21.3.2011 | 11:00
Mynd vikunnar: Þyrillaga lykill að útþenslu alheimsins
Þessi mynd Hubblessjónauka NASA og ESA sýnir fallega þyrilvetrarbraut, NGC 5584. Þessi vetrarbraut hefur gegnt lykilhlutverki í nýrri rannsókn þar sem ætlunin er að mæla hversu hratt alheimurinn þenst út með meiri nákvæmni en áður hefur verið gert.
Árið 1881 sá Edward Emerson Barnard NGC 5584 fyrstur manna sem lítinn og daufan þokublett með aðeins 12,5 cm sjónauka. Með því að nýta greinigetu Hubblessjónaukans til hins ítrasta má greina sundur þúsundir stjarna í NGC 5584. Sumar þessara stjarna breyta birtu sinni lotubundið og eru nefndar sefítar. Sefítar búa yfir mjög sérkennilegum eiginleikum því nota má tímann sem líður milli þess að stjarnan nær hámarksbirtu sinni og þar til hún dofnar aftur til að reikna út hve björt stjarnan er í raun. Þegar sú birta er borin saman við hve björt stjarnan sýnist á himninum má reikna út hversu langt í burtu hún er. Þessi aðferð hefur reynst einna best til að meta fjarlægðir til nálægra vetrarbrauta.
Stjörnufræðingar, undir forystu Adams Riess við Space Telescope Science Institute, hafa nú beitt þessari brellu í veigamikilli rannsókn á útþensluhraða alheims. Með því að rannsaka marga sefíta í nokkrum vetrarbrautum hefur rannsóknarhópur Riess endurbætt þekkingu okkar á útþenslu alheims. Þeim hefur tekist að ákvarða svonefndan Hubblesfasta með aðeins 3,3 prósenta óvissu.
Í NGC 5584 varð nýlega sprengistjarna af gerð Ia. Þessar öflugu sprengingar hvítra dverga eru notaðir sem staðalkerti í kortlagningu á burthraða og -hröðun fjarlægustu vetrarbrauta alheims. Þessi vetrarbraut gegnir þess vegna lykilhlutverki í fjarlægðarkvörðun alheims. Hægt er að lesa sér nánar til um þessa rannsókn og mikilvægi hennar hvað hulduorkuna varðar í fréttatilkynningu NASA.
Þessi mynd var sett saman úr mörgum myndum sem teknar voru í gegnum þrjár mismunandi síur með Wide Field Camera 3 myndavél Hubblessjónaukans. Ljós sem barst í gegnum síu sem hleypir í gegn sýnilegu ljósi var litað hvítt, ljós sem bars í gegnum gula/græna síu var litað blátt og myndir sem teknar voru í gegnum nær-innrauða síu voru litaðar rauðar. Myndin nær yfir 2,4 bogamínútna breitt svæði á himinhvelfingunni. Heildarlýsingartími var 20,8 klukkustundir.
Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble.
Tengt efni
- Hubblessjónaukinn
- Hubblessjónaukinn á Stjörnufræðivefnum
- Þyrilvetrarbrautir á Stjörnufræðivefnum
- Fjarlægðarstiginn á Stjörnufræðivefnum
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 20.3.2011 kl. 23:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.