Mynd vikunnar: Kyrrlát þyrping með ofsafengna fortíð

M12

Aragrúi stjarna í kúluþyrpingum líkt og Messier 12, sem hér sést á mynd frá Hubblessjónauka NASA og ESA, gerir þær einstaklega myndrænar. Þyrpingarnar eru þéttar og hýsa þess vegna mörg framandi tvístirni, t.d. stjörnur sem sjúga til sín efni frá förunautum sínum og gefa við það frá sér röntgengeislun í leiðinni. Vísindamenn telja að slík röntgentvístirni verði til þegar stjörnur á þéttum svæðum eins og í kúluþyrpingum gerast mjög nærgöngular. Þótt Messier 12 sé fremur strjál á mælikvarða kúluþyrpinga hafa þess háttar röntgentvístirni engu að síður fundist í henni.

Stjarneðlisfræðingar hafa einnig áttað sig á því að í Messier 12 eru mun færri lágmassastjörnur en áður var talið, sjá t.d. frétt ESO frá 2006. Í nýlegri rannsókn notuðu vísindamenn VLT sjónauka Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli á Cerro Paranal í Chile til að mæla birtu og lit meira en 16.000 stjarna í þyrpingunni sem í heild telur um 200.000 stjörnur. Þeir álíta að nærri milljón lágmassastjörnur hafi horfið á brott úr Messier 12 á leið hennar í gegnum þéttustu svæði Vetrarbrautarinnar.

Það er því allt útlit fyrir að kyrrðin sem býr í þessari mynd Messier 12 sé misvísandi því augljóst er að þyrpingin á sér ansi ofsafengna fortíð.

Messier 12 er í um 23.000 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Naðurvalda. Myndin var tekin með Advanced Camera for Surveys myndavélinni á Hubble geimsjónaukanum. Myndin var sett saman úr myndum sem teknar voru í gegnum bláa síu (litaðar bláar), rauða síu (litaðar grænar) og nær-innrauða síu (litaðar rauðar). Heildarlýsingartíminn var um 32 mínútur. Myndin þekur um 3,2 x 3,1 bogamínútur af himinhvolfinu.

Mynd vikunnar kemur frá NASA og ESA

Tengt efni

 
- Tryggvi Kr. Tryggvason

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband