Svona lendir næsti Mars jeppi á rauðu reikistjörnunni

Innkoma, fall í gegnum lofthjúpinn og lending er erfiðasti hjallinn sem öll geimför sem send eru til Mars þurfa að yfirstíga. Allt er fyrirfram ákveðið og þarf að ganga fullkomlega upp því ekki er hægt að stjórna innkomunni frá jörðinni.

Það er gríðarlega erfitt að lenda geimfari á Mars vegna þess að reikistjarnan hefur örþunnan lofthjúp. Á tunglinu, þar sem loftmótstaða er engin, er einfaldlega dregið úr hraðanum með hjálp eldflauga og lent mjúklega á rykugu yfirborðinu. Öðru máli gegnir um hnetti á borð við Venus og Títan sem báðir hafa þykka lofthjúpa sem tiltölulega auðvelt er að ferðast í gegnum og lenda mjúklega. Lofthjúpur Mars er eiginlega léleg afsökun fyrir lofthjúpi. Á yfirborðinu er álíka mikill þrýstingur og í 30 km hæð yfir jörðinni og það gerir lendingu mjög erfiða. 

Í lok þessa árs verður nýjum Marsjeppa, Mars Science Laboratory eða Curiosity, skotið á loft. Eftir um níu mánaða ferðalag kemst jeppinn loks á leiðarenda og hefst þá þetta lendingarferli:

Segja má að þessi Curiosity sé Spirit og Opportunity (eldri Marsjeppar) á sterum. Hann vegur næstum tonn og er 2,7 metra langur — í raun er hann ekki ósvipaður Mini Cooper bifreið að stærð. Jeppinn er kjarnorkuknúinn en ekki beint hraðskreiður og nær mest 90 metra hraða á (0,09 km/klst).

Við munum segja betur frá þessum leiðangri þegar nær dregur. Á meðan er hægt að lesa sér betur til um Curiosity á Stjörnufræðivefnum.

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Flott, en er þetta ekki óþarflega áhættu samt?  Myndi halda að það væri svakalega vandasamt að slaka bílnum svona niður meðan ferjan svífur fyrir ofan.  Sérstaklega ef allt þarf að vera forritað 9 mánuðum áður.

Arnar, 8.4.2011 kl. 10:07

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Þetta er víst eina aðferðin sem menn hafa til að lenda þetta þungum jeppa á Mars. Loftpúðar duga ekki, hann er of þungur til þess. Annars er þetta ekki svo ólíkt því hvernig Viking geimförunum og Phoenix geimfarinu var lent á Mars, fyrir utan auðvitað kranann. Þetta er mjög vandasamt jú og þess vegna mikið afrek þegar þetta tekst.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 11.4.2011 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband