ALMA undir Vetrarbrautarslæðunni

alma_jose_francisco_salgado.jpg

Hér sjást fjórir útvarpssjónaukar Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) stara upp í stjörnumprýddan næturhimininn og búa sig undir verkefnin sem eru framundan. Tunglskinið lýsir upp svæðið frá hægri og vetrarbrautarslæðan teygir sig þvert yfir myndina vinstra megin. Ef rýnt er í myndina sést Kolapokinn — dökkt rykský í Vetrarbrautinni okkar — í efra vinstra horninu og þar rétt hjá glittir bleikan ljósbjarma sem er stjörnumyndunarsvæðið Kjalarþokan.

Menn eru í óðaönn við að koma ALMA í gagnið í yfir 5000 metra hæð á Chajnantor sléttunni í Atacamaeyðimörkinni í Chile, einum þurrasta stað veraldar. Hæðin yfir sjávarmáli og þurrleiki loftsins gerir þennan stað kjörinn til að rannsaka alheiminn á millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdum. Á þessum löngu bylgjulengdum ljóss geta stjörnufræðingar skyggnst inn í þétt gas- og rykský í Vetrarbrautinni þar sem nýjar stjörnur verða til. Alheimurinn er enn sem komið er óplægður akur á þessum bylgjulengdum svo stjörnufræðingar eiga von á holskeflu nýrra uppgötvana um myndun stjarna, uppruna vetrarbrauta og sólkerfa þegar ALMA tekur til starfa.

Hægt er að lesa sér betur til um ALMA á íslensku á vefsíðu European Southern Observatory (ESO).

Mynd: ESO/José Francisco Salgado (josefrancisco.org)

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Smávegis lítt viðkomandi pistlinum:

Bestu þakkir fyrir góðan vísindaþátt í dag þar sem m.a. forheimskun og erfðabreyttar lífverur komu við sögu. Frábær þáttur. Bara verst hve maður gleymir oft að kveikja á útvarpinu

Ágúst H Bjarnason, 22.2.2011 kl. 18:05

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Nú er ég forvitinn

Ég er í áskrift á vísindaþættinum, hvenær má búast við að nýir þættir birtist (síðasti sem ég fékk er frá 25 jan)..

Höskuldur Búi Jónsson, 22.2.2011 kl. 20:45

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Takk kærlega fyrir það Ágúst. Ég var sömuleiðis hæstánægður með hvað hann Pétur talaði tæpitungulaust.

Höskuldur, Pétur Henry Petersen, sameindalíffræðingur, var í viðtali hjá okkur um sínar rannsóknir og erfðabreyttar lífverur. Við komum einnig inn á forheimskun nútímans sem birtist á glötuðum vefmiðlum og í fjölmiðlum almennt.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 22.2.2011 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband