Stjörnueyja í Fljótinu

potw1103a.jpg

Á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sjást glögglega daufir þyrilarmar þyrilþokunnar NGC 1345. NGC 1345 er hluti af vetrarbrautarþyrpingu í stjörnumerkinu Fljótinu – hópi um 70 vetrarbrauta í um 85 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. Á þessum stað á næturhimninum er fjöldi bjartra vetrarbrauta einkum vegna þess að önnur vetrarbrautaþyrping í stjörnumerkinu Ofninum er þar nærri. Þótt þyrpingarnar séu nálægt hvor annarri á himinhvelfingunni eru um 20 milljón ljósár á milli þeirra. Saman mynda þessar þyrpingar Syðri reginþyrpinguna.

Það var John Herschel sem uppgötvaði NGC 1345 í Suður Afríku. Hann lýsti fyrirbærinu sem litlum, daufum og ógreinilegum þokuhnoðra, enda er mjög erfitt að sjá vetrarbrautina, jafnvel með stórum áhugamannasjónaukum nútímans.

hpotw1103_vb.jpgÍ bakgrunni myndarinnar sjást ótal margar enn fjarlægari vetrarbrautir af öllum stærðum og gerðum. Í NGC 1345 er greinilegur bjálki sem teygir sig milli armanna um kjarnann. Vetrarbrautin telst því til bjálkaþoka eins og Vetrarbrautin okkar er talin vera. Flokkun og greining vetrarbrauta er mikilvægur þáttur í könnun alheimsins því þær gefa okkur vísbendingar um þróun alheimsins. Flokkun vetrarbrauta er ein af fáum verkefnum nútíma stjarnvísinda þar sem mannfólkið er hæfara til verksins en tölvur. Þess vegna hafa vísindamenn Hubble óskað eftir liðsinni almennings í Galaxy Zoo verkefninu. Þar gefst notendum kostur á að renna í gegnum ljósmyndir frá Hubble geimsjónaukanum og gera ef til vill merkar uppgötvanir í leiðinni.

Þessari mynd var skeytt saman úr ljósmyndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys í gegnum bláa síu annars vegar og nær-innrauða síu hins vegar. Í heild var lýsingartími um hvora síu 17,5 mínútur.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble

Tengt efni

- Tryggvi Kristmar Tryggvason

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband