um eldri frétt af annarri sprengistjörnu. Þegar stjarnan sprakk varð sennilega annað hvort til nifteindastjarna eða svarthol.

Ég flutti pistil í þættinum Vítt og breitt á Rás 1 á mánudag þar sem ég kom inn á sprengistjörnur. Hvet ykkur öll til að hlusta á hann til að fræðast meira. Hægt er að hlýða á pistilinn hér. Hér undir er svo stuttur kafli úr pistlinum:

Ef stjarna er meira en átta sinnum þyngri en sólin lifir hún í innan við 1 milljarð ára. Þegar vetnið í kjarna hennar er uppurið dregst kjarninn saman og byrjar að framleiða orku úr öðrum efnum eins og helíumi, súrefni og kolefni, rétt eins og sólin okkar og aðrar massaminni stjörnur. Í tilviki sólar lýkur ferlinu þegar hér er komið sögu, en alls ekki í tilviki þyngri stjarna. Sé hún nógu massamikil verður hún að reginrisa sem umbreytir sífellt þyngri frumefnum í orku í innviðum sínum. Segja má að hún vinni sig upp eftir lotukerfinu. Stjarnan knýr fram orku úr kolefni, neoni, súrefni, kísli, brennisteini, argoni, kalsíumi, títani, krómi uns röðin er komin að járni. Járn losar ekki orku svo auðveldlega en tekur hana frekar til sín. Þá er stjarnan skyndilega komin á endastöð.

Afleiðingarnar eru hrikalegar. Skyndilega hrinur stjarnan saman með tilheyrandi hamförum. Efnislög stjörnunnar þeytast út í geiminn í stórfenglegri sprengingu. Í þessari sprengingu skilar stjarnan öllum þeim efnum sem mynduðust við kjarnasamruna innan í henni sem og öll önnur frumefni sem við þekkjum í náttúrunni en þau myndast við sprenginguna sjálfa. Þessi efni dreifast um vetrarbrautina og mynda nýjar stjörnur, ný sólkerfi og jafnvel nýtt líf.

Járnið í blóðinu okkar, kalkið í beinunum, gullið í skartgripunum, kísilinn í bláa lóninu og tölvunum okkar og brennisteininn í flugeldunum má sem sagt rekja stjarna sem hafa sprungið í tætlur fyrir mörgum milljörðum ára.

Menn hafa nokkrum sinnum orðið vitni að þessum hamförum með berum augum. Árið 1054 sást stjarna springa í Nautsmerkinu. Það tók ljósið frá henni 6.300 ár að berast til okkar sem þýðir að þegar menn urðu hennar fyrst varir hafði stjarnan í raun og veru verið dáin í 6.300 ár. Þessi sprengistjarna var svo björt að hún sást að degi til og lesbjart var á næturnar í nokkrar vikur. Í dag sést á sama stað geimþokan Messier 1 eða Krabbaþokan úr efnunum sem stjarnan skilaði frá sér við dauða sinn.

Í miðju þokunnar er ofurþétt leif stjörnunnar sem áður skein skært. Þessi leif er úr nifteindum, svonefnd nifteindastjarna sem er stjarna á stærð við höfuðborgarsvæðið en snýst ógnarhratt, um 30 sinnum á sekúndu. Frá þessari stjörnu berst mjög reglulegt tif sem olli stjörnufræðingum miklum heilabrotum þegar þau heyrðust fyrst.

Fleiri stjarna í Vetrarbrautinni okkar bíða þessi nöturlegu örlög. Sólin okkar er sem betur fer ekki í þeim hópi en nokkrar þeirra eru áberandi á kvöldhimninum þessa dagana, til dæmis Fjósakonurnar þrjár í Óríon og stjarnan Betelgás í sama merki.

===

Frétt: Árekstur vetrarbrauta ekki lengur talinn ábyrgur fyrir vexti svarthola

Hvað gerist þegar vetrarbrautar rekast á? Undangengin ár hefur árekstur vetrarbrauta verið talinn valda gríðarmiklum geislunarhrinum úr miðjum vetrarbrauta. Með hliðsjón af viðamiklum rannsóknum er nú unnt að kveða upp dóm: Samruni vetrarbrauta seðjar ekki hungur svartholanna sem knýja þessa virku vetrarbrautakjarna, svo öðrum fyrirferðarminni fyrirbærum er um að kenna.

Lesa meira http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/319

===

Frétt: VISTA starir djúpt í bláa lónið

vista_lonthokan.jpg

Þessa nýju ljósmynd, sem er innrauð, tók VISTA sjónauki ESO í Paranal-stjörnustöðinni í Chile af Lónþokunni. Myndin er hluti af fimm ára rannsókn á Vetrarbrautinni okkar og aðeins lítill hluti af miklu stærri ljósmynd af svæðinu í kringum þokuna. Sú mynd er að sama skapi aðeins lítill hluti af enn stærra svæði allt verður kortlagt.

- Sævar


mbl.is Stúlka fann sprengistjörnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

This is all very interesting. And a necessary knowledge for the younger generation. Kathryn's discovery shows that children too can adopt a scientific and methodical way of thinking.

Vendetta, 5.1.2011 kl. 23:09

2 Smámynd: Birnuson

Ég biðst forláts, en það slær nokkuð á löngunina til að „lesa meira“ þegar fyrsta klausan hefur að geyma annað eins og „vetrarbrautar rekast á“ eða „seðjar ekki hungur“. (Sögnin að seðja beygist eins og sögnin að kveðja.)

Birnuson, 6.1.2011 kl. 01:09

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Sælir

Las einmitt grein í NYTIMES um jólin um áhugavísindamenn. Managing Scientific Inquiry in a Laboratory the Size of the Web By ALEX WRIGHT

Hanny van Arkel had been using the Galaxy Zoo Web site less than a week when she noticed something odd about the photograph of IC 2497, a minor galaxy in the Leo Minor constellation. “It was this strange thing,” she recalled: an enormous gas cloud, floating like a ghost in front of the spiral galaxy.

...Stories like Ms. van Arkel’s are becoming more common, as the Internet opens up new opportunities for so-called citizen scientists. And as millions of people get involved in these participatory projects, scientists are grappling with how best to harness the amateurs’ enthusiasm.

Þetta vekur ákveðnar spurningar um eðli vísinda. Mér finnst stórkostlegt þegar fólk finnur nýja fugla hérlendis, bein í jarðlögum eða nýjar stjörnur á himni. En það þarf að gera meira til að skilja mikilvægi þessara funda, setja þá í samhengi. Spyrja vísindalegra spurninga auk þess að lýsa nýjungum.

Stephen Emmott, head of computational research at Microsoft Research, agrees that most citizen science projects tend to treat participants as high-functioning cogs in a distributed machine. “Certainly this is participatory,” he said, “but is it science?”

Dr. Emmott believes that before Web users can claim the mantle of citizen scientists, they will have to be given more meaningful roles. “Participants should be able to make a genuine contribution,” he said, “and get something back.”

Dr. Emmott’s team is exploring new models that would involve users in the research process without compromising academic rigor.

Bara til  hugleiðingar.

Arnar Pálsson, 6.1.2011 kl. 10:43

4 identicon

Maður veltir fyrir sér þegar maður horfir á t.d Venus á morgnanna,þá kannski lokar maður augunum,þþegar maður opnar þau sérðu Venus á sekúndubroti en ekki nokkrum mínútum seinna, það sama á við sólina og af hverju ekki þá gríðarlegar hamfarir langt út í geim, maður skildi ætla að sjón okkar sjái í núinu. Ef maður sem kannski byggi  á hnetti í Andrómeda stjörnuþokunni  myndi veifa til okkar í dag,hlytum við að sjá það á sekúdubroti en ekki 2 miljónum ára seinna.Þetta eru nú bara smá pælingar sem maður hugsar oft um þegar maður rýnir út í óravíddir  alheimsins.

             Með kveðju Bragi.

Bragi Egilsson (IP-tala skráð) 9.1.2011 kl. 12:07

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nú langar mig að bera undir ykkur eitt atriði. Fyrir nokkrum árum sá ég ljós eða blossa á himninum sem stóð yfir í 1-2 sekúntur og var bjartara er Venus getur orðið. Þetta kom ekki frá hlut sem var á ferð og líktist hvorki stjörnuhrapi né glampa frá gervitungli eins og stundum sést. Getur verið að þarna hafi lítil sprengistjarna sprungið eða standa slíkar sprengingar ekki svona stutt yfir?

P.S. Ég útiloka líka geimverur.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.1.2011 kl. 18:10

6 Smámynd: Jónatan Gíslason

Bragi

Þú í raun sérð ekki sólina eins og hún er núna heldur hvernig hún var fyrir 8 mínútum vegna þess að það tekur ljósið 8 mínútur að ferðast frá sólinni til jarðarinnar. þó þú lokir augunum þá er ljósið samt ennþá á leiðinni til okkar og þess vegna sérðu sólina eða Venus um leið og þú opnar augun aftur. Sama á við um það að ef einhver sem byggi á plánetu í Andrometu myndi veifa í dag þá legði ljósið af stað til okkar í dag og myndi ferðast á 300.000 km hraða á sek og þar sem að Andrometa er í 2 millj ljósára fjarlægð þá myndi ljósið ekki ná til okkar fyrr en eftir 2 millj ára og þá myndiru sjá manninn veifa  :)

Jónatan Gíslason, 10.1.2011 kl. 15:21

7 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Emil, það sem þú sást var að öllum líkindum gervitungl. Þetta er alveg örugglega Iridium blossi. Þeir geta birst upp úr þurru, sýnst hreyfingarlausir og dofnað mjög hratt aftur. Ég hef séð nákvæmlega eins blossa og þú talar um sem varð miklu bjartari en Venus.

- Sævar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 10.1.2011 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband