19.3.2011 | 12:17
Merkilegur leiðangur
Við birtum blogg um þetta rétt áður en geimfarið komst á sporbraut. Birti hana bara aftur hér undir. Það er annars ein villa í mbl.is fréttinni sem vert er að benda á (búið að leiðrétta hana núna). Þar segir að geimfarið sé í 46 km fjarlægð (á auðvitað að vera í 46 milljón km fjarlægð) frá Merkúríusi. Minnsta fjarlægð Merkúríusar frá sólinni er 46 milljón km en mest rúmlega 69 milljón km. Meðalfjarlægðin er næstum 58 milljón km.
Rétt eftir miðnætti að íslenskum tíma, aðfaranótt 18. mars, kemst MESSENGER geimfar NASA á braut um Merkúríus. Þetta er í fyrsta sinn sem geimfar kemst á braut um þessa litlu og steiktu reikistjörnu sem er smærri en tvö stærstu tungl Sólkerfisins, Ganýmedes og Títan.
MESSENGER var skotið á loft í ágúst 2004 og var því næstum sex og hálft ár á leiðinni. Ástæðan er ekki sú að Merkúríus sé svo langt í burtu, heldur er reikistjarnan svo djúpt inni í þyngdarbrunni sólar að hægja þarf á ferð geimfarsins eins og frekast er unnt svo það komist á braut um hana. Að öðrum kosti þýtur geimfarið framhjá. Að lokum kemst MESSENGER á sporöskjulaga pólbraut með 12 klukkustunda umferðartíma. Fjarlægðin verður minnst 200 km en mest yfir 15.000 km.
MESSENGER ver heilum tveimur Merkúríusardögum á braut um Merkúríus. Tveir Merkúríusardagar eru reyndar fjögur Merkúríusarár eða eitt jarðarár. Merkúríus snýst nefnilega hægar um sjálfan sig en umhverfis sólina eins og lesa má um hér.
Merkúríus er mjög forvitnilegur hnöttur sem við vitum afskaplega lítið um. Við fyrstu sýn virðist hann ekki mjög ólíkur tunglinu okkar en ekki er allt sem sýnist. Hann er þéttasti hnöttur sólkerfisins á eftir jörðinni. Merkúríus er hnöttur öfganna, að minnsta kosti þegar kemur að yfirborðshitastigi. Lofthjúpur er af skornum skammti og því sveiflast hitastigið frá 430°C hita á daginn niður í -170°C frost á næturnar. MESSENGER vafalaust eftir að draga upp mjög áhugaverða mynd af þessum hnetti.
Endum þetta á einni glæsilegri mynd frá MESSENGER, sem er reyndar ekki af Merkúríusi heldur kunnuglegri hnöttum:
Já, þarna erum við. Þetta er heima. Þetta er jörðin og tunglið séð frá innstu reikistjörnu sólkerfisins.
Tengt efni
- MESSENGER á Stjörnufræðivefnum
- Merkúríus á Stjörnufræðivefnum
- Heimasíða MESSENGER
- NASA TV (Bein útsending frá brautarinnsetningunni)
Já, vissir þú að á Merkúríusi eru tveir gígar sem nefndir eru eftir Íslendingum
----
Tilþrifamikil stjörnumyndun
Á nýrri nærmynd sem tekin var með Very Large Telescope ESO sjást þau miklu áhrif sem nýmynduð stjarna hefur á gasið og rykið sem myndaði hana. Þótt stjarnan sjálf sjáist ekki á myndinni rekst efni sem hún varpar frá sér á gas- og rykský í kring og myndar undarlegt samspil glóandi hringboga, sletta og ráka.
Sjá nánar hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1109/
----
Hubble tekur nærmynd af Tarantúluþokunni
Hubblessjónauki NASA og ESA hefur beint sjónum sínum að hluta hinnar frægu Tarantúluþoku og birtist hún okkur á þessari glæsilegu mynd. Þokan er gríðarstórt stjörnumyndunarsvæði, ský gass og ryks í nágrannavetrarbraut okkar, Stóra Magellansskýinu. Myndin sýnir okkur miðsvæði Tarantúluþokunnar, glóandi rafað gas og ungar stjörnur.
Sjá nánar hér http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/358
- Sævar
Á sporbraut um Merkúr í fyrsta sinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:02 | Facebook
Athugasemdir
Hér er áhugaverð fræðsla um þyngdarbrunna:
http://xkcd.com/681_large/
Andri Snær Ólafsson (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 12:49
Fer þá geimfarið ekki óþægilega nálægt Sólinni, ef fjarlægð þess frá Merkur er sú sama og minnsta fjarlægð Merkur frá Sólu?
Reyndar, samkvæmt smá googli þá er sporbaugurinn 200-15000 km yfir yfirborði plánetunar (sporöskjulaga).
Arnar, 21.3.2011 kl. 10:08
Já, þarna var smá yfirsjón líka.
Gúgl var eiginlega líka óþarft því í textanum stendur
Að lokum kemst MESSENGER á sporöskjulaga pólbraut með 12 klukkustunda umferðartíma. Fjarlægðin verður minnst 200 km en mest yfir 15.000 km.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 21.3.2011 kl. 11:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.