30.3.2011 | 16:19
Enn um ofurmána - breytingar á forsíðu
Fólk fór ekki varhluta af æsifréttum um „ofurmána“ (ekkert til sem heitir ofurmáni) og varð svo fyrir vonbrigðum þegar máninn var ekkert risastór laugardagskvöldið 19. mars síðastliðinn (hef heyrt í nokkrum). Sagt var í fjölmiðlum að þetta gerðist á 19 ára fresti (sem er rangt). Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, skrifar frábæra grein um þetta (bull) á vefsíðu sína, Almanak.hi.is. Í pistli sínum segir Þorsteinn meðal annars:
Í fyrsta lagi er engin 19 ára regla í ofurmánum. Við þurfum ekki að fara nema þrjú ár aftur í tímann til að finna dæmi um það að máninn hafi verið nær jörðu en nú, svo að munaði 9 kílómetrum. Það gerðist 12. desember 2008. Fellibylurinn Andrew gekk yfir í ágúst árið 1992, fyrir 19 árum. Máninn komst vissulega nálægt þetta ár ( í 356 550 km fjarlægð), en það var í janúarmánuði, ekki í ágúst. Máninn komst 22 km nær en þetta hinn 8. mars 1993, 18 árum og 11 dögum fyrr en ofurmáninn nú.
Síðar í pistlinum skammar Þorsteinn mig aðeins fyrir ónákvæmni. Það að sjálfsögðu í góðu lagi enda veit ég upp á mig skömmina. Í pistli sem ég skrifaði á bloggið (sem var svo birtur á Vísindavefnum) sagði ég:
Á sama tíma er tunglið líka eins nálægt jörðinni og það kemst. Verður því hér um að ræða stærsta fulla tungl ársins 2011, um það bil 14% breiðara og rétt yfir 30% bjartara en önnur full tungl á árinu.
Eins og Þorsteinn bendir á er þetta ekki allskostar rétt. Fyrsta setningin er röng því tunglið getur komist nær okkur. Þarna hefði orðið „nánast“ átt að koma inn í. Í seinni setningunni hefði ég að sjálfsögðu átt að sleppa „önnur full tungl...“ og segja í staðinn „en þegar það er lengst frá jörðu“ eins og Þorsteinn bendir á í pistli sínum.
Ég þakka Þorsteini kærlega fyrir þessar leiðréttingar!
Hægt er að lesa pistilinn í heild hér http://almanak.hi.is/ofurmani.html og ég mæli með því að þið lesið hann.
---
Breytingar á forsíðu Stjörnufræðivefsins
Glöggir lesendur Stjörnufræðivefsins hafa eflaust tekið eftir að gerðar hafa verið örlitlar breytingar á forsíðunni. Þar sem áður var vísun á stjörnufræðimynd dagsins, sem var á ensku, er nú komin Mynd vikunnar (á íslensku). Mynd vikunnar hefur að undanförnu birst hér á blogginu en við teljum hana fremur eiga heima á forsíðu vefsins sjálfs. Ný og glæsileg mynd birtist á hverjum mánudegi.
Einnig hefur bæst við dálkur sem nefnist tilkynningar. Þangað ratar það efni sem ef til vill á ekki heima undir Fréttum en er samt vert að minna eða vekja athygli á.
Við vonum að þessar breytingar falli vel í kramið.
---
Rósrauður bjarmi stjörnumyndunar
Við dýrkum fallegar myndir af alheiminum. ESO birtir reglulega nýjar myndir sem teknar hafa verið með einhverjum af sjónaukum samtakanna. Í dag birtist þessi mynd af rauðglóandi vetnisskýi sem umlykur stjörnuþyrpingu í nágrannavetrarbraut okkar Litla-Magellanskýinu sem er í um 200.000 ljósára fjarlægð.
Hægt er að fræðast meira um hana hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1111/
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.